„Svoleiðis verður heimsendir, ekki með kjökri heldur með sólsting.“ Einhvern veginn svona afbakast fleyg lokaorð „Holmennanna“ eftir T.S. Eliott í hausnum á mér í mestu hitabylgju síðari ára í Mið-Evrópu, á meðan ég geng niður manndrápsbrekkuna sem gerir mig örmagna á hverju kvöldi. Svo þegar ég kemst loksins niður á jafnsléttu þar sem hæðirnar mætast, þar er kanallinn, og þar sem maður stendur við árbakkann og horfir yfir ána þar sem veggspjaldið af Bílý, bílý den stendur. Eða Hvítum, hvítum degi, eins og myndin heitir á frummálinu. Við sjáum Ingimund halda á Sölku á óræðum þjóðvegi, þótt ég viti ekki nöfnin á þeim enn þá, fyrir mér eru þetta enn þá bara tveir leikarar – ég er ekki enn þá kominn í bíó. Þar sem himinninn og jörðin eru bæði svo hvít að þau renna saman og draugar fara á stjá, svo vitnað sé lauslega í upphafsorð myndarinnar.

Habsborgskur glæsibragur og kommúnískur grámi

Við erum stödd á sögufrægustu kvikmyndahátíð Austur-Evrópu í frægasta baðstaðnum, Karlovy Vary, eða Karlsbad, eins og þýskir kalla bæinn. Venjulega er þetta athvarf aldraðra og vellauðugra rússneskra, þýskra og kínverskra ferðamanna sem vilja komast í sína spa-meðferð, þetta er svona staður þar sem maður getur óvart lent í partíi með rússnesku mafíunni – en í rúma viku á hverju ári tekur bíóbransinn yfir og þvælist á milli öfganna tveggja, Pupp-hótelsins og Thermal-hótelsins. Pupp er staðurinn þar sem fínustu partíin eru, hótel sem var fyrirmynd Grand Budapest hótelsins í samnefndri bíómynd og er líkt og tákngervingur piparkökuhótelanna sem prýða megnið af gamla bænum. Eða þangað til við komum að hinum enda kanalsins sem þessi hluti miðbæjarins er kallaður eftir, þar sem Thermal-hótelið gnæfir yfir öllu, brútalískt ferlíki sem eru höfustöðvar hátíðarinnar. Fallega ljótt úr fjarska, en afskaplega notalegt, praktískt og vinalegt þegar maður fer að venjast því. Hér eru flestir salirnir og í þessum tveimur hótelum kristallast saga Tékklands, habsborgskur glæsibragurinn og kommúnískur gráminn renna saman í eitt. 

Köngulóarmaðurinn í Tékklandi

Í Hotel Thermal getum við séð tvær íslenskar myndir í einni beit og heimildamynd um Miloš Forman strax í kjölfarið, auk þess sem báðar sigurmyndirnar á Cannes eru í boði, klassíkerar á borð við Alien og nýjustu myndina um Köngulóarmanninn, aðallega út af því hún var tekin að stórum hluta hérna í nágrannasveitunum, nánar tiltekið í Prag og Liberec – og það gerir heilmikið fyrir stemmninguna að horfa á Spider-Man í 1300 manna sal þegar það er klappað reglulega þegar minnst er á Prag, sem leikur sjálfa sig í myndinni með aðstoð nágrannaborgarinnar Liberec. Peter Parker lendir á góðu trúnó við Mysterio á Karlsbrúnni og reynir að segja MJ hvernig honum líður á sömu brú, við hérna í Bæheimi könnumst öll við þetta þótt við notum aðrar aðferðir við að bjarga heiminum. Og við leyfum okkur að trúa allra fjarstæðukenndustu atriðunum, eins og því að Peter og MJ geti verið tvö ein á Karlsbrúnni og túristaflaumurinn skyndilega barasta hverfi í burtu. 

Frá Tékklandi á Hornafjörð

En ég var á leiðinni á Hornafjörð, þar sem ekkillinn Ingimundur er að byggja hús í myndinni Hvítur, hvítur dagur. Hann er nýorðinn ekkill og það að byggja hús virðist honum eðlileg sorgarviðbrögð. Það er Ingvar E. Sigurðsson sem leikur Ingimund og Ída Mekkín Hlynsdóttir, dóttir leikstjórans Hlyns Pálmasonar, sem leikur barnabarn hans, hana Sölku. 

Framan af lifir myndin á góðum leik og frábærri myndbyggingu Hlyns – þótt hann sé á kunnuglegum söguslóðum íslenskra bíómynda þá myndar hann þær allt öðruvísi en allir aðrir íslenskir leikstjórar. Senur eru rammaðar inn á sérstakan hátt og það er eitthvað magnþrungið að gerast í nánast hverjum einasta ramma. Rétt eins og í Vetrarbræðrum, fyrri mynd leikstjórans, þá er hvíti liturinn í aðalhlutverki – en allt öðruvísi hvítur. Í Vetrarbræðrum var kalklitaður hvítur litur námunnar í forgrunni, meginlandshvítur, hér er það hvítur himinn og þokukennt landslag – og þótt sumum myndi virðast þetta svipaðir litir þá fá þeir allir sinn sérstaka karakter í báðum myndum. 

Ingimundur gæti vel að merkja ekki verið ólíkari Emil, aðalpersónu Vetrarbræðra. Emil er ungur væskill, Ingimundur er miðaldra rumur. En báðir eru birtingarmynd eitraðrar karlmennsku, sitt hvor hliðin á sama peningnum, fulltrúar sitt hvorrar kynslóðarinnar. Karlmennska Ingimundar er þó ekki nærri því jafn eitruð, það þarf mikil áföll til að skrímslið birtist – en það er nú þarna samt. Kannski er það í okkur öllum. Þetta er nánast eins og táknsaga um hvernig Ingimundur nær að sætta tröllið og manninn í sjálfum sér og á endanum er það barnabarnið Salka sem hjálpar honum mest í því verkefni. Kennir honum að það er í góðu lagi að öskra þegar maður þarf að öskra. Ída Mekkín er náttúrutalent og fer létt með að skapa skemmtilegan karakter – og á einhverjum tímapunkti vitrast manni hversu stór hluti myndarinnar fjallar um þetta sérstaka traust sem myndast á milli afans og barnabarnsins – og það hvernig það virðist líklegt til þess að lifa nánast hvað sem er af. 

Ingvar E. hefur aldrei verið betri

Og jú, trúið mér þegar ég segi: Ingvar E. hefur grínlaust aldrei verið betri í bíómynd. Það sem meira er, Hilmir Snær er líka í myndinni, í litlu en mikilvægu hlutverki. Þegar Ingvar og Hilmir voru að hefja rúmlega áratugalangt skeið sitt sem helstu stjörnur íslenskra kvikmynda fyrir tæpum aldarfjórðungi sáust tvær miðaldra Hollywood-stjörnur í fyrsta sinn saman á hvíta tjaldinu. Þeir Robert DeNiro og Al Pacino höfðu verið tveir virtustu leikarar Hollywood á áttunda áratugnum og í byrjun þess níunda, en tjaldið hafði fram að þessu ekki rúmað þá báða í einu – þangað til þeir mættust í uppgjörssenu í hinni mögnuðu glæpamynd Heat. Þetta er ekki alveg jafn klippt og skorið með Ingvar E. og Hilmi Snæ, þeir hafa vissulega verið saman í mynd áður, jafnvel saman í senum – hópsenum í Englum alheimsins til dæmis. En samt, það hefur vantað stóru senuna. Þangað til núna, þegar hún birtist okkur hér í mögnuðu, drungalegu og harmþrungnu atriði aftur úr grárri forneskju, sem er um leið eins og boxbardagi tveggja stórleikara. 

Klisjukennd sveit og hinn langdregni dauði

Svo förum við yfir í næsta sal, úr smábænum í sveitina, yfir í Síðasta haustið, heimildarmynd Yrsu Rocu Fannberg sem er hér í aðalkeppninni. Yrsa vann Einarinn á Skjaldborg með frumraun sinni í fullri lengd, hinni frábæru mynd Salóme, mynd sem virtist fyrst fjalla um móður leikstjórans en fjallar í raun aðallega um flókið samband þeirra mæðgna og átök þess sem er bak við myndavélina og þess sem er fyrir framan hana. 

En það vantar öll átök í Síðasta haustið, því miður. Íslensku myndirnar báðar, eins og flestar íslenskar myndir sem komast á stórar hátíðir þessi misserin, gerast í þorpinu og sveitinni, þótt yfirgnæfandi meirihluta þjóðarinnar sé löngu fluttur á mölina. Þetta er hálfgert hvergiland oft á tíðum, veröld sem var eða veröld sem er alveg að hverfa, myndir fyrir Íslandsstofu og nostalgíuna í sjálfum okkur sem erum flest löngu flutt – ef foreldrar okkar eða afar og ömmur urðu ekki fyrri til. Þetta er lundamyndin sem sjálfstæð listgrein. Það er helst að við fáum að sjá Reykjavíkurmyndir ef þær eru um óforbetranlega dópista. 

Saga sem hefur margoft verið sögð

En þótt sögusviðið sé orðið þreytt þá hafa myndirnar ósjaldan fundið nýjar leiðir til þess að gera eitthvað ferskt með formið. Síðasta haustið er hins vegar alveg óttaleg sveitaklisja. Hér er nánast ekkert nýtt. Jú, þetta er eins og nafnið gefur til kynna síðasta haust nokkurra bænda í búskap, en sú saga er eldri en íslenskar kvikmyndir, íslenska sveitin hefur verið að deyja í marga áratugi og er orðið þreyttasta viðfangsefni íslenskra bíómynda fyrir lifandis löngu. Meira að segja útvarpið er orðið klisjukennt, eilíft stagl um dauða íslenskunnar sem er nú samt nánast alls staðar á byggðu bóli meira lifandi en á þessum bóndabæ þar sem muldrið ræður ríkjum. 

Afskekktur bóndabær og hverfandi heimur er einfaldlega ekki nóg, eitt og sér. Það er búið að segja þessa sögu margoft og það þarf eitthvað nýtt. Það gæti vel sloppið til ef hér væru forvitnilegar aðalpersónur, aðalpersónur sem maður kemst nálægt, nær einhverri tengingu við eða kveikja að minnsta kosti einhverja forvitni. 

Hundurinn stelur senunni

En bændahjónin tvö sem eru aðalpersónur myndarinnar eru skelfing óáhugaverð – og ómögulegt fyrir okkur áhorfendurna að segja til um hvort það skrifast á þau sjálf eða leikstjórann að komast ekki nógu nálægt þeim, fá þau ekki til að opna sig örlítið og leyfa aðeins að glitta í smá persónuleika. Þess í stað er maður fastur í hinu eilífa hummi, þessu „já, já,“ íslensku sveitarinnar, málheltinu sem er vissulega til – ég man alveg eftir að hafa villst inn á svona muldurheimili og þráð það heitast að komast út sem fyrst. En þetta er ekki gott efni í bíó, til þess þarf smá karaktera, manneskjur sem hægt er að tengja við. Hundurinn á bænum, hún Loppa, stelur hins vegar senunni og nær aðeins að nálgast kviku bóndans í örfáar sekúndur. Hún er mennskasta persóna þessarar heimildarmyndar um heim sem ég myndi ekki sjá neitt sérstaklega eftir, ef ég vissi ekki að það sé hægt að finna í honum miklu áhugaverðari ranghala og mannlíf heldur en birtist okkur hér. 

Tékkóslóvakían í Ameríku 

En hverfum nú frá gamla heimalandinu til þess nýja, Tékklandsins sem ég hef búið í undanfarin ár. Þar fæddist Miloš Forman heitinn fyrir tæpum 90 árum síðan og fór hina leiðina, flutti til Vesturlanda þegar alræðisstjórnin varð of þrúgandi. Myndin Forman vs. Forman fer yfir feril leikstjórans magnaða og gerir það feikivel. Þetta er snúið form, daginn áður hafði ég séð Mystify, um dapurleg örlög söngvara INXS, ástralska hjartaknúsarans Michael Hutchence, og leiddist þá heil ósköp. Aðferðin er samt keimlík, grafin er upp fjöldi myndbrota úr fortíðinni í bland við klippur af tónleikum eða úr bíómyndum. En munurinn er að Forman vs. Forman nær einhverjum heildstæðum tón og leyfir senum að hafa sinn tíma en er ekki á hlaupum að reyna að dekka allt sem gerðist í ævi eins manns, eins og tilfellið er í Hutchence-myndinni, sem gerir fátt annað en að næra athyglisbrestinn í manni. 

Forman er ekki bara magnaður leikstjóri heldur líka mögnuð persóna sem átti lygilegt lífshlaup. Hann missti báða foreldra sína í Auschwitz og var á hrakhólum allt stríðið. En á öfugsnúinn hátt voru átök tuttugustu aldarinnar honum bæði bölvun og blessun. Blessun aðallega út af því hvaða áhrif það hafði á skólagöngu hans. Fyrst þegar hann gekk í skóla eftir stríðið var það í skóla sem var sérstaklega settur á fót fyrir börn sem voru munaðarlaus eftir hildarleikinn. Nema hvað, skólinn þótti það góður að yfirstéttin vildi senda sín börn þangað líka og að sögn Formans skiptust börnin þar í þrjá nokkurn veginn jafnstóra hópa eftir bakgrunni, munaðarlaus börn, börn burgeisa millistríðsáranna og börn kommúnistaleiðtoga. Eitt burgeisabarnið var Václav Havel og þetta olli því að þeir Forman urðu æskuvinir, þrátt fyrir að koma úr gerólíkum þjóðfélagshópum. 

Kvikmyndagerð í klóm kommúnismans

Eftir að hafa mistekist að komast í leiklistarskóla flaug hann svo inn í FAMU kvikmyndaskólann. Tékknesk kvikmyndagerð var í klóm kommúnismans á þessum árum og heimskan bókstaflega lak af bíómyndunum að sögn Formans, heilalausar áróðursmyndir um fyrirmyndarríkið. En það voru enn þá ótal góðir leikstjórar í landinu – og einhvers staðar urðu þeir góðu að vera, þótt ekki fengju þeir að leikstýra lengur. Og því ekki að koma þeim fyrir í rykföllnum skólastofum, þeir væru varla að fara að valda miklum usla þar – eða hvað? Þannig æxlaðist það að allir bestu kvikmyndagerðarmenn kynslóðanna á undan kenndu Forman og hans kynslóð og urðu þar með guðfeður og -mæður tékknesku nýbylgjunnar, sem varð til þegar ritskoðunin var farin að mildast mjög þegar þau útskrifuðust öllsömul, Forman og Věra Chytilová, Jiří Menzel og Jan Němec og öll hin, og olli því að Tékkóslóvakía, þetta tiltölulega fámenna Mið-Evrópuland, sópaði skyndilega til sín flestum kvikmyndaverðlaunum heimsins í örfá ár. 

En bara örfá ár, því þetta entist auðvitað ekki – og þannig endaði Forman í Ameríku. Það var ekki auðvelt að fóta sig í nýjum heimi og framan af var vera Formans þar heilmikið strögl og tilveran ansi þunglyndisleg. Hann var á Chelsea-hótelinu goðsagnakennda en gerði fátt annað að eigin sögn en að sofa. Fyrsta myndin hans ytra floppaði rækilega, þótt hún sé mikil költmynd í dag. En svo kom Gaukshreiðrið og breytti öllu. 

Það forvitnilegasta við myndina er raunar hvernig hún sýnir manni hversu tékkneskar allar amerísku myndirnar hans Formans í raun voru. Hann lýsir því hvernig hann hafi hætt að skrifa eigin myndir eftir að hann flutti út – honum þótti nauðsynlegt að handritin væru skrifuð af einhverjum sem hefði alist upp í Ameríku, farið þar í barnaskóla og menntaskóla, einhverjum sem væri með Ameríku í beinunum. Maður myndi kannski halda að þetta þýddi að hann yrði þar með einn af leiguliðum leikstjórastéttarinnar, fagmaður sem gerði vel gerðar en ópersónulegar bíómyndir. En hann sótti alla tíð í handrit sem hann skyldi öðrum betur, handrit sem á einhvern hátt endurómuðu átökin í Tékkóslóvakíu æskunnar og unglingsáranna. Þannig er Ratched húkrunarkona í Gaukshreiðrinu holdgervingur alræðiskommúnismans og kannski má í framhaldi líta á geðveikrahælið sem Tékkóslóvakíu alræðisins, en líka að sumu leyti sem vin í eyðimörkinni, skólann þar sem skyldar sálir mættust og fundu sig – áður en þær hlupu út í nóttina, út í órætt frelsið.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Pistillinn var upphaflega fluttur í Tengivagninum á RÚV þann 20. júlí 2019.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson