Hvar varst þú þegar skotárásin var gerð á Útey? Ég gæti sagt ykkur það – en ég var búinn að gleyma tilfinningunni, hún var grafin undir ótal fréttum og pistlum um Breivik og öllu sem hafði gerst síðan. En Útey – 22. júlí (Utøya 22. juli) færir okkur aftur þangað – og nær en við höfðum nokkru sinni komist áður. Myndin er tekin í einni töku – og er um einn og hálfur tími, í rauntíma, þangað til árásarmaðurinn gafst upp. Þá höfðu 68 látið lífið og 8 í viðbót dáið í sprengingu í Ósló. Einn til viðbótar lést svo að sárum sínum tveim dögum síðar.
En hver var ætlun leikstjórans? Spyrjum bara fyrst: af hverju?
„Það var spurning sem ég þurfti að finna svar við snemma,“ segir leikstjórinn Erik Poppe mér í Berlín, daginn eftir frumsýningu. „Því það var hluti af ákvörðuninni um hvort ég myndi gera myndina eða ekki. Þetta snerist um að reyna að nota listina til að sýna hvað gerðist. Vegna þess að orðin komast ekki alla leið, við lásum vitnisburðina fyrir rétti … en við munum samt aldrei skilja þetta almennilega. Og myndin mun ekki hjálpa okkur að skilja þetta til fulls, en hún getur sýnt okkur betur hvernig þetta var, fært okkur nær. Og ég held það sé hægt að læra ýmislegt með því að fara inn í þennan kvikmyndasal og fara í gegnum þennan sársauka. Og ég held það sé á vissan hátt ákveðin sáluhjálp.“
Hann kemur líka inn á möguleg framtíðarhryðjuverk. „En hún vekur einnig spurninguna: hvað getum við gert til að koma í veg fyrir að eitthvað svona gerist aftur? Og án þess að muna, án þess að hafa skýra hugmynd um hvað raunverulega gerðist, er það erfitt, því við erum byrjuð að gleyma. Við reynum samt að skilja, samkennd er okkur eðlislæg, þannig að við viljum skilja – og við gerum það að hluta. En ekki að fullu. En myndin getur hjálpað okkur að komast nær því. Og svo er spurningin, hvað getum við lært af því? Hvað getum við gert? Ég vil ekki að myndin svari þeim spurningum – en ég vona að hún kveiki þær hjá áhorfendum. Kannski er ein þeirra spurninga: Af hverju gerðu þau þessa mynd?“
Atburðirnir eru þó augljóslega hluti af stærri sögu. „Þetta er bara ein saga, af einum atburði, þeir eru fleiri. Þetta var sök eins manns, eins manns sem fannst hann ekki vera hluti af þessu samfélagi. Það virðast vera margir svona menn, sem eru einir og telja sig ekki hluta af samfélaginu. Og við þurfum að skoða hvað við getum gert til þess að fá þá inn í samfélagið eða fylgjast með ef einhver er að einangra sig. Vissulega hafa margir þeirra pólitískar meiningar sem ég hata – en stundum er betra að fá þá til þess að tala um þessar meiningar heldur en að tjá þær með svona skelfilegum hætti, þegar ofbeldi er orðin eina leiðin sem þeir hafa til að tjá hug sinn.“
En þótt myndin sé fyrir okkur er hún kannski ennþá frekar fyrir eftirlifendurna og ættingja þeirra sem dóu. Áður en hefðbundnar hátíðarfrumsýningar á kvikmyndahátíðum áttu sér stað voru 20 sýningar víðs vegar um Noreg fyrir eftirlifendur og ættingja, til þess að undirbúa þá fyrir fjölmiðlaumfjöllunina, með sálfræðingateymi sem var viðstatt allar sýningarnar. Poppe vann líka náið með þeim í undirbúningi myndarinnar. „Fyrst höfðu þau áhyggjur af því að þetta yrði hasarmynd, afþreyingarmynd. Það er búið að ræða þessa mynd lengi – og sumir voru hræddir um hvers konar mynd þetta yrði. Þannig var léttir fyrir mörg þeirra hvað myndin var ekki. Og ein þeirra var kona sem hafði alla tíð verið skeptísk á gerð myndarinnar – en hvatti alla Norðmenn til að sjá hana eftir að hafa séð hana, því þetta sé eitthvað sem sé mikilvægt að muna og skilja.“
Hafði efasemdir um að gera myndina
Hann sjálfur deildi þessum efasemdum í upphafi. „Ég eyddi meira en einu og hálfu ári við að hitta eftirlifendur, til að fá sögurnar frá þeim. Ég talaði við þá sem rannsökuðu atburðina og velti fyrir mér, er hægt að færa þessa sögu í kvikmynd? Og til að byrja með var ég skeptískur á það. Það er auðvitað hægt að gera hasarmynd úr þessu, en hugmyndin var að reyna að fara inn á þennan stað í heilanum og reyna að sýna þetta og skilja, frá öðru sjónarhorni en venjulega í bíómyndum. Vegna þess að eftir á virtist fókusinn fljótlega fara á allar aðrar hliðar 22. júlí, sem eru varnarviðbrögð samfélagsins. Þannig að þegar maður talar um 22. júlí þá talar maður um allt annað en einmitt það sem gerðist á eyjunni. En svo fann ég lausnina og fundaði í kjölfarið með eftirlifendum og ættingjum.“

En hvert var fundarefnið? „Að kynna þeim hugmyndina að reyna að gera kvikmynd um atburðina og ná á þann hátt minningunum til baka, færa fórnarlömbunum 22. júlí aftur, með því að gera mynd sem er algjörlega sögð frá sjónarhorni unglinganna sem voru á eyjunni. Ég sagði þeim líka að ég væri ekki að biðja um stuðning þeirra, þau ættu ekki að styðja neina mynd, ábyrgðin væri alfarið okkar. En ef þið eruð alfarið á móti gerð myndarinnar þá mun ég íhuga það alvarlega að hætta við.“
Það sem þau gáfu honum í staðinn var óttinn um allt sem þau vildu ekki að myndin yrði. Og hann tók tillit til þess, meðal annars af því margt af því gerði myndina sterkari. „Og á þessum tíma varð til hópur eftirlifenda, sem tóku þátt í handritaferlinu og leikaravalinu og það varð fljótlega ljóst að kvikmynd með hefðbundinni uppbyggingu kæmi ekki til greina.“
Ekki Hollywood-útgáfa
Við þekkjum öll frasann „byggð á sannri sögu“. Sem verður oft nánast merkingarlaust þegar við komumst að því hversu skáldaleyfið var mikið. En hvað með þessa mynd, gerðist þetta allt saman í alvörunni?
„Já, meira og minna. Það voru fjögur lög sungin á eyjunni, við vitum um þrjú þeirra, því krakkarnir voru sjálf búin að gleyma hvað það fjórða var. Það voru nokkrar systur þarna, saga sumra þeirra var svipuð,“ segir Poppe, en aðalpersóna myndarinnar, Kaja, verður viðskila við systur sína snemma í myndinni. Myndin er vissulega skáldskapur – en nánast allt efnið er tekið úr viðtölum við eftirlifendur, hvort sem það voru einstakir viðburðir, söngvar eða önnur viðbrögð. „Þetta átti ekki að vera Hollywood-útgáfan, þetta átti að vera eins nálægt raunveruleikanum og mögulegt var. Eitthvað sem þau gætu öll staðið á bak við og sagt: svona var upplifunin.“

Ég mun ekki greina frá endanum hér – en Poppe segir mér að hann hafi verið með aðra uppbyggingu í huga alveg þangað til mánuði fyrir tökur. „Sá endir var bara ekki nógu sannur. Ég minntist líka loforðs sem ég gaf móður sem missti nítján ára dóttur sína í Útey. Hún var mjög skýr með það að hún væri ekki fylgjandi því að myndin yrði gerð. En hún bætti við: „En ef þessi mynd sýnir ekki hvað raunverulega gerðist, sem var að þarna var maður sem var mættur til að drepa fólk, og ef þú sýnir það ekki heiðarlega, hvernig sem þú ferð að því, þá mun ég elta þig uppi … dóttir mín dó þarna. Þannig að gerðu það fyrir mig, ekki gera þetta fallega mynd um ást, von og fegurð,“ segir Poppe og tekur fram að slíkt hafi þó verið til staðar – og það er vissulega til staðar í myndinni. „Það voru margir sem gerðu frábæra hluti, voru hetjur, hjálpuðu öðrum, en þetta er fyrst og fremst saga um fólk sem var drepið eða er ennþá að vinna úr þessari lífsreynslu. Og við vildum vera trú því.“
Talandi um Hollywood, Paul Greengrass er líka að gera Úteyjarmynd – sem var frumsýnd í Feneyjum nýlega. Poppe segist lítið vita um þá mynd. „En Åsne Seierstadt, sem skrifaði bókina sem sú mynd er byggð á, er góð vinkona mín. Hún leitaði ráða hjá mér þegar hún fékk boð um fund með framleiðanda og ég gaf henni fáein ráð.“ Og kvikmyndaiðnaðurinn í Noregi er vissulega lítill heimur. „Þegar ég lauk tökum á minni mynd fór stór hluti tökuliðsins að vinna að hans mynd. En ég vona bara og treysti á að hann geri sitt besta, hann er frábær leikstjóri.“ Ef marka má stikluna úr þeirri mynd virðist hún þó gjörólík mynd Poppe.
Eftir árásina Kynningarherferð myndarinnar hefur viljandi verið afskaplega lágstemmd. Til að mynda sést ekki meira en þessi yfirgefnu tjöld í stiklu myndarinnar, sem rekur auk þess atburðina.
Lítil systkini að leika stór
Það eru sjö ár liðin frá atburðunum í Útey og þótt það sé ekki langur tími fyrir okkur hina fullorðnu þá er það hálft lífið fyrir aðalleikurum myndarinnar – sem eru í raun kynslóð litlu systkina þeirra sem voru í Útey.
„Það var eitt af því erfiðasta, að undirbúa þau fyrir að ganga í gegnum þetta. Og ég þurfti ekki bara góða leikkonu til að leika Kaju, þau þurftu öll að vera tilbúin. Fólk þarf að trúa á þau öll. Og þau þurfa að tjá tilfinningar sem sjálfur Robert De Niro myndi eiga í vandræðum með að túlka. Ég þurfti að treysta þessum kornungu leikurum til þess að ráða við það og örlög myndarinnar ultu á því. En það þurfti líka nægan æfingatíma – og ég var í þrjá mánuði með þeim í æfingabúðum. Og ég setti þetta upp eins og æfingar fyrir leikrit, þar sem við tókum fyrir senu fyrir senu. Vegna þess að eina leiðin til þess að gera þetta var að gera þetta í einni töku, eins og leikrit eru.“

Undir lok æfingatímans fékk hann tökumanninn á staðinn síðustu þrjár vikurnar. „Þau þurftu að venjast honum, læra að leika ekki fyrir hann, enginn þeirra hafði leikið í kvikmynd áður. Þannig að þau þurftu einfaldlega að læra.“
Svo fóru þau í kvikmyndaver í Ósló til þess að æfa hlaupin, finna réttu vegalengdirnar, allt þurfti að vera eins og í raunveruleikanum. „Svo fórum við á eyjuna síðustu vikuna – við höfðum fimm daga. Og það var ómögulegt að ná meira en einni töku á dag, þau voru öll andlega úrvinda eftir hverja töku.“ Og hvaða dag notaði hann? „Ég get sagt þér að við notuðum ekki mánudag og ekki föstudag.“
Byssuhvellirnir eilífu
Það er ekki mikið af blóði í myndinni eða líkum, öllu slíku er haldið í lágmarki – þótt mögulega geti upplifunin verið önnur. „En það er sífelld skothríð, við heyrum skotin allan tímann. Ofbeldið er í þessum byssuhvellum. Þannig upplifðu þau sem voru á eyjunni þetta, ef þú stóðst fyrir framan hann, þá varstu dauður. Fólk faldi sig eins og það gat, sem við gerðum líka, með myndavélarnar.“
Það dó um tíunda hver manneskja í Útey – en flestir sem voru þar héldu að hinir látnu væru miklu fleiri. „Það voru flestir í felum, þöglir, og þegar bátarnir komu að sækja fólk kom mörgum á óvart hvað það var mikið af fólki ennþá lifandi á eyjunni.“ Enda hafði þetta verið eins og draugaeyja, fyrir utan skothvellina.
„Já, ég notaði skothvelli í tökum. Þeir voru staðsettir þar sem hryðjuverkamaðurinn var á hverjum tíma. Þau þurftu að bregðast við þeim. Það voru 405 byssuskot sem hleypt var af, á mismunandi stöðum, miðað við það sem við vitum, og til þess að leikararnir gætu brugðist rétt við byssuskotum þurftum við byssuskot. Það hafði mikil áhrif á okkur öll andlega, ekki bara leikarana heldur líka tökuliðið. Við vorum samt öll undirbúin og við vorum með sálfræðiaðstoð til taks. Við vildum ekki búa til nýtt tráma.“

Andrea Berntzen, aðalleikkona myndarinnar, hefur þó sagt í viðtölum að þetta hafi samt verið öðruvísi af því þau vissu hvað var að gerast – og Poppe tekur undir það. „Þau vita að við erum þarna. Og ef þú dettur og fótbrýtur þig þá komum við og hjálpum þér. Þú veist af öryggisnetinu,“ segir Poppe og minnir mann á að Breivik var í lögreglubúningi, þau gátu ekki einu sinni treyst því öryggisneti lengur. Sem sást best þegar raunveruleg lögreglan loksins kom og unglingarnir grátbáðu hana um að skjóta ekki.
„En um leið og árásin hófst, þá var þetta hrollvekjandi staður til að vera á, þetta var hrollvekjandi tökustaður.“
Poppe sjálfur vann manna lengst við myndina. Hvaða áhrif hafði vinnan á hann? „Auðvitað hefur þetta áhrif. En ég get alltaf minnt sjálfan mig á ástæðurnar fyrir því að gera myndina. En auðvitað efast maður stundum, það held ég að allir listamenn geri sem eru að reyna að segja eitthvað einlægt. Ég skal líka viðurkenna að ég hef aldrei unnið að jafn krefjandi verkefni. Ekki bara tæknilega, heldur af því siðferðislegu spurningarnar eru svo stórar. Þess vegna reynum við að hafa aðstandendur og eftirlifendur með í ráðum alla leið.“
En hann er breyttur maður. „Ég veit ekki hver ég er núna, ég veit bara að ég er önnur manneskja. Svona verkefni breytir manni,“ segir hann og rifjar upp frumsýninguna, þar sem fulltrúar eftirlifenda héldu ræðu. „Þau þökkuðu okkur, þau voru þakklát og þau notuðu jafnvel orð eins og „glöð“, þeim leið betur með að myndin væri til.“
Sá sem ekki má nefna
„Af hverju notarðu ekki nafnið hans? Hann heitir Anders Behring Breivik.“
Þetta sögðu sumir eftirlifendur við Poppe, en skoðanir voru skiptar. „Þetta hefur mikið verið rætt í Noregi – hvað eigum við að kalla þennan mann? Notið nöfn á borð við hryðjuverkamann, en ekki nota nafnið hans. Ekki auka á frægð hans. Það er öðruvísi erlendis, fyrir ykkur er hann einfaldlega Breivik, norski hryðjuverkamaðurinn.“
Breivik sjálfur sést raunar varla í myndinni. „Þú sérð hann tvisvar, í fjarska, útundan þér, það var líka þannig sem flestir sáu hann – eða sáu ekki.“
Á endanum varð svo niðurstaðan að nefna hann aldrei. Í lok myndarinnar er svartur rammi sem rekur atburðina – en þar er aðeins talað um hryðjuverkamann. „Það er af virðingu við þá sem vildu ekki nota nafn hans.“
Og þótt ég sé ekki endilega sammála einmitt þessum ástæðum, þá gerir þetta myndina sterkari – með því að leggja áherslu á að þetta sé mynd um fórnarlömbin – ekki hryðjuverkamanninn. En það mun örugglega einhver gera mynd um hann líka á endanum.
Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.
Viðtalið birtist upphaflega í Stundinni 28. september 2018.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson