Smygl getur verið ýmsum vandkvæðum háð. Stundum er vont í sjóinn, stundum eru vegir lokaðir, stundum sér ekki út úr augum. Stundum eru landamærin of rammgirt, tollverðirnir of vígalegir.
Vandkvæði Menningarsmygls eru hins vegar oftast tímaskortur og peningaleysi, sem er oft sama hliðin á sama peningnum, og olli því að smyglleiðir lokuðust tímabundið upp úr áramótum.
Í höfuðstöðvunum var þó ýmislegt plottað, eitt stykki MA-ritgerð skrifuð um möguleikana á að halda smyglleiðunum opnum og skapa Menningarsmyglinu framtíð.
Upphaflega planið var að byrja í ágústbyrjun, eins og í fyrra. En svo mundum við eftir Verslunarmannahelginni. Íslenska internetið er sofandi fram yfir Verslunarmannahelgi, það vita allir sem hafa reynt að ná á fólki eða sem hafa fylgst með íslenska internetinu í seinni hluta júlí og í byrjun ágúst.
Internet-Ísland rumskar á þriðjudaginn eftir Versló og glaðvaknaðar svo með haustinu. Menningarsmyglið mun reyna að fylgja þeirri dægursveiflu sæmilega, þótt það sé búsett erlendis, og því mun hefðbundin dagskrá byrja með Þriðjudagsbíói á morgun – og svo mun þetta allt saman skýrast, sumt verður svipað og í fyrra, annað allt öðruvísi – við erum að vinna í þessu, reyna að átta okkur á hlutverki Menningarmsygls árið 2019. Það eina sem er öruggt er þetta: það verður miklu meira labbað heldur en í fyrra. 2019 verður ár flandursins, árið sem verður þrammað.