Hinn seki / Den Skyldige

Leikstjóri: Gustav Möller  / /  Aðalhlutverk: Jacob Cedergren

Hinn seki (Den skyldige) gerist öll á einni lítilli skrifstofu. Skrifstofu dönsku neyðarlínunnar nánar tiltekið. Ég hef lesið furðu marga dóma sem furða sig á því hversu vel tekst að byggja upp spennu með svona takmarkað sögusvið – sem er einkennileg staðhæfing, það hefur einmitt sýnt sig í gegnum kvikmyndasöguna að það að binda myndina við aðeins einn stað er ein besta leiðin til þess að byggja upp spennu. Þá þarftu að treysta á handritið og hugmyndaríki kvikmyndatökumanna – en ekki á ódýr skot annars staðar frá sem útskýra það sem aðalpersónurnar sjá ekki. Flest erum við jú bara á einum stað í einu, oft í meira en einn og hálfan tíma – og því kemst þessi undirgrein kvikmyndanna á sinn hátt nær raunveruleikanum en flestar aðrar.

Þetta er nefnilega merkilega stór undirgrein. Hitchcock gerði ófáar svona myndir og eins má nefna Die Hard (sem bjó til sína eigin undirgrein, Die Hard on a bus fyrir Speed og svo framvegis), 12 Angry Man, Tape og fleiri myndir – og svo er undirgrein á undirgreininni; myndir í þröngu afmörkuðu rými með aðeins eina sögupersónu. Þar er líkkistudramað Buried eftirminnilegust, en einnig má nefna 127 Hours (sem svindlar samt töluvert) og Locke, en sú síðarnefnda er máski líkust Hinum seka, því báðar gerast þær fyrst og fremst í símanum. Vandinn við Locke var hins vegar að þótt hún væri vel gerð þá var klemma aðalpersónunnar einstaklega óáhugaverð, manni var frekar mikið sama um það sem átti að kveikja spennuna, þótt uppbyggingin væri að öðru leyti fín.

Hinn seki fjallar hins vegar um forvitnilegri hluti – en svo tengir maður líka svo sterkt við hversdagsleika myndarinnar. Aðalpersónan Asger Berg er lögreglumaður sem hefur að einhverjum ástæðum verið settur í þennan skammarkrók, hann þráir að vera úti, á götunni – en honum er skipað að vera inni. Hann er vissulega ekki alveg einn, það eru fleiri að vinna í þessu símaveri – en þeir eru fáir og fá sjálfsagt ekki meira en 5-10 setningar alla myndina, hann gæti allt eins verið einn. Það eru aðrar mikilvægar persónur – en engin þeirra sést, þær eru allar bara raddir í síma. Á ofur-hversdagslegan hátt þá er eitthvað kunnuglegt hvernig tækin halda honum inni, síminn og tölvan – hann er hálfa myndina á leiðinni út en hann þarf að klára eitthvað, eitthvað sem bara er hægt að klára með þessum tækjum. Ég er nokkuð viss um að vera ekki einn um að verða óvart nokkrum klukkutímum of seinn í göngutúrinn í góða veðrinu af því maður þarf alltaf að klára eitthvað áður en maður getur farið út með góða samvisku.

En Asger er lögga og því eru vandamálin sem hann er að glíma við kannski ekki alveg jafn hversdagsleg og okkar hinna. Það er jú væntanlega ástæðan fyrir því að það eru gerðar ólíkt fleiri bíómyndir um löggur en menningarblaðamenn. Við fáum hins vegar svipmynd af því framan af mynd að Asgeri virðist nokk sama um hversdagsleg vandamál almúgans; maður sem er rændur af hóru í rauða hverfinu, stelpa sem slasaði sig á hjóli og sprautufíkill fá meiri skammir en hjálp, hann er synduga löggan sem kastar samt fyrst steinum en spyr svo, virðist helst líta á það sem sitt hlutverk að hjálpa hinum syndlausu. Sem koma nú kannski öllu sjaldnar við sögu lögreglunnar en hinir.

Þessi hroki, sem birtist bæði í því að líta niðrá fíkla og að reikna með að allir sem séu í annarlegu ástandi (eins og áðurnefnd stelpa á hjólinu), virðist því miður alltof algengur í stéttinni – eitthvað sem ég hef sjálfur orðið var við (smásagan hér er til dæmis byggð á slíku atviki sem ég varð vitni af) og birtist ágætlega í þessum pistli hér um sykursjúkan unglingsdreng sem var afgreiddur sem dópisti.

Hetja eða þjónn?

Svo kemur hins vegar símtalið sem breytir öllu. Mannrán, loksins eitthvað alvöru! Eitthvað við hæfi hetjulöggunnar Asgers Holm! Vandinn er bara að hann er fastur við skrifborð og síma, það eru aðrir úti á vegum að reyna að leysa málið þar. Þá verkaskiptingu ræður Asger illa við – og við erum með honum í því, það virðist óþarflega stíf verkaskipting í gangi, er hann ekki sá sem er best inn í þessu? Þannig að hann sekkur sér í málið, skiptir sér miklu meira af en hlutverk hans krefst – og virðist vera að leysa málið upp á eigin spítur á meðan kollegar hans á götunni virðast litlum árangri ná.

DenSkyldige2

En þegar málið fer að flækjast þá áttar maður sig á því að það er ástæða fyrir öllum þessum verkferlum og ákefð Asgers er jafnlíkleg til þess að vera veikleiki og styrkleiki. Um leið förum við hægt og rólega að átta okkur betur á af hverju hann er í þessum skammarkrók.

Asger fór nefnilega í lögguna til þess að verða hetja, ekki til þess að verða þjónn fólksins. Þess vegna á hann erfitt með samstarf, þess vegna á hann erfitt með hversdagslegu málin, þess vegna gengur hann of langt. Hann virðist auk þess alls ekki treysta kollegum hans – sem vantreysta honum margir á móti, hann er jú í skammarkróknum. Ímyndum okkur bara Mission: Impossible mynd þar sem tölvuséniið Benji myndi sífellt stökkva af stað og reyna að bjarga málunum frekar en að leyfa bara Ethan Hunt að sjá um að vera hetja, það myndi auðvitað enda í tómu klúðri. En auðvitað ættu flest ævintýri Ethan Hunt að enda þannig, hann gengur endalaust á svig við verkferla og góð vinnubrögð – en hann lifir í heimi þar sem menn komast ávallt upp með slíkt, Asger er ekki svo heppinn.

Við erum samstíga Asgeri allan tímann og vitum ávallt jafn mikið (eða lítið) og hann um málið sem hann er að reyna að leysa, þótt vissulega viti hann meira um eigin fortíð. Þess vegna erum við líka oft líkleg til þess að gera sömu mistök og hann, stöndum okkur að röngum ályktunum og ágiskunum út frá afskaplega takmörkuðum upplýsingum. Hann er vissulega hrokafullur – en þegar til kastana kemur vel meinandi lögga, en því miður bara lögga sem er alls ekki með allt á hreinu. Þótt hann haldi það auvitað.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson