Í bókinni Letters to a Young Journalist segir Samuel G. Freedman sögur af tveimur frægustu ljósmyndum sögunnar og ljósmyndurunum sem tóku þær. Önnur sagan er um Nick Ut, sem tók myndina frægu af nakinni stúlku að flýja napalm-árás í Víetnam. Sú síðari er af vannærðu stúlkubarni í Súdan, sem hrægammur horfir græðgislega á, og var tekin af Kevin Carter, ljósmyndara sem hafði ýmsa fjöruna sopið við að taka myndir í Suður-Afríku á tímum aðskilnaðarstefnunar.
Báðar myndirnar höfðu áhrif. Sú fyrri jók andstöðu við stríðið í Víetnam og sú síðari gegndi lykilhlutverki í að fá vesturlönd til þess að grípa til aðgerða við hungursneiðinni í Súdan. Stóri munurinn var hins vegar sá að Ut bjargaði víetnömsku stúlkunni, henni Kim Phuc, sem lifir enn og er virt baráttukona. Við vitum hins vegar ekki hvað stúlkan sem hrægammurinn horfir á heitir – eða hét – því eftir myndatökuna fældi Carter gamminn í burtu, en lét stúlkuna vera. Hann hafði sínar ástæður – ljósmyndarar voru varaðir við að snerta fórnarlömb hungursneiðarinnar vegna smithættu og í ofanálag þá var stúlkan ekki eina vannærða barnið, það voru þúsundir af þeim. Carter taldi sig ekki geta gert neitt, sem var líklega rétt.
En líklega hefði hann átt að reyna, þótt ekki hefði verið nema til að bjarga eigin sálarheill – því Carter framdi sjálfsmorð aðeins ári síðar.
Þessar sögur kenna okkur tvennt. Ljósmyndarar eru manneskjur líka og þurfa vissulega stundum að geta greint á milli þess að vera ljósmyndari og manneskja, en líka að þú getur verið bæði í senn, og bæði skiptir máli. Hvoru tveggja hefur áhrif. Þær segja okkur líka að ljósmyndir hafa áhrif, þær geta breytt gangi heimssögunnar, þær geta breytt viðhorfum, frætt okkur og skerpt sýn okkar á heiminn.
Myndir bæta líka alltaf við textann, jafnvel þótt þær segi það sama. Í alvöru fjölmiðlum vinna texti og mynd saman, ákveðnum upplýsingum verður alltaf betur og skýrar miðlað í texta, öðrum upplýsingum verður alltaf betur miðlað í mynd.
Maður lærir raunar fljótt að meta mátt ljósmyndanna við það að vinna á dagblaði. Ekki af því að fara með ljósmyndurum á vettvang (sem er sannarlega lærdómsríkt en gerist alltof sjaldan) heldur einfaldlega með því að þurfa alltaf að nota ljósmyndir með öllum fréttum og öllum pistlum. Og fljótlega áttar maður sig á að það er sama hvaða snilld maður skrifar – það á engin nokkur sála eftir að lesa það ef það er ekki grípandi mynd með. Þú lærir að myndin skiptir öllu máli með textanum, ferð jafnvel að stytta eigin texta óumbeðinn til að myndin fái að njóta sín almennilega.
Bílslys og blörruð mynd
Á Íslandi erum við svo heppin að núlifandi kynslóðir hafa hingað til sloppið við hungursneiðir og stríð. En við virðumst flestum viðkvæmari gagnvart myndum sem eru hið minnsta óþægilegar. Það er vinsælt að skjóta sendiboðann, sérstaklega þegar hann er ljósmyndari. Við erum nánast öll með myndavél í vasanum – en vei þeim sem dirfist að nota hana.
Nú síðast í gær varð banaslys – og mynd var birt af slysstað, bæði í innlendum og erlendum fjölmiðlum. Og maður frétti af hneyksluninni yfir myndbirtingunum áður en maður frétti af slysinu sjálfu. Miðað við hneykslunina hefði maður búist við grafískari mynd, en nei – það er mynd af hvítum klesstum bíl á hvolfi og ellefu manns eru að aðstoða, vissulega liggur manneskja þarna, mögulega lík, mögulega særð, en rækilega blörruð þannig að í raun sést ekki neitt.
Þetta blörr er samt kölluð smellbeita, myndin ekki sögð bæta neinu við. Sem er auðvitað rakið kjaftæði, þú getur sagt mér hvaða brú þetta er og hversu há og löng hún er í texta, en ef við undanskiljum þá sem vel þekkja til brúarinnar og færustu landslagsarkítekta þá áttum við okkur flest ekki almennilega á aðstæðum nema með því að sjá einmitt þetta á mynd; brúna, hversu hátt fallið er, hvernig bíllinn liggur öfugur og klestur. Sjokkerandi? Já, upp að einhverju marki – en miklu minna sjokkerandi en bílrústirnar sem prýða Þjóðveg eitt á nokkrum stöðum með áminningu um að keyra nú ekki of hratt.
Kannski breytir þessi mynd svo einhverju. Kannski verður hún til þess að þessi einbreiða brú verður breikkuð eða gerir fólk a.m.k. meðvitaðra um að hún sé hættuleg. Það eru meira að segja nú þegar vísbendingar um að það geti gerst. Og það gerist ekki bara út af þessum sorglega viðburði – heldur líka út af því það er sagt frá honum.
En þessi þráhyggja um að skjóta sendiboðann og þetta landlæga hatur á ljósmyndurum sem allir virðast stimplaðir paparassar er ansi merkilegt. Það snýr ekki einu sinni eingöngu að fórnarlömbum heldur líka þeim sem starfa við þetta, eða svo vitnað sé í orð hjúkrunarfræðings um málið: „skítt með rétt viðbragðsaðila til að fá að vinna án þess að vera ljósmyndaðir.“
Hvaða rétt til þess að vinna án þess að vera ljósmyndaðir er hún að tala um? Viljum við að ákveðnar starfsstéttir hafi einhhvern sérstakan rétt á að vinna sín störf í myrkri? Lögregla hindraði þarna för ljósmyndara inná afgirt svæði – það er ekki þar með sagt að ljósmyndararnir séu í órétti með að taka mynd úr fjarlægð – og þótt við getum samþykkt aðgerðir lögreglu í þessu tilfelli, hvað með næsta skipti, þegar hún er mögulega að hindra ljósmyndun af mótmælum eða ef lögreglan er að sinna umdeildum aðgerðum, jafnvel að beita ofbeldi, eins og dæmi eru um að hafi náðst á mynd?
Auðvitað þurfa ljósmyndarar og fjölmiðlar að vanda sig, bæði við að breyta rétt og velja af kostgæfni hvaða efni þeir birta. Það er hellingur af myndum sem fjölmiðlar birta ekki, grófustu myndirnar sjá oft engir nema starfsmenn á ritstjórnum. En samt, vissulega eru alveg dæmi um að fjölmiðlar hafi brugðist, birt mynd í hugsunarleysi sem hefði aldrei átt að birtast. En það er merki um hættulega viðkvæmt þjóðfélag þegar jafn sakleysislegar myndir og umræddar valda almennri hneykslun. Samfélag sem á erfitt með að takast á við erfið mál án þess að líta undan, þar sem þöggunarkrafan snýst um að birta okkur aðeins það sem truflar ekki kvöldmatinn. Það er nefnilega ágætt að sýna aðgát í nærveru sálar – en sú aðgát er hins vegar fljót að umbreytast í skeytingarleysi ef aðgátin snýst um það að sýna helst ekki neitt.
E.S.:
Texti: Ásgeir H Ingólfsson