Það er að myndast hefð að lesa úti á landi þann 7. október, síðast var það í České Budějovice en núna var röðin komin að Písek. Með Šimoni, mínum manni í Budějovice, og þeim Zbyněk og Richard.

Þetta var bara dagsferð, lítill tími til annars en að labba sem leið lá í gegnum miðbæinn frá lestarstöðinni, yfir brúna og á ljóðelskt uglukaffihúsið. Ég var enn að ná áttum þegar ég sá að ég gæti tekið kvikmyndaskóla bæjarins sem kenndur er við Miroslav Ondříček, kvikmyndatökumanninn á Ástir ljósku, Amadeus og fleiri myndum Formans, sem og Hollywood-mynda á borð við Silkwood, The World According to Garp og A League of Their Own. Sonurinn David Ondříček er svo leikstjóri sem ég tók viðtal við þegar hann kom á RIFF í fyrra lífi. En ég var of svangur fyrir slíka útúrdúra og rambaði þess í stað á styttu af ljóni sem var að stúta snák. Nánar tiltekið frönskum og sardínskum snák, styttan var gerð 1861, tveimur árum eftir orustuna um Solferino og Melegnan, alla leið suður á Ítalíu, og tímasetningin skýrir hve þýskan fær drjúgan sess á minnismerkinu. Þarna dóu 872 hermenn Písek-herdeildar Austurrísk-Ungverska keisaraveldisins í bardaga við Frakka. Og vitaskuld eru nánast allir búnir að gleyma til hvers var barist, taka bara mynd af reffilegu ljóni að gæða sér á snákum.

Það er annars hálfgerður draugabær við fyrstu sýn, sárafáir á ferli um miðjan dag. Nema hvað, þegar ég kem að fyrsta matsölustaðnum af þremur sem ég hafði merkt við hjá mér, í miðjum trjálundi, þá er eins og landamær miðbæjarins séu einmitt þar og skyndilega fer að lifna yfir öllu. Ég byrja á því að fá mér óvart snitsel, af því allt hitt sem mér leist á á matseðlinum var búið, og dáist að útisviðinu rétt hjá. Ég þarf að lesa þarna þegar ég er búinn að slá aðeins meira í gegn í Písek.

Það virðist einhver hefð hérna að halda uppá fallegar auglýsingar frá þriðja eða fjórða áratug síðustu aldar, á að giska, eða kannski eru þetta allt endurgerðir? Allavega, ég veit svosem sáralítið um þetta 30 þúsund manna pláss nema að héðan er Jiří Hroník, gamall félagi frá Reykjavík sem er núna fluttur heim í Bæheim að bragða bæheimsku eplin, hirðljósmyndari Gus Gus á Íslandsárunum og núna að mynda allan fjandann hérna.

Já, og svo er auðvitað brúin. Elsta brú Tékklands, Karlsbrúin er númer tvö, rétt rúmlega hundrað metrar yfir Opava-ánna og byggð upp úr 1250, þriðja fjórðungi þrettándu aldar segja þeir, sem gerir hana heilli öld eldri en systur hennar í Prag, sem var byggð á árunum 1357-1402.

Við seinni brúarsporðinn eru svo sandskúlptúrar, enda þýðir Písek sandur, þessi Sandaborg er skýrð eftir sandinum við Opava sem þeir unnu eitt sinn gull upp úr, en búa nú bara til skúlptúra úr.

Ég kem svo inn í portið hjá Uglukaffinu, Vykulena sova, þar sem vertinn Kristýna tekur vel á móti mér og ég sötra bjór á meðan ég bíð eftir hinum skáldinum. Það er fámennt en góðmennt – og gestirnir virtust flestir vera frá Šumava-fjöllunum. Ég er ekki frá því að ég verði boðin þangað bráðum, sé fyrir mér forneskjulegan fjallakofa og kallinn sem var mjög áhugasamur um ljóðin mín en sagði að Jesú myndi redda þessu öllu saman, hann mætir pottþétt. Það er sjaldgæft að hitta sérlega trúað fólk hér í trúlausasta landi álfunnar, en hann var klár og skemmtilegur á sinn hátt, hafði unnið í Kanada á sínum yngri árum. Hafði svo eins og lög gera ráð fyrir bókaskipti og smakkaði rauða lókalsjússinn sem Richard var duglegur að bera í mig, áður en allir þurftu að drífa sig heim – ég endaði á að hljópa uppi rútuna þótt ég hefði lagt vel tímanlega af stað, en bara villst passlega oft til að 25 mínútna leið varð 45 mínútur. Og synd að yfirgefa plássið rétt þegar bærinn var almennilega að vakna – hefði auðvitað átt að finna mér bara bar sem lokaði ekki fyrst ég reddaði ekki gistingu. Man það næst, en þangað til na shledanou Písek.

Viltu meira Menningarsmygl?Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Fleiri Písek-myndir á fési.

Hér er svo póstlisti svo þú fáir næstu smygl beint í pósthólfið.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson