Það er enn dimmt
og dropar úr lofti.
Lágvær kitlandi niður
þegar regnið lendir í vatninu.
Ég syndi á milli dropanna,
sem gera mjóar súlur á vatnsyfirborðið.
Sumar upp undir þriggja sentimetra háar.
Laugarbirtan fyllir súlurnar ljósi neðan frá
meðan þær birtast og hverfa, hver sekúndu í senn
og ég syndi í gegnum þrívíddarsinfóníu fyrir augun.
Höfundur: Sesselía Ólafsdóttir
Sesselía mun lesa upp ljóð á morgun, sunnudaginn 9. september kl. 14, á Listasafni Akureyrar. Upplesturinn er hluti af upplestrarröðinni Til málamynda, sem verður í Listasafni Akureyrar alla sunnudaga í september klukkan 14, þar sem ljóðskáldin munu eiga í samtali við valin verk og reyna að búa til nýja tilfinningu, nýja upplifun, nýtt pláss í huga þeirra sem vilja ljá augu og eyru. Hér má lesa nánar um upplestrarröðina.