Hana langaði að fljúga. Hún var lítil í sér en hana langaði að fljúga, bara fáeina metra. Kannski væri nóg að stökkva, svífa fáein andartök …
Hún sat og starði ofan í bollann. Í gárunum fann hún fljótið mikla, Ganges, Mekong, blóðdrekkur. Moldá, Dóná og Níl. Öll þessi fljót og allar þessar ár, allir drullupollar veraldarinnar, sameinuðust í tveimur skurðpunktum og seitluðu niður vanga hennar sem tvö tár. Þau komu henni á óvart, þetta var gömul sorg sem hún hafði löngu gleymt.
Þessi sorg bjó hér heima, þar sem hún lá á sófanum hjá Ásu, með ginblandað blóð og drauminn eina – að vera annars staðar. Ekkihér. Ekkihér, það var hennar staður. En svo hætti hún að þora þangað. Hún trénaði, fór að fúnkera. Mæta í vinnu, aftur og aftur og aftur. Fann sér svo mann og svaf hjá honum, aftur og aftur og aftur.
Ekkihér hvarf af landakortinu – eða var það kannski landakortið sem hvarf? Svo hvarf hann – en hún hélt áfram að mæta í vinnuna. Tikk takk tú. Tikk takk tú. Þetta var lagið hennar, hún raulaði þetta alltaf fyrir munni sér og vinnufélagarnir heyrðu lífsgleði, áhyggjuleysi. En hún sagði engum hvað textinn þýddi, ekki einu sinni sjálfri sér. Þetta var hin eilífa endurtekning, hin endanlega merkingarleysa. Stundum, í svefnrofunum, heyrði hún samt lagið allt, tikk takk tú, tikk takk tú, tikk takk þú …
En draumarnir urðu daufari, þúið þurkaðist út. Hún hélt áfram að mæta í vinnuna – þar til í morgun. Þá hafði hún ekki þurft að mæta. Hún var orðin of gömul. Sjötug og með nógu mikið uppsafnað frí til að þurfa ekki að byrja á ellilífeyrinum í marga mánuði – og hana langaði að fljúga.
Hún hafði hætt að drekka þegar Ása hætti að hlusta. En Ása byrjaði aldrei að hlusta aftur. Líklega hafði hún hætt að hlusta fyrir löngu, hafði bara kinkað kolli eins og óskarsverðlaunaleikkona yfir eilífa ekkinu hennar. Ekkihér, ekkihann, ekkiþetta. Þannig missti hún bestu vinkonu sína, þær hættu að hlusta hvor á aðra. Svo hættu þær að tala saman. Þær bjuggu ennþá í sömu borg, heilsuðust ennþá á sömu götunum. Hún hugsaði meira um Ásu en manninn sinn – en hún hringdi aldrei aftur, bankaði aldrei aftur.
Og í þessum tveimur tárum fann hún tvennt. Hún fann sína gömlu sorg og sína gömlu drauma, núna hafði hún tímann og peningana til að láta þá rætast. En hún fann líka, skyndilega, að hún var orðin gömul. Í gær vann hún heilan vinnudag án þess að kveinka sér, í dag átti hún í erfiðleikum með að standa upp. Þannig að hún pantaði sér annan bolla. Og annan. Á þeim fjórða var hún orðin þung í maganum, hún þurfti á klósettið. Hana langaði að hringja í Ásu svo hún gæti sagt henni frá öllum þeim hugsunum sem gárandi kakóið vakti. Hana langaði í gin með en var hrædd við það, hrædd við hvernig líkaminn myndi bregðast við, hvernig hún myndi bregðast við, hvað fólk myndi segja.
Svo gerðist það. Ása settist við næsta borð. Nema þetta var gamla Ása, Ása fyrir fjörtíu árum. Sama blikið, sama kankvísin, sami neistinn. Kannski dóttir eða barnabarn – eða kannski var hún farin að sjá Ásu alls staðar. Hana langaði að tala við hana, kannski hlustaði þessi Ása ennþá.
Hún reyndi að standa upp, gat það ekki. Reyndi aftur, hægt, löturhægt, yfirvegað. Náði að standa upp en þurfti hjálp, kunni ekki að biðja. Stóð upp, með herkjum, fikraði sig áfram. Svimaði. Hélt í borð, stóla, kom að borðinu sem Ása sat við. Hún stoppaði. Hún vildi biðja Ásu um að hjálpa sér, vildi biðja hana um að hlusta á hana. En hún þorði ekki að horfa beint í augun á henni, orðin voru föst í hálsinum á henni – hún gat ekki afborið þá tilhugsun að hennar elsta og besta vinkona myndi ekki þekkja hana, myndi ekki einu sinni heilsa núna. Veröldin var frosin í nokkur augnablik, svo silaðist hún af stað. Hún hélt áfram að dyrunum, hægt, hikandi, skref fyrir skref.
Svo kom hún út. Ferskt loft, auður himinn. Hana langaði að fljúga. Fljúga fyrir Ásu, svo hún sæi að hún gæti ennþá flogið, þetta væri ekki bara í kjaftinum á henni. Hana langaði að fljúga svo hún myndi hlusta …
—–
Hún rankaði við sér þar sem þau voru að stumra yfir henni. Það var búið að skipta um lag, nú heyrðist bara bamm bamm bamm bamm og skerandi gítarsóló í gagnauganu. Þau settu hana á stól og tóku af henni gleraugun, gleraugun sem höfðu skorið sig inní andlitið á henni. Það var allt í móðu en hún fann samt að þetta var hún. Ása kom með vatn fyrir hana, spurði hana hvernig henni liði og sagði að þetta yrði allt í lagi.
Hún vissi ekki lengur hvað hún var að segja, orðin voru bjaganir og endurómur af hugsunum sem flutu á yfirborðinu, yfir þeim hugsunum sem hún hugsaði sjálf. En það skipti engu, því Ása hlustaði.
En þá brá skyndilega skugga fyrir sólu. Hún sá einkennisbúninginn í móðu, vissi að hann myndi ekki hlusta. „Kennitala?“ spurði löggan hranalegri röddu og henni leið eins og glæpamanni, kennitalan var ekki lengur útfærsla á fæðingardegi hennar heldur fanganúmer sem hann vildi prenta á handlegginn á henni. Hann átti aldrei eftir að hlusta, þannig að hún spurði Ásu: „Hvað gerði ég? Ég gerði ekkert af mér … var það?“ Ása fullyrti að hún hefði ekkert gert, hún hefði bara dottið. Það blæddi úr gagnauganu og hún var aum í hendinni. En hún vildi ekki fara, hún vildi ekki týna Ásu aftur. Ekki eftir öll þessi ár, ekki þegar hún var loksins byrjuð að hlusta aftur.
En það var sjúkrabíll á leiðinni og ógnandi löggan stóð ennþá þögul fyrir ofan þær, bíðandi svars, bíðandi þess að geta brennimerkt hana fanganúmerinu. Og í örvæntingu sinni spurði hún Ásu: „Geturðu komið með mér?“ Ása kreysti hendina á henni og sagði já.
En það var samt eitthvað hik, hún var að vinna þarna, hafði bara verið í smápásu, þurfti að spyrja, fá leyfi. Og yfirmaðurinn kom, Ása spurði og hann sagði að þau væru að drukkna, það væri alltof mikið að gera, þau væru alltof fá, hún gæti ekki farið.
Og jáið breyttist í nei og hún vissi að um leið og sjúkrabíllinn kæmi þá myndi enginn hlusta lengur. Þannig að þær héldust í hendur, þögðu, og rauluðu svo í hljóði: tikk takk tú, tikk takk þú.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson