Gleðileg hrunmæli, elsku allir. Til hamingju með … andleysið og ládeyðuna. Hugsjónaleysið. Hvað gerðist eiginlega? Þetta átti ekki að fara svona. Eða kannski átti þetta alltaf að fara nákvæmlega svona.

Við Íslendingar lærðum alveg helling af hruninu. Við lærðum að hlutir eins og stjórnarskrá skipta í alvörunni máli, við lærðum að kapítalisminn er ekki svo sniðugur eftir allt saman og við lærðum að stjórnmálamennirnir okkar eru alltof margir rotnir í gegn. Við lærðum að gagnrýnisleysi er hættulegt og að það sem hljómar of gott til að vera satt er það líklega ekki. Við lærðum að við erum samfélag hvort sem okkur líkar það betur eða verr, því ef einhverjir okkar klúðra hlutunum nógu rækilega lendir skömmin á okkur öllum. Sem og reikningurinn.

En svo gleymdum við því öllu. Við erum föst í okkar menntaskólasjálfi, að læra þetta allt saman daginn fyrir próf, til þess að bjarga okkur, til þess að sleppa fyrir horn, til þess að gleyma þessu öllu daginn eftir.

Það er auðvitað ekkert skrítið við þetta, þetta er sjokkþerapía – við erum búin að brenna okkur einu sinni en einmitt þess vegna erum við dæmd til að endurtaka sömu mistökin. Við verðum hrædd og rög, en um leið og við verðum hrædd og rög sækjum við enn meira í öryggið. Næstu mánaðarmót eru alltaf handan við hornið. Næsta redding.

Þetta reddast. Í örstutt augnablik sáum við (og aðrir) í gegnum þennan frasa – þessa heimspeki sem er okkar stærsti veikleiki. Þessi heimspeki er svo aftur orðin að okkar stærsta styrkleika í erlendum blöðum, Ísland er aftur orðið ósigrandi út af einhverju sérstöku eðli. Þessi heimspeki sem gerir öll framtíðaráform hjákátleg.

Og þótt við sjáum í gegnum þetta erum við föst í neti reddingarinnar.

Um leið eru hugsjónir hrunsins steindauðar að því virðist – en ég vona að ég sé ekki að sjá stóru myndina, ég vona að þetta sé bara tímabundið bakslag, ég vona að við séum ekki búin að fokka þessu endanlega upp.

Eða svo ég rifji upp gamlan pistil sem er enn í fullu gildi, ef við breytum bara árafjöldanum:

„Við byrjuðum á einhverju stórkostlegu veturinn 2008-9. Fólk er ennþá að tala um það hérna á meginlandinu, þau halda að við höfum klárað þetta. Jafnvel með reisn. En það gerðum við svo sannarlega ekki. Það eru tíu ár síðan Haarde bað Guð að blessa Ísland. En Guð reddar okkur ekki í þetta skiptið, við verðum að berjast sjálf í fúlustu alvöru fyrir nýrra og skárra Íslandi. Við þurfum að finna vonina einhvers staðar aftur. Eða finna bara nýtt land og halda skárra partí þar.“

Texti: Ásgeir H Ingólfsson