What He Wrote

Laura Marling

Þau horfa hvort á annað yfir vatnsbólið. Skógurinn er teppalagður nýföllnum snjó og þau horfast í augu. Tvö hreindýr. Svo vakna þau.

Draumurinn situr í þeim, þau ganga í vinnuna, aftur orðin mennsk. Í sláturhúsið.

Það er stirt á milli þeirra, hún er nýbyrjuð,gæðastjóri, ekki sátt við kjötið. Auk þess er hún líklega á einhverju einhverfurófi oghann ber óljósan harm í hljóði. Þau þekkjast ekki, þótt þau vinni saman. En þarnaer einhver taug, taug sem vinnustaðasálfræðingurinn uppgötvar fyrir tilviljun:þau dreymir sífellt sama drauminn.

Þetta er uppleggið í ungversku kvikmyndinni Af líkama og sál (Testről éslélekről), undurfurðulegri og fallegri mynd sem vartilnefnd til Óskarsverðlauna síðasta vor. Og þegar þau byrja að kynnast í raunheimum færir hann henni geisladisk.

Þar má finna föstudagslagið, eftir unga enska þjóðlagasöngkonu, Lauru Marling. Það sem hann skrifaði. „What he Wrote.”

Þau skrifast á yfir hafið, yfir heimstyrjöld. Eða allavega, hún skrifar. Lagið er byggt á bréfum konu til manns síns í heimstyrjöldinni síðari, einungis hennar bréf fundust, ekki hans – og Laura Marling las þau og samdi um það lag.

Hún ákallar grísku gyðjuna Heru strax í upphafi, þau eru bæði brotnar manneskjur, að reyna að tengjast í fjarlægð. hann biður hana um að sækja sig. Hvar sem hann kann að vera. Hún hefur misst málið, er ekki sátt við þetta stríð.

Og nú, löngu seinna, er þetta löngu horfna heimstyrjaldarpar orðið af tveimur hreindýrum sem mætast í draumi.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson