Hvaðan koma bestu bíómyndirnar, hvar er nýjasta nýbylgjan? Þessari spurningu er auðvitað nánast ómögulegt að svara af einhverju viti, því jafnvel ef maður fylgist þokkalega vel með þá eru það helst bandarískar myndir sem maður getur verið nokkuð viss um að rekast á – og eina og eina frá öllum hinum löndunum, rjómann. En ef ég væri neyddur til þess að svara þessari spurningu akkúrat núna, þá held ég nú samt að svarið yrði Suður-Kórea. Það er eitthvað stórkostlegt að gerast í kóresku bíói þessa dagana og allar þær þrjár kóresku myndir sem ég hef séð í bíó undanfarið ár myndu auðveldlega komast á topp tíu listann.

Þá er ég í fyrsta lagi að tala um Bruna (Beoning), þann dulúðuga bræðing af Murakami og The Great Gatsby, sem kom út í fyrra og svo hina vanmetnu og alltof sjaldséðu njósnamynd Njósnarinn sem fór norður, sem byggir á sannri sögu suður-kóresks njósnara sem kom sér í mjúkinn hjá Kim Jong-Il, þáverandi leiðtoga Norður-Kóreu, með því að leika hlutverk samviskulauss viðskiptamanns sem vildi finna leiðir til að græða á Norður-Kóreu, og lausnin var að sannfæra þá um að taka upp auglýsingar í landinu fyrir vestræn fyrirtæki, gegn ríflegu gjaldi vitaskuld. Inn í söguna flækist hins vegar óvænt spilling sunnan megin, þegar njósnarinn kemst að því að hans eigin stjórnvöld makka reglulega með norðanmönnum til þess að ala á ótta og æsa upp þjóðerniskennd, venjulega kortér í kosningar.

Sú þriðja er svo Gullpálmamyndin frá síðustu Cannes-hátíð, Sníkjudýrin, Parasite, sem fjallar um Kim-fjölskylduna, bláfátæka fjögurra manna fjölskyldu sem búa fyrir neðan sjávarmál í kóreskri borg, vinna við að brjóta saman pizzakassa og eru svo fátæk að þau þurfa að leita að rétta staðnum í íbúðinni til þess að ná netsambandi frá nærliggjandi fyrirtækjum.

En gæfan virðist vera að snúast þeim í vil þegar sonurinn fær vinnu við að kenna táningsstúlku ríkra hjóna ensku, með því að hagræða aðeins sannleikanum um menntun sína. Í kjölfarið kemst hann að því að Park-hjónin auðugu hafa áhuga á að ráða myndlistarkennara fyrir yngri soninn og mælir með systur sinni í starfið, án þess þó að segja þeim frá ættartengslunum. Park-hjónin eru þegar með einkabílstjóra og húshjálp, en fljótlega tekst systkinunum að koma þeim úr starfi svo foreldrar þeirra geti tekið við, aftur þó án þess að geta neinu um raunveruleg fjölskyldutengsl þeirra.

Skyndilega eru því tvær fjögurra manna fjölskyldur í glæsihýsi Park-hjónanna, þótt önnur fjölskyldan sé algjörlega ómeðvituð um fjölskyldutengsl hinnar. Manni verður óljóst hugsað til Tímavélar H.G. Wells, þar sem stéttskiptingin í óræðri framtíð hefur þróast þannig að morlokkarnir eru skuggaverur sem búa neðanjarðar og elóarnir eru saklausar ljósverur sem búa ofanjarðar – þeir eru auk þess trúgjarnir og auðveld bráð fyrir morlokkana þegar þeir laumast upp á yfirborðið á næturna. Kim-fjölskyldan býr bókstaflega undir sjávarmáli, sem getur reynst hættulegt á þessum slóðum – þau eru undirskipaðar neðanjarðarverur sögunnar, morlokkarnir, sem nærast á saklausum og bláeigum elóunum sem búa ofanjarðar, en Park-fjölskyldan býr ofarlega í háum hæðum borgarinnar og reynist þar að auki með eindæmum trúgjörn. Þegar á myndina líður verður svo þessi speglun enn skarpari – en það er best að segja sem minnst frá því.

Það eru þó í raun engar hetjur eða skúrkar í þessari mynd, fyrst og fremst bara fólk að reyna að bjarga sér, út frá þeirri samfélagsstöðu sem það lendir í. Vellauðug Park-fjölskyldan, sem getur í reynd séð fyrir tveimur fjögurra manna fjölskyldum á einum launatékka, er oftast ósköp almennileg og helst hægt að telja henni til lasts hve trúgjörn þau eru. Herra Kim orðar aðstöðumuninn ágætlega þegar hann segir: „Það er auðvelt að vera almennilegur þegar maður er ríkur. Peningar eru eins og straujárn, það er hægt að nota þá til þess að strauja í burtu allar misfellur.“

Hins vegar koma Park-hjónin þó regulega upp um stéttasnobb sitt, eins og þegar herra Park hrósar herra Kim í eyru konu sinnar fyrir að „fara aldrei yfir mörkin“ og eins þegar hann kvartar yfir því að helsti galli herra Kims sé lyktin – sem minni hann á, og haldið ykkur núna, fólkið í neðanjarðarlestunum. Sumsé almúgann. Almúgann sem er ekki með einkabílstjóra. Almúgann sem hann þarf sjaldnast að finna lyktina af.

Gullfallegt brasilískt systramelódrama

Stéttaátök eru einnig í forgrunni hinnar sigurmyndarinnar frá Cannes, hinnar brasilísku myndar Hið ósýnilega líf Evridísar Gusmao, sem hlaut aðalverðlaunin í Un Certain Regard-flokknum, sömu verðlaun og Hrútar hlutu fyrir fjórum árum síðan. Myndin gerist nánast öll á sjötta áratug síðustu aldar og fjallar um tvær systur sem örlögin stía í sundur. Og þegar ég segi örlögin þá er ég í raun að tala um pabba þeirra. Guida, sú eldri, heldur til Grikklands að elta sjóarann sem barnaði hana – en þegar hún kemur aftur afneitar faðir hennar henni og lýgur jafnframt því að Evridís sé komin í nám til Vínarborgar, sem reynist svo draumur sem aldrei rætist.

Þetta er suður-amerískt melódrama í ætt við telenóvellurnar sem Ríkissjónvarpið sýndi reglulega fyrir einhverjum áratugum síðan, og þaðan kemur veikleiki myndarinnar – tilviljanirnar eru aðeins of þægilegar stundum, maður finnur óþægilega mikið á köflum fyrir óþarflega sýnilegri hönd handritshöfundarins, flæðið mætti stundum vera aðeins náttúrulegra. Engu að síður er gaman að velta fyrir sér hversu ómöguleg svona saga væri í nútímanum, þar sem flest okkar erum auðfinnanleg með örlitlu gúgli eða leit á Facebook eða Twitter, í það minnsta ef við viljum finnast.

Að þessu öllu sögðu vega kostir myndarinnar gallana rækilega upp. Stærsti kosturinn er myndatakan – hér birtist okkur ægifögur Ríó de Janeiro þar sem skarpir litirnir drjúpa af hverjum ramma, það er bókstaflega erfitt að standast freistinguna að bóka miða til Ríó strax eftir mynd – og sjálfsagt hefði maður gert það ef maður hefði haldið að þessi Ríó væri enn þá til. Myndin er um margt gamaldags í takt við sögusviðið, nema þegar kemur af kynlífssenunum, sem eru skemmtilega nútímalegar og frakkar en þó aðallega sannfærandi klaufalegar. Hér valda flestir karlmenn systrunum á endanum vonbrigðum, á einn eða annan hátt.

Það besta við myndina eru þó aðalleikkonurnar tvær, Carol Duarte sem Evridís og jafnvel enn frekar Julia Stockler sem Guida – og raunar er titillinn hálfpartinn ósanngjarn og misvísandi, þetta er alveg jafnmikil saga Guidu og Evridísar og báðar eiga ósýnilegt líf á sinn hátt. Evridís heldur sig alltaf við millistéttarlífið sem hún er fædd í, á meðan Guida, sem einstæð móðir, lifir í hálfgerðri kommúnu fátæklinga og öreigabarna. Andstæðurnar eru vissulega ekki jafn skarpar og í Parasite, fátæktin virðist ekki jafn sár og erfið og eins er styttra á milli stétta – hér sést hástéttin varla.

Hins vegar er sannarlega kaldhæðni örlaganna að tvær myndir um stéttaátök vinni stóru verðlaunin á Cannes – og alls ekki í fyrsta skipti – þegar höfð er í huga stéttskiptingin sem birtist á hátíðinni, sem gefur sjaldan neinn afslátt af snobbinu. Þetta fylgir vissulega flestum stærstu kvikmyndahátíðunum að einhverju leyti – og þær mættu margar alveg stundum reyna að láta skilaboðin úr myndunum sjálfum enduróma betur í áherslum hátíðanna sjálfra. Karlovy Vary er sannarlega ekki laus við smásnobb, partí með dresskóða og slíku. En heilt yfir er þetta þó alþýðleg hátíð, hátíð sem háskólakrakkar fjölmenna á og sofa þess vegna í tjöldum og eiga ágætis séns á að komast á vinsælustu myndirnar í bíó. Og við kvikmyndaskríbentarnir sem höfum ekki efni á Cannes getum oft séð sigurmyndirnar hérna.

Kvikmyndahátíðir í hvern fjörð

Svo eru auðvitað ótal gestir á þessum hátíðum og sumum þeirra er flogið yfir heimshöfin, stundum bara til þess að halda stutta tölu – eins og Benedikt Erlingsson kom inn á í ræðu sem hann flutti á hátíðinni. Í frétt Screen Daily um ræðuna kom fram að Benedikt talaði um kolefnisvindgang kvikmyndahátíða heimsins, eða svo ég endursegi örstutt brot: „Kvikmyndahátíðir senda útsendara víðs vegar um heim, þar sem þeir prumpa kolefni. Þær bjóða erlendum gestum, sem prumpa kolefni. Þeir borða kjöt, ferðast með leigubílum, hækka í loftkælingunni.“

Hér er rétt að taka fram að ég tók bara rútu á hátíðina, og tók bara leigubíl einu sinni á milli þess sem ég labbaði að meðaltali ellefu kílómetra á dag upp háar brekkurnar í Karlovy Vary. Það að opna svalirnar á gistiheimilinu virkaði svo ágætlega sem loftkæling. Ég borðaði vissulega eitthvað kjöt, en hvorki minna né meira en heima hjá mér. Í þessum efnum er ég ekki sérstakt frávik, ég er vissulega langt í frá efst í fæðukeðjunni en er samt örugglega með meira kolefnisfótspor heldur en allir háskólakrakkarnir á tjaldstæðinu.

Ég virði það við Benedikt að ýta við fólki, það þarf margar samræmdar aðgerðir til þess að takast á við yfirvofandi loftslagsvá. En það að ferðast minna, hanga bara heima hjá sér og kíkja stundum á Skype – ég leyfi mér að efast um að það sé besta lausnin. Vissulega þurfum við að skoða allar mögulegar lausnir á loftslagsvandanum, en við þurfum líka að forgangsraða og átta okkur á hvaða vandamál eru alvarlegust. Og þótt fáir stjórnmálaleiðtogar heimsins séu að gera nóg þá er held ég óhætt að fullyrða að öfgaþjóðernissinnar eins og Donald Trump og Bolsanaro í Brasilíu séu hættulegri umhverfinu en flestir, annar vofir yfir stærsta hagkerfi heimsins og hinn er líklegur til þess að gera sitt besta til að tortíma Amazon-frumskógunum sem fyrst.

Fasistar vilja ekki ferðalög

En Bolsanaro og Trump vilja ekki að við ferðumst, vilja ekki að við förum á kvikmyndahátíðir sem sýna ekki bara Hollywood-myndir, þar sem við kynnumst annarri menningu, jafnt í bíósalnum og á barnum og á tjaldsvæðinu og í viðtölum og á masterclössum. Benedikt minnist einnig á að 1600 kvikmyndir séu gerðar á ári hverju í Evrópu, en aðeins 600 nái dreifingu utan eigin heimalands, og kallar í kjölfarið eftir færri hátíðum og færri myndum og hefur áhyggjur af því að framtíðarsagnfræðingar muni kalla okkar tíma „öld afþreyingarinnar.“

Mikil ósköp sem ég þrái það að hann hafi rétt fyrir sér, það er vart hægt að hugsa sér betri eftirmæli. Í staðinn fyrir að vera öld stríðsins eða öld ójöfnuðarins eða öld loftslagshamfaranna, sem gætu vissulega orðið örlög okkar, þá er ljóst að við höfum gert eitthvað rétt ef okkur tekst að búa til öld afþreyingarinnar, sem myndi þá um leið vera öld listarinnar og öld mennskunnar, því allt er þetta samtengt.

Því fleiri bíómyndir og því fleiri kvikmyndahátíðir, því betra. Við þurfum fleiri kvikmyndahátíðir og fleiri bíómyndir, fleiri bókasöfn og fleiri listasöfn og fleiri tónleikastaði. Því það eru staðirnir þar sem ástin sigrar og hatrið tapar, það eru staðirnir þar sem fólk lærir samkennd og kynnist öðrum menningarheimum í gegnum annað en smellvænar æsifréttir.

Þessar þúsund bíómyndir sem fá ekki dreifingu utan síns heimalands eru líka mikilvægar. Jafnvel ef þær eru vondar eru þær líka mikilvægar. Vond list er nauðsynlegur hluti af vistkerfinu og svo er rétt að muna að gott og vont eru ekki einu mælikvarðarnir á list. List skiptir ekki bara máli þegar kemur að meistaraverkum og metsöluverkum, hún skiptir máli sem snar þáttur í mannlífinu öllu, ekki bara heimsborganna með fínu hátíðirnar heldur líka krummuskuða sem eru kannski ekki einu sinni með kvikmyndahús lengur. En við þurfum helst kvikmyndahús í hvert pláss, eins og í gamla daga, og jafnvel litlar kvikmyndahátíðir hringinn í kringum landið, okkar land sem og önnur.

Þær verða ekki allar stórar og fæstar munu geta boðið stórstjörnum – og það skiptir ekki öllu máli hvort þær sýna stærstu meistaraverk heimsbíósins eða misjafnlega amatörslegt heimabrugg, hvort tveggja er mikilvægt fyrir alvöru lifandi menningu og ef okkur öllum tekst að búa til raunverulega öld afþreyingar, þar sem fólk er sískapandi og djúpfrótt um aðra menningarheima, þá losnum við fljótlega við Trumpa og Bolsanora heimsins og látum fljótlega af þeirri skammtímahugsun og vanahugsun sem kom okkur í þessi vandræði til að byrja með.

Og þar komum við að því sem við Benedikt erum líklega sammála um, að planta trjám fyrir hverja hátíðarheimsókn, þar sem við getum, svo ég vitni aftur í Benedikt og gefi honum lokaorðin, „tjúttað alla nóttina í nýja hátíðarskóginum okkar, komið seint heim og sofið allan daginn. Þetta er mín lausn – vinna minna, sofa meira og planta trjám.“

Texti: Ásgeir H Ingólfsson

Upphaflega flutt í Tengivagninum á RÚV þann 23. júlí 2019.