Blaðamennskusiðferði og listamannaprinsipp eru gamaldags og lummó. Fyrir aðeins einni kynslóð síðan þótti fátt hallærislegra en að selja sig stórfyrirtækjum, nú þykir fátt meira töff. (Þetta er rakið vel í þessari prýðilegu grein á Quartzy) Jafnvel svo töff að margir svokallaðir áhrifavaldar þykjast hafa selt sig þótt það sé enginn búinn að kaupa þjónustuna ennþá, svo heitt þrá þeir að selja sig (eins og rakið er í þessari grein á The Atlantic). Rétt eins og ófáir listamenn þurfa stundum að koma fram frítt í upphafi ferilsins (og oft mun lengur en það) þurfa sumir áhrifavaldar að auglýsa frítt og óumbeðið í upphafi síns ferils.

Ísland hefur sannarlega ekki farið varhluta af þessari þróun.

„Ég kynni til leiks Sambandið, símafélag framtíðarinnar,“ sagði Unnsteinn Manúel Stefánsson, tónlistarmaður og fjölmiðlamaður, á fréttamannafundi í tilefni stofnunar nýs símafyrirtækis og bætti svo við í viðtali við Fréttablaðið: „Skilin eru að verða óskýr á milli fjölmiðla- og fjarskiptamarkaðarins í heiminum.“

Það er alveg rétt – en rímar ágætlega við hvernig skilin eru að verða óskýr á milli tónlistarmanna og viðskiptalífsins. Sérstaklega þegar í kjölfarið koma svona frasar: „Þar verður allt þetta hefðbundna, sem þekkist í dag, eins og tveir fyrir einn tilboð,“ og „En svo er það ekki síst þessi viðburðarmenning. Við verðum með miða á alls kyns tónleika og uppistönd og svona.“

Unnsteinn er auðvitað ekki fyrsti tónlistarmaðurinn til þess að ganga í björg kapítalismans – bara nýlega skammaði Emmsje Gauti Neytendastofu fyrir að benda á að hann væri sellout og Herra Hnetusmjör er að eigin sögn „með góða fjárfesta með sér“ til að opna nýjan bar í miðbænum.

Rapparar og hipp-hopp artistar spretta upphaflega upp úr fátækrahverfum amerískra stórborga, núna eru þetta synir Framsóknarflokksins eða frændur forsetans. Það er nánast eins og tónlistin sé þarna jafnvel orðin inngöngumiði inní viðskiptaheiminn. „Ég skal selja ykkur krakkana fyrir feita stöðu,“ er samtal sem er auðvelt að ímynda sér í íslenskum viðskiptaheimi ársins 2019.

Unnsteinn hefur hins vegar alltaf virkað öðruvísi en þessir gróðærisrapparar, verið beinskeyttur, gagnrýninn og óhræddur að taka slaginn í erfiðum málum. Þess vegna kemur þetta aðeins meira á óvart, er aðeins óþægilegra – og kannski aðeins meira tímanna tákn; núna sleppur enginn.

Það krystallast á hrollvekjandi hátt í auglýsingamyndbandi Sambandsins, sem virkar eins og einhver klikkaður Brave New World heimur og í lokin er Unnsteinn kominn í hlutverki Morpheusar úr The Matrix, nema núna er ekkert val – bara ein pilla í líki tölvukubbs.

Heilagleikinn hefur vissulega stundum verið fullmikill á andkaptítalískum skeiðum tuttugustu aldarinnar, á hippatímanum, slæpingjaárum X-kynslóðarinnar og jafnvel þessum stuttlífu byltingartímum rétt eftir hrun – þegar það þótti jafnvel sellout að vinna sakleysislega vinnu til að geta borgað grasið sitt sjálfur.

Þess vegna sveiflast alltaf pendúllinn til baka, í gróteskan kapítalisma – eða kannski er það heppileg og algeng söguskoðun fyrir kapítalismann, kannski er það sem gerist einfaldlega það að kapítalisminn nær böndum á uppreisnargirni unga fólksins? Svo þarf að læra á næstu kynslóð, sem kostar aðra tímabundna uppreisn.

Föstudagslagið þessa vikuna er því frelsisyfirlýsing listamanns. Listamaður að segja það sem stundum er nánast óþarfi að segja, því það liggur í loftinu, en þarf alveg örugglega að brýna fyrir tónlistarmönnum ársins 2019.

Það er Ani DiFranco sem syngur „The Million You Never Made“ og það er meira að segja eins og lagið sé samið um Reykjavík. Í upphafi talar hún um sjávarloftið, fiskilyktina og öll hvísluðu leyndarmálin.

the air comes off the ocean

the city smells fishy

the air is full of fish and mystery

whispering who, what, when

Hún lofar þó að selja sig ekki, því þá geti hún ekki lengur spilað á gítarinn – eitthvað sem stundum virðist augljóst en stundum virðist hins vegar sellout eina leiðin.

and you can dangle your carrot

but i ain’t gonna reach for it

cuz i need both my hands

to play my guitar

Þetta er auðvitað bara lífið. Sem er skítugt og viðsjárvert, en Ani vill samt benda okkur á að það er hægt að gera hlutina öðruvísi.

and life is a sleazy stranger

who looks vaguely familiar

flirting with a bimbo

named disaster

at the end of the bar

Þegar maður er nógu frægur er svo enginn að spyrja erfiðra spurninga, þér er hleypt í öll bestu partíin, fjarri meðaljónunum sem kaupa músíkina þína.

cuz everybody loves you

when you’re a star

and nobody questions

what it takes to go that far

Hún Ani veit að henni tekst líklega ekki að bjarga heiminum, allavega ekki ein síns liðs. En hún getur gert eitthvað – nánar tiltekið, verið milljónin sem slapp í burtu:

i could be the million that you never made

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson
Mynd af Ani DiFranco er fengin af Wikimedia Commons: By Rtsanderson – Own work, CC BY-SA 3.0, https://commons.wikimedia.org/w/index.php?curid=5739903