Bíóárið 2019 virðist ætla að verða ár hinnar listrænu hrollvekju. Fimm leikstjórar (já, eða sex, það er eitt leikstjórapar þarna) hafa átt lofaðar frumraunir síðustu árin og virðast öll ná að sleppa ansi vel frá bölvun myndar númer tvö. Ég skrifaði um Us í um daginn en þarf vel að merkja að taka orð kollega minna fyrir því í bili með The Nightingale (eftir Jennifer Kent sem gerði The Babadook) og The Lighthouse (eftir Robert Eggers sem gerði The Witch). Nú er hins vegar röðin komin af Midsommar (eftir Ari Aster sem gerði Hereditary) og The Lodge (eftir þau Veroniku Franz og Severin Fiala, sem gerðu áður þá mögnuðu austurrísku mynd Goodnight Mommy eða Ich seh, ich seh – djöfull er enski titillinn miklu betri!).
Hryllingur beggja mynda sprettur upp frá alvarlegu tráma, það hryllilegu að oft er ástæða til að hafa varann á því að vera viss um að allt sé sannleikanum samkvæmt á skjánum – þótt það sé þó aldrei beinlínis sagt. Trámað sjálft fær hins vegar takmarkað pláss í The Lodge en í Midsommar er það langóhugnanlegasti hluti myndarinnar, meira skerí en allur sá óskundi og viðbjóður sem sænska költið getur upphugsað.
Sumsé, þetta byrjar allt heima hjá aðalpersónunum í Ameríku. Við erum með tvö sögusvið oftast – kærastan Dani hringir áhyggjufull í kærastann Christian sem er með strákunum, sem allir segja honum að fara nú að slíta þessu, þetta sé löngu dauðadæmt samband, hann sé enda í raun öxl til að gráta á frekar en alvöru kærasti.
Strákarnir fjórir stefna vel að merkja allir á Svíþjóðarferð um sumarið til þess að taka þátt í dularfullum helgiathöfnum Hårga-fólksins. Allavega tveir þeirra eru enda þjóðfræðinemendur (það er óljósara hvað hinir tveir eru að stúdera eða vinna) og annar þeirra ætlar að gera lokaverkefni um þetta dularfulla költ.
En svo ég spóli aftur að blábyrjuninni, þá heyrum við rödd kyrja yfir sænskan skóg í vetrarklæðum – þangað til skyndilega við heyrum ískrandi hljóð í farsíma einhvers staðar í Ameríku. Þarna nær hljóðheimur myndarinnar manni strax, maður áttar sig á að þetta er um þrá nútímamannsins eftir lýríkinni, náttúrunni, í háværum og óljóðrænum hversdeginum. Hljóðmyndin og klippingarnar í þessum upphafskafla gera hann svo áfram að kröftugasta kafla myndarinnar – og trámað mikla, þegar það kemur, er nöturlegra en orð fá lýst. Og það sem eftir er myndar er raunar einfaldlega úrvinnsla á þessu tráma, með meðulum og minnum hryllingsmyndarinnar.

Svo erum við skyndilega komin til Hålsingland í Svíþjóð um mitt sumar, bókstaflega eins og titillinn bendir til, á Jónsmessuna sjálfa. Og fyrir óvana reynist fátt meira ógnvekjandi en þessi endalausa dagsbirta. Þau eru öll fimm samankomin þarna, Christian hafði ákveðið að bjóða Dani með eftir trámað skelfilega. Hér er kannski rétt að kynna vinina þrjá; þeir eru Josh, mannfræðineminn sem ætlar að skrifa lokaritgerð um ferðina, Mark, sem við vitum ósköp lítið um en á skemmtilega einræðu á sveppatrippi, og Pelle, sem er sænskur og er tenging þeirra við svæðið, þetta er hans fjölskylda. Ingemar bróðir hans virðist einnig hafa verið að þvælast erlendis og er með breskt par í heimsókn, þau Connie og Simon. Þau eru gestkomandi í þessu stórfurðulega samfélagi, þar sem allir klæða sig í einföld hvít klæði með örlitlum útsaumi á hliðunum, dansa, syngja og kyrja og eiga afskaplega þrúgandi borðhald inn á milli.
American Pie 5: The Trip to Sweden
Það tekur tíma fyrir aðkomufólkið að átta sig á því nákvæmlega hvernig költ þetta er, hver eru hlutföllin í þessum kokteil af alvarleika og bernskri, hippískri lífsgleði? Áhorfandinn veit hins vegar að hann er að horfa á hryllingsmynd og veit því að það er miklu verra í vændum. Þau vita það samt mjög snemma þegar tvö gamalmenni kasta sér fyrir ætternisstapann.
En samt ákveða þau fæst að fara við þá skelfilegu sjón. Enda er meðvirkni eitt helsta þema myndarinnar – og má kannski skipta þeim upp í þrenns konar meðvirkni. Þægilegheitameðvirkni, sem getur jafnvel brotist út sem þrælslund eða hentisemi, þar sem siðferði er auðsveigt þegar aðstæður breytast og samfélagið sem þau eru stadd í reynist augljóslega snældugalið. Svo er sú meðvirkni sem heldur Christian í sambandinu við Dani, sem er líklega frekar meðvirkni skyldurækni en ástar, allavega sýnist manni sú ást löngu kulnuð ef hún var þarna einhvern tímann.

Þau tvö, Christian og Dani, eru miðpunktur frásagnarinnar og það má vel hugsa sér hvort þetta sé orðaleikur, Dani og kristnir menn að hertaka hina fornu Svíþjóð. En þau tvö eru líka stærsti veikleiki myndarinnar. Vinir Christians þrír og breska parið virka öll mun forvitnilegri karakterar, það litla sem við kynnumst þeim, en Christian og Dani eru einfaldlega bæði óttalega leiðinlegar persónur þegar allt kemur til alls.
Dani er nánast klisjukennd sem óþolandi kærastan sem er alltaf í dramakasti og tekst að búa til rifrildi úr öllu. Í þetta skiptið hefur hún vissulega góða ástæðu fyrir dramatíkinni, en dramað er samt ekki neitt nýtt, bara ýkt. Og það er raunar merkilegt að lesa stöku gagnrýnanda sem eru enn meðvirkari en Christian og skamma hann fyrir að vera ekki enn meðvirkari, allt undir því yfirskyni að það þurfi, alltaf, að taka tillit til hennar geðrænu vandamála.
Að því sögðu þá vorkennir maður Christian ekki neitt, hann sjálfur er einfaldlega það óþolandi. Hann myndi mig raunar örlítið á Stiffler úr American Pie, hönkí kjánaprikið í American Pie, og Midsommar er um sumt náskyld henni á öfugsnúin hátt, þetta er martraðarfrænka hennar, þegar þau eru öll orðin aðeins eldri og nógu þroskuð til að vera í háskóla en engan veginnn nógu þroskuð til að teljast almennilega fullorðin.

Josh er vel að merkja sá eini í vinahópnum sem er svartur – og breska parið er það líka. Það er vissulega undirliggjandi kynþáttahyggja í því hvernig hinir næfurhvítu Svíar (ég minnist þess ekki að hafa orðið var við dökkleitan Svía í myndinni en þori þó ekki að sverja fyrir það) eru gerðir að ennþá meiri aðkomumönnum en hinir hvítu, en það er þó ekkert miðað við þegar Christian þrammar inní kofann þeirra og tilkynnir Josh að hann sé að fara að stela ritgerðarefninu hans. Taka kreditið af vinnu blökkumannsins eins og hvíti maðurinn kann flestum betur.
Þarna er líka forvitnileg innsýn inní eitrað keppnisskap innan akademíunnar sem hefði þess vegna borið heila mynd, a.m.k. fyrir nörda eins og mig. Já, og svo væri alveg gaman að mála myndina Trumpískum litum og láta eins og Aster sé málpípa forsetans að sanna hvað allt er skelfilegt í þessu sænska kommúnistabarbaríi. Það væri freistandi, en vissulega ekki sanngjarnt. Þvert á móti má segja Aster það til hróss að hann virðist hafa unnið heimavinnuna sína hvað varðar Svíþjóð og fornar sænskar hefðir.
Tvö trámu mætast
Frá Svíþjóð höldum við svo aftur til Ameríku, í vetrarbústaðinn, The Lodge.
Forsagan er einföld og skýrð að mestu á upphagsmínútunum. Tvö börn missa móður sína, sem fremur sjálfsmorð eftir að faðir þeirra biður formlega um skilnað til að giftast nýju ástinni. Nýja kærastan, sem er leikin af Riley Keogh, barnabarni Elvisar, er uppalin í einhverju dómadags költi en virðist hafa komist ágætlega frá því, þótt trámað sé enn undirliggjandi.
Heimilisfaðirinn fær svo þá afbragðshugmynd að fara með alla hersinguna í afskekktan bústað yfir jólin, til þess að fá börnin til þess að treysta verðandi stjúpunni. Pabbinn þarf svo að fara í vinnuna og kemst ekki til baka á réttum tíma sökum veðurs – og skyndilega fara hlutir að týnast og jafnvel geðheilsan með.
Þau Franz og Filia eru á kunnuglegum slóðum frá fyrri mynd – systkynin tvö virðast á köflum algjör djöflabjörn, rétt eins og bræðurnir tveir í Goodnight, Mommy. Útsmogin og gera allt til þess að gera stjúpunni lífið leitt.

Hún er sem fyrr segir einnig að vinna úr sínu bernskutráma – og þótt það hafi gengið ágætlega áður en í einangrun bústaðarins er komið þá ýfa einangrunin og allir þessir dularfullu atburðir upp gömul sár, og ekki batnar það þegar lyfin virðast horfin.
Myndin er einfaldari og um samt lúmskari en Midsommar, segir ýmislegt torrætt en forvitnilegt um kristna trú sem költ og er einstaklega myndræn og áhrifamikil þegar kemur að senum í snjó og ís og vök, senum sem oft eru á mörkum draums og veruleika. Svo er maður lengi á báðum áttum hver er að ofsækja hvern. Riley Keough, dótturdóttir Elvis sjálfs, sannar enn aftur hve mögnuð leikkona hún er og ber myndina löngum stundum uppi. En eftir báðar myndir situr þessi óljósa spurning: gerir gott fólk verstu hlutina af því það er búið að fokka því upp, jafn öfugsnúið og það virðist, og þá er það auðvitað ekki lengur gott – eða hvað?
Eins vekja báðar myndirnar spurningar um geðveiki, meðvirkni og skáldskap á okkar woke-tímum, maður hefur til dæmis rekist á greinar sem staðfastlega verja allar gjörðir Dani í Midsommar sökum tráma hennar og mögulegra geðraskanna, jafn meðvirkur og slíkur lestur er. Mögulega þarf að breyta einhverjum skilgreiningum þarna, eða bara endurmeta í sífellu? Ganga að því einu sem vísu að manneskjur séu breyskar og óútreiknanlegar – og að í hryllingsmyndum geri þær einhvern óskunda.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson