Ég vildi svo gjarnan verjast.
Þó verður mér á að kvarta.
Ó, guð minn! Þaggaðu grátinn.
Þú gafst mér of viðkvæmt hjarta.

Ég hef ekki þrótt, sem hjálpar
og hlekkjunum varizt getur.
Yfir mig fellur ísinn
og örlagaþungans vetur.

Ó, guð! Þeir heyra mig gráta,
ég get ekki borið hlekki.
Grafðu mig dýpra í gaddinn,
svo gráturinn heyrist ekki!

Stefán frá Hvítadal

Ljóðaúrval Stefáns frá Hvítadal, Allir dagar eiga kvöld, kom nýlega út hjá Kómedíuleikhúsinu.Bókin er ríkulega myndskreytt af 6 listakonum. Það er Marsibil G. Kristjánsdóttir sem gerði meðfylgjandi mynd fyrir Þróttleysi, en ljóðið kom fyrst á prent fyrir sléttum hundrað árum – í bókinni Söngvar förumannsins árið 1918.