Sólin byrjar á rigningu. Gullfalleg rigning, glitrandi og ljóðrænir litir – maður sér strax að kvikmyndatökumaðurinn kann sitt fag. Þessi rómantíska stemmning er þó blekkjandi, aðeins örfáum andartökum síðar gerist það sem sprengir myndina í loft upp sem og heim allra þeirra aðalpersóna sem við eigum ennþá eftir að kynnast.

Sólin er tævönsk mynd um óhamingjusama fjölskyldu í Taipei. Pabbinn er ökukennari og mamman snyrtifræðingur, synirnir tveir virðast jafn ólíkir og nöfnin þeirra eru lík, A-ho og A-hao. A-ho, sá yngri, er vandræðaunglingur og endar í steininum á meðan A-hao er stjörnunemandi – en þeir eiga samt báðir ógæfuna sameiginlega.

Myndin er þó fyrst og fremst um foreldrana tvo – og hvað þau gera þegar þau standa frammi fyrir því að missa báða synina, fyrst annan tímabundið í fangelsi – og jafnvel áður en það gerðist vildi pabbinn helst afneita honum – og svo þann síðari í dauðann.

Þetta er þroskasaga foreldra, foreldra sem maður skynjar að hafi verið hálf dofin af lífsbaráttunni áður en myndin byrjar – og á meðan mamman er fljót að hrista doðann af sér þá tekur það pabbann í raun alla myndina. Afglöp sonanna vekja þau að vissu leyti, þessar ólgandi tilfinningar unglingsáranna sem ollu ógæfu þeirra vekja foreldra sem voru búin að deyfa sig alltof lengi gegn einmitt slíkri tilfinningaólgu. Og jafnvel þótt í fyrstu sé það jafnvel léttir að losna við A-ho í fangelsið þá þurfa þau fljótlega að spyrja sig hvort foreldrar eigi að borga skuldir (afneitaðra) barna sinna, þegar í ljós kemur að A-ho hafði barnað kærustuna sem þau vissu ekki um, fyrir utan það að pabbi fórnarlambs A-ho heimtar bætur em pabbi A-ho hefur lítinn áhuga á að greiða, enda A-ho aðeins meðsekur í glæpnum sem um ræðir, ekki sjálfur gerandinn.

Myndin er dálítið einkennileg blanda af hinu listræna og á köflum pínu kitsaðri sápuóperu og jafnvel gangsteramyndum, hún minnir dálítið á Almodóvar að þessu leyti, leikstjórinn Chung Mong-hong finnur leiðir til að finna hið listræna í stefum sápuóperunnar, rétt eins og Almodóvar gerir svo oft. Þetta á líka ágætlega við sögu myndarinnar – þetta er saga um einföld hjón, hjón sem eru ekkert að mæta á sýningar hjá Bíó Paradís Taipei-borgar en eru frekar líkleg til þess að vera vel inni í mandarínskum sápuóperum.

Þetta eru einföld hjón sem þurfa að finna dýptina í sér – móðirin Qin er fljót að því, hún er væntanlega mun dýpri persónuleiki að eðlisfari en hefur þurft að tóna hástemmdari tilfinningar niður til þess að búa með durtinum Wen. Hann þylur ítrekað möntruna „Grípið daginn – ákveðið ykkar eigin slóð“ – þetta stendur stórum stöfum við ökuskólann sem hann vinnur hjá og hann leggur jafnvel út frá þessari speki í ökutíma, en það verður augljósara og augljósara að hann hefur aldrei hugsað af neinni dýpt um þessa tiltölulega einföldu speki sína og fetar sífellt eingöngu auðveldustu leiðina og grípur daginn alls ekki. Þetta er um andvaraleysi gagnvart eigin tilfinningum, jafnvel eigin orðum – þegar frasarnir streyma það hugsunarlaust fram að þú áttar þig ekki á þeim sjálfur, hugsar ekki um þá. Þangað til auðvitað að hann loksins vaknar.

Allt þetta verður auðvitað til þess að synirnir verða tilfinningalega heftir og vanlíðan þeirra brýst fram á óheilbrigðan hátt – og þegar A-ho loksins sleppur úr fangelsi sökkvir hann sér í hugsunarlausa vinnu á bílaþvottastöð og aukavaktir í kjörbúðinni, til þess helst að halda sér á beinu brautinni, deyfa tilfinningaólguna sem kom honum í þessi vandræði.

Honum verður þó varla kápan úr því klæðinu ef Radish fær að ráða. Radish er gamall vinur, sá sem kom A-ho í þessi vandræði til að byrja með, og sannarlega aðalskúrkur myndarinnar. Maður fær kaldan hroll í hvert sinn sem hann birtist á tjaldinu, siðblindan einfaldlega lekur af honum – tja, nema það sé eitthvað til í því hjá honum að A-ho skuldi honum og hafi skellt mestri skuldinni á hann?

Radish er með aflitað ljóst hár og það er sumt svipað með honum og hinum vafasama Ben í kóresku myndinni Bruna, kannski helst það að vestrænasta og sjálfsöruggasta persónan er mesti og sleipasti skúrkurinn. Ég veit ekki hvort þetta flokkist sem asískir fordómar gagnvart vestrinu eða lúmskt skot á vestrænu áhorfendurna á kvikmyndahátíðunum þar sem sumar þessar myndir fá flesta sína áhorfendur – tja, þegar það er ekki heimsfaraldur sem verður til þess að þeim er ýmist aflýst eða settar á netið.

Sem þýðir að það verður snúnara fyrir góðar myndir að fá athygli – finna sína áhorfendur – og Sólin hefur einmitt verið tekið sem prýðilegt dæmi um það. Hún hefur verið lengi á Netflix – en niðurgrafinn í oft illa hugsuðum algóryþma streymisveitunnar – og fór ekki að fá almennilega athygli fyrr en Pater Debruge hjá Variety setti hana efst á topplistann sinn um áramótin (Hvítur, hvítur dagur var númer átta), og það gerði íslenski leikstjórinn Ragnar Bragason líka, og svo var hún ein af þeim fimmtán myndum sem komust á á langa listann yfir mögulegar bestu erlendu myndir fyrir næsta Óskar. En þetta krystallar vandann sem alþjóðabíóið þarf að kljást við á kóf-tímum – það er alveg hægt að setja myndir á öðru máli en ensku á streymisveitur eða VOD, en þær hafa hingað til treyst á að byggja orðspor sitt upp á kvikmyndahátíðarrúntinum – þegar honum er ekki til að skipta þá er það helst bara allra stærstu leikstjórarnir sem vekja athygli – og þeir hafa margir ákveðið að bíða storminn af sér, jafnvel þótt maður hafi heyrt að myndirnar þeirra séu tilbúnar. Skiljanlega.

En það birtir alltaf til um síðir – eins og nafn myndarinnar vísar í. Nafnið er frá eldri bróðurnum komið, hann flytur okkur fallegan óð til sólarinnar sem við skiljum svo loks alveg til fulls í lokin á myndinni sem byrjar í rigningu og líkur í sólskini.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson