Við í FIPRESCI dómnefndinni vorum svo heppin að hafa tvo snillinga sem aðstoðarmenn og leiðsögumenn, sem gerðu miklu meira fyrir okkur en hægt var að ætlast til af þeim. Þetta smyglvarp er fyrir þá og með þeim í aðalhlutverki. Þetta eru fjögur myndbönd og það fyrsta er tekið eftir hið eiginlega partí, þegar við stóðum við það loforð að fá okkur shisha með Yasser.
Duhok er vel að merja ekki áfengislaus borg, hér er ekkert mál að finna bjór eða rautt, en vín er samt ekki jafn miðlægt í skemmtanalífi hér eins og víðast hvar í Evrópu. Hér hafa þeir hins vegar te og vatnspípur. Vatnspípuna góðu sem tekur fimm tíma að klára (skilst mér, við kláruðum ekki enda klukkan orðin margt).
Og það að fá sér vatnspípu með meistara Yasser hjálpar manni til að skilja þennan kúltúr betur. Vatnspípan er tjáning, sköpun, þetta snýst um að skapa ský, teikna myndir í loftið sjálft. Þetta er líka óvenju góð leið til að þegja saman, sérstaklega þegar það eru bara tveir eftir – þá gefst lítið tóm til að tala og er tilvalið að stilla á góða músík, maður heyrir hana sjaldan betur en þegar maður bíður eftir næsta smók.
(Auðvitað er þetta stórhættulegt og óholt – þannig að prófið þetta einu sinni, bara einu sinni, svo þið vitið allavega hvað þið eruð að tala um.)
En spólum snöggvast til baka – yfir í dagsbirtu – og förum upp á fjall. Zawa-fjall, sem gnæfir yfir borginni. Þar er útsýni yfir Duhok, þangað kemur fólk að drekka te og reykja sisha, en líka kærustupör sem ekki vilja sjást. Og auðvitað böskarar á mótórhjólum. Leyfum Roj að eiga orðið – og biðjumst velvirðingar á hljóðinu, það er bölvað rok uppi á þessum fjöllum.
Þegar þið eruð búin að hlusta á Roj getiði svo skoðað þessa stórkostlegu hálfkláruðu byggingu, hér eru flestar byggingar í smíðum – þetta ku vera veitingastaður í smíðum, en sá veitingastaður verður seint jafn stórkostlegur og þetta draugahús með himnastiganum eina.
Loks, í fjarskanum, hinum megin fjallsins – eru hvítar breiður. Þetta eru flóttamannabúðir, þarna eru hálf milljón eða ein milljón eða tvær milljónir flóttamanna frá Sýrlandi – hér eru allar tölur á reiki.
Texti og myndbönd: Ásgeir H Ingólfsson