Heimurinn er að fara til andskotans, það er augljóst mál. Erdógan er að á góðri leið með að gera Tyrkland gjaldþrota, Danir eru að sökkva í rasistafen, ungverski einræðisherrann Viktor Orban er búinn að berja niður síðasta hættulega andstæðinginn, hundruðir manna dóu í náttúruhamförum í Indónesíu og Japanir eru svo miklar karlrembur að þeir lækka viljandi einkunnir kvenkyns nemenda í læknisfræði til að tryggja að karlmenn verði áfram miklu fjölmennari í stéttinni. Og þetta voru bara fyrstu tíu blaðsíðurnar í mánaðargömlu Guardian Weekly sem ég var að enda við að lesa. Ég treysti mér ekki mikið lengra strax, ætla að bíða með að lesa um glæpahöfuðborg Mexíkó og veit ekki hvort ég legg nokkurn tímann í að lesa um kattamorðingjann í Croydon.

Áður en lengra er haldið: þetta er allt rétt. Og Guardian er um flest gott og vandað blað, blað sem tekur á málum og forðast ódýran popúlisma. En þessi mynd er samt fölsk og einhvers staðar þarna liggur vandi vestrænnar blaðamennsku.

Loftslagsbreytingar og uppgangur þjóðernishyggju er raunveurleg ógn, váleg ógn sem gæti vel steypt okkur öllum í glötun. Slæmar fréttir eru mikilvægar, við þurfum að stinga á kýlum, við þurfum að krefjast breytinga þegar breytinga er þörf, við þurfum að vera upplýst. En samt, það er eitthvað sem vantar.

Líklega þetta síðasta, við erum ekki upplýst. Jafnvel ekki þótt við séum dugleg við að lesa Guardian og séum vel inní heimsmálum. Af því að þótt blaðamennirnir vandi sig þá eru þeir of fljótir að falla ofan í hefðbundnar sagnafléttur, þótt allt sem þeir segi sé rétt þá eru svo mikilvægir hlutir sem þeir hugsa ekki út í að segja – eða jafnvel, sem ég held að sé kannski líklegra, hefðir vestrænnar blaðamennsku leyfa þeim það ekki.

Það sem vantaði í flestar þessar fréttir voru fleiri víddir, flóknari veruleiki. Ég var orðinn leiður á viðmælendum sem lýstu réttlátri reiði, jafnvel þótt ég vissi vel að þetta væri svo sannarlega réttlát reiði. Því ég vissi að þetta fólk var svo miklu meira en bara réttlát reiðin. Tökum dæmi um fréttina frá Danmörku. Þar var talað við múslímakonur sem gengu með slæður og fannst á sér brotið á ýmsan hátt með nýju gettólögunum. Ef ég væri danskur hversdagsrasisti færi ég ekkert að skipta um skoðun af því að einhver múslimakona er ósammála mér, sérstaklega þegar ekkert í fréttaflutningnum var úr takt við þessar staðalmyndir.

Þarna þarf að dýpka myndina. Ég hefði gaman af að heyra sögur af því hvað þær eru að gera annað, danski hversdagsrasistinn virkilega þarf að vita hvað þær eru að gera ef hann á að eiga einhverja von um bata. Því ef hann sér að ein þeirra spilar á banjó á kvöldin og öskrar úr sér lungun á Bröndby-leikjum um helgar, er skotin í Mads Mikkelsen og spilar póker frekar en að stunda saumaklúbba, á meðan önnur les Kóraninn og Stephen King jöfnum höndum, stundar samkvæmisdansa, er lakkrísfíkill og finnst gaman að kjafta í heita pottinum. Sumsé, að þær geri alls konar hluti sem þeir og vinir þeirra gera. En líka að þær geri alls konar aðra framandi hluti en að vera með slæðu og ákalla Allah, alla hlutina sem aldrei er talað um. Hluti sem eru ekki hluti af fréttatímum og fyrirsögnum.

Þetta hefur oft verið álitið hlutverk listanna, að dýpka myndina, gæða efni fréttatímanna fleiri víddum. Þannig öðlumst við alvöru skilning. En fjölmiðlar ættu að gera það líka, þeir eiga ekki að vera einhver náttúruleg andstæða listanna. Ákveðnar kröfur eru auðvitað öðruvísi – sannleikskrafan er til dæmis allt annars eðlis í fréttum heldur en í skáldskap, svo augljóst dæmi sé tekið, en mörg önnur lögmál eru eins. Bestu fréttirnar eru marglaga, djúpar og vel skrifaðar og af sanngirni – rétt eins og bestu skáldsögurnar og bestu ljóðin.

Svarið við þessu er aukin menningarumfjöllun í tvíþættum skilningi orðsins, bæði að fjalla meira um listir en líka að fjalla meira um daglegt líf fólks, einfaldlega af því þetta daglega líf gefur okkur mynd af „hinum“ – þessum „hinum“ sem við ýmist hötum eða er innst inni sama um (þótt við séum í prinsippinu með þeim í liði), oftast af því við þekkjum þá ekki.

Svo ætti næsta skref að gera jafnvel ákveðna kröfu um lágmarksmenningu í öllum alvöru fréttum, meiri dýpt, meiri gleði og meiri alvöru, gleyma þessari úreltu skilgreiningu um harðar fréttir og mjúkar – því frétt sem er bara hörð eða mjúk er oftar en ekki fölsk. Alvarlegar fréttir sem eru bara heimsósómi og menningarfréttir sem eru innihaldslaust pepp eru af sama meiði svart-hvítrar heimsmyndar.

Gegn öllu þessu er Menningarsmygl stofnað. Þetta er vettvangur fyrir menningu, vissulega, en líka ferðasögur og menningu frá fjarlægum slóðum. Ef vel gengur kemst smyglið á meira flakk – og nær þar með að smygla enn fjölbreyttari menningu en annars, því þótt auðvitað fari mikil orka í þá menningu sem stendur okkur næst (þá íslensku sem er okkar og þá engilsaxnesku sem tröllríður öllu) þá þurfum við líka góðan skammt af hinu, því þótt bæði íslensk menning og engilsaxnesk sé hvoru tveggja óþrjótandi lindir af merkilegum sögum og listaverkum þá eru þetta einsleitar lindir. Flestir eru hvítir og þeir fáu sem eru það ekki eru aldir upp í löndum hvíta mannsins, flestir tala sömu tungumálin og lifa í sama hugmyndaheiminum.

Þannig verður „hinn“ til. Þessi „hinn“ sem stundum er múslimi og var einu sinni gyðingur eða blökkumaður. Af því okkur er svo sjaldan sýnt að þetta séu manneskjur. Ekki einu sinni í fréttum frjálslyndra dagblaða sem eru á einhvern hátt að reyna að standa vörð um mannréttindi þeirra. En gleyma óvart um leið að þetta eru manneskjur, ekki bara uppspretta réttlátrar reiði.

Og til þess að muna að flækja þetta sjálfur þá er rétt að taka fram að tónninn í umræddu Guardian breytist á blaðsíðu ellefu. Þar er rætt við klukkusala í Kaíró sem er að fara að loka, búð sem hefur verið til í meira en hundrað ár. Í gegnum hans sögu fáum við svipmynd af hverfinu og íbúum þess – en um leið „harða“ frétt um uppavæðingu (e. gentiification) svæðisins, sem er að svæla núverandi íbúa í burtu, marga sem hafa búið þarna eða rekið fyrirtæki í áratugi. Þetta er merkt sem „Egypt Diary,“ það þurfti annan haus en fréttahausinn til þess að komast upp með að skrifa fréttina eins og réttast var að skrifa hana. Það ætti samt að vera óþarfi, svona hefðu hinar fréttirnar mátt vera líka – birta okkur fyllri mynd af fólkinu sem lifir, býr og vinnur undir Erdógönum og Orbönum þessa heims. Birta okkur myndir af lífi þess, ekki bara þjáningum þeirra. Þetta kallast persónusköpun í sagnalistinni – og fjölmiðlar mættu stundum muna eftir því að þeirra list er líka sagnalist, þótt persónurnar þeirra hafi þegar verið skapaðar þá þurfa þeir eftir sem áður að túlka þær.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson