Utøya 22. Juli er norsk bíómynd um hryðjuverkin í Útey eftir Erik Poppe, 22 July er amerísk bíómynd um hryðjuverkin í Útey eftir Paul Greengrass. Keimlíkir titlarnir valda skiljanlega endalausum ruglingi á spjallþráðum internetsins og til að greiða úr þessum misskilningi er rétt að taka tvennt fram; þær nálgast atburðina á gjörólíkan hátt og sú norska er frábær, sú ameríska ekki.
Byrjum á þeirri norsku, sem er tekin í einni langri töku og gerist einvörðungu á eyjunni sjálfri. Við fáum örlítið andrými í upphafi – þegar unglingarnir frétta af árásinni í Ósló í óljósum fréttum, þau eru ringluð en hafa samt ekki miklar áhyggjur, ógnin virðist órafjarri. Eins og hún virðist oftast í hinum vestræna hluta heimsins. Síðan heyrum við fyrstu byssuhvellina og myndinni líkur þegar þeir hljóðna.
Myndin fylgir allan tímann henni Kaju, ungri og ráðagóðri stúlku sem verður viðskila við systur sína rétt fyrir árásina. Þetta er mynd um hrædda krakka, krakka sem hjálpast að en vita samt ekkert hvað þau eiga af sér að gera gagnvart þessari óskiljanlegu ógn. Fyrir utan eina senu sést lítið eiginlegt blóð – en ógnin er stöðug og skelfileg og byssuhvellir óma sífellt í fjarska.
Ógnin sést samt aldrei almennilega. Við sjáum byssumanninn tvisvar, í fjarska – eins og flestir sáu hann. Ef þú sást hann betur en það varstu líkast til ekki til frásagnar. Byssumaðurinn er aldrei nefndur á nafn – ekki einu sinni í textanum sem birtist í lokin. Þetta tryggir að þetta verður fyrst og fremst mynd um fórnarlömbin, bæði þau sem lifðu og þau sem dóu. Krakkarnir vinna leiksigur öll sem eitt, bæði aðalleikkonan Andrea Berntzen sem og hin sem birtast okkur og hverfa í óreiðukenndum flóttanum.
Myndin færir mann eins nálægt hinum eiginlega atburði og hægt er, nær en nokkur fréttatími eða blaðagreinar. Og hún hjálpar manni að muna það sem raunverulega gerðist. Svona atburðir eiga sér iðullega langa eftirmála þar sem alls kyns upplýsingar hlaðast ofan á það sem gerðist í upphafi, þangað til atburðurinn sjálfur verður nánast hversdagslegur, klausa í Öldinni okkar. Myndin færir mann til baka – í mínu tilfelli aftur til augnabliksins þegar ég kom heim úr sakleysislegri skógarferð og settist við tölvuna til að skoða fréttirnar og sökk niður í endalaust svarthol um leið og ætlun og meining Breiviks varð ljós. Þessa manns sem hljómaði eins og versta botnfall kommentakerfa internetsins – en náði líka að sanna að hann meinti hvert orð.
Myndin um Breivik
Á meðan Poppe nefnir Breivik ekki á nafn er hann hin raunverulega aðalpersóna amerísku myndarinnar. Senan þegar hann sprengir upp hluta af ráðuneytishverfinu í Ósló er með magnaðri senum myndarinnar, og í kjölfarið mætir hann til Úteyjar og heldur þar áfram voðaverkum sínum. Sú sena er blessunarlega allt öðruvísi heldur en í mynd Poppe – enda væri óþarfi að sjá sömu mynd aftur. Hér fylgjum við Breivik eftir í morðæði sínu, en fáum þó lítillega að kynnast tveimur bræðrum – sem verða í lykilhlutverki síðar í myndinni. Þessi sena er líka örstutt í Greengrass-myndinni, tekur ekki nema kortér, á meðan árásins sjálf varði í 72 mínútur. Það er svo aðeins um hálftími liðinn af myndinni þegar skotárásinni líkur og tæpir tveir tímar ennþá eftir. Það má því að nánast líta á myndina sem framhald fyrri myndarinnar, með örstuttri upprifjun í byrjun.
Greengrass færist hins vegar of mikið í fang, reynir að segja margar sögur í einu – en tekst bara almennilega upp með eina þeirra. Forsætisráðherrann Jens Stoltenberg segir það sem hann þarf að segja en verður aldrei að raunverulegri persónu í myndinni og klemma verjanda Breivik er athyglisverð en nær þó ekki þeirri dýpt sem maður hefði óskað. Sú saga sem heppnast langbest er saga Viljars, ungs drengs sem bjargaði bróður sínum en endaði sjálfur alblóðugur og deyjandi við strönd Úteyjar. En hann lifði af, þótt hann hafi misst annað augað og sé enn með lífshættulega kúlu við heilann – sem þýðir að það eitt að skalla fótbolta gæti drepið hann, ef kúlan myndi færast til.
Jonas Strand Gravli vinnur leiksigur í hlutverki Viljars, við fylgjumst með honum breytast úr sprækum strák í hálfgert skar – á tímabili lítur hann út eins og draugur, draugurinn sem hann nærri því varð – í brothættum líkama sem hann kannast illa við. Þessari sögu hefði Greengrass einfaldlega átt að einbeita sér að – ekki af því það sé bannað að segja margar sögur í einu, heldur af því þetta er sú eina sem hann nær að kveikja alvöru líf í.
Að því sögðu hefði samt mátt skrifa samtöl Viljars og fjölskyldu betur, rétt sem og önnur samtöl. Myndin er tekin upp á ensku með norskum leikurum – fyrir utan að læknateymið er allt íslenskt, með lækna-Tómas fremstan í flokki. Sem ætti alveg að geta gengið upp, þetta gerðist stuttu eftir kreppu þegar Íslendingar flykktust til Noregs og ekki ólíklegt að í einhverjum spítala hafi starfað heilt skurðlæknateymi brottfluttra Íslendinga. Vandinn er hins vegar ekki sá að norsku persónurnar tali ensku, heldur að þeir tala eins og ameríkanar. Allar tilfinningar eru útskýrðar í löngu máli, eitthvað sem fámálir skandínavar myndu seint gera.
Stærsti galli myndarinnar er hins vegar fíllinn í herberginu, Breivik sjálfur. Breivik myndarinnar er aldrei sannfærandi – og manni finnst hreinlega eins og leikarinn Anders Danielsen Lie sé hreinlega hræddur við hlutverkið. Skiljanlega, mögulega hræddur við að gera ómennið of brjóstumkennanlegt eða of töff. Of mennskan eða of mikla ófreskju.
Í ofanálag er hann ekki vitund líkur Breivik – og raunar allt öðruvísi týpa, útlitslega. Breivik er stereótýpískur aríi, með sitt ljósa hár og lærða yfirstéttarfas (þótt vissulega hafi uppruni hans verið fátæklegri), honum líður vel í jakkafötum á meðan hinn dökkhærði Breivik myndarinnar lítur út fyrir að vera nýbúinn að læra að binda bindishnút. Þessi Breivik virðist koma beint úr gettóinu – og í ofanálag vantar ekki nema örlítið smink til þess að hann gæti leikið arabískan hryðjuverkamann, frekar en arískan. Það er einhver skelfileg sögufölsun fólgin í því.
Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson