Við heyrum kúrekasöng einhvers staðar í blökkuhverfi í Ameríku – þetta er Billy Ray Cyrus sem syngur, og kúreki nálgast. Það standa allir á öndinni, vegna þess að er ekki Billy Ray sem er á hestinum – nei, það er svartur maður á hestinum og um leið og andlitið á honum kemur í fókus þá breytist röddin – við heyrum hans eigin rödd og allir eru dollfallnir.
Ekki af því 19. öldin birtist skyndilega í Ameríku 21. aldarinnar, það er alvanalegt – kúrekarnir neita að drepast og lifa endalaust áfram í vestrum og kántrítónlist – tískan lifir enn þótt fæstir þeirra séu bókstaflega að smala búpeningi ennþá.
Það að kúrekinn sé svartur fokkar hins vegar alveg upp í mannskapnum. Við getum ekki orðið kúrekar – er það? hugsar hver einasta manneskja í blökkumannahverfinu, fyrir utan eina unga stelpu sem battlar hann með heimatilbúnum dansi. Svo átta þau sig, jú, við megum það bara víst – og sætta sig við kúrekann eins og hann er.
Síðasta vígið er fallið, eftir aldir af menningarnámi hvíta mannsins hefur svarti maðurinn loksins náð einhverju til baka. Þetta er auðvitað ekki fyrsti svarti kúrekinn, hvorki í kvikmyndasögunni né í alvörunni, en þeir eru samt það sjaldgæfir – eða rækilega faldir í bandarískri sögu – að manni finnst þeir alltaf vera sá fyrsti.
Lengri útgáfa myndbandsins – sem er eiginlega verri, útskýrir hlutina aðeins um of – sýnir okkur einmitt að þeir félagar mættu þarna í gegnum einhver ormagöng, þetta eru alvöru 19. aldar kúrekar að villast til 21. aldarinnar.
Þeir hafa þó notað tímavélina til verslunarferða áður – allavega fullyrðir kúrekinn okkar að hann sé með kúrekahátt frá Gucci – fyrirtæki sem er ekki nema hundrað ára gamalt.
Billy Ray mætir svo fljótlega í eigin persónu, ekki bara í eigin rödd, og síðan ganga þeir félagar inní félagsheimili á Vestfjörðum – nei, ég meina Ameríku – þar sem heill salur af hvítu fólki tekur á móti þeim – öll með kúrekahatta – fyrir utan einu svörtu konuna í salnum, sem birtist skyndilega í nærmynd og ranghvolfir í sér augunum. Kannski yfir því að svarti kúrekinn sé að taka upp ósiði hvíta mannsins.
Þessi óskiljanlegi nútími
Lagið sem ég er að rifja upp er Old Town Road með kántrí-rapparanum Lil Nas X – Billy Ray bættist ekki við fyrr en í rímixi lagsins sem er núorðið þekktasta útgáfa þess – og lagið sló sannarlega í gegn, var nítján vikur á toppi vinsældarlista og í kjölfarið þekkir öll hin kristna, hægrisinnaða kántrí-Ameríka Lil Nas X.
Montero Lamar Hill var bara nítján ára þegar hann sló í gegn með þessu lagi. Hann er skýrður eftir bíl – Mitsubishi Montero – en tók upp listamannsnafnið Lil Nas X til heiðurs rapparans Nas. En hann var samt orðinn frægur áður en hann fór að klífa vinsældarlistana.
Ævisaga hans gæti varla verið nútímalegri – með öðrum orðum, hún er nánast óskiljanleg öllum eldri en þrítugum. Hann varð ófélagslyndur og einrænn á unglingsárunum – en í staðinn fyrir að það breytti honum í einfara, þá var hann að nota tímann til að verða stjarna á flestum samfélagsmiðlum sem í boði voru. Og allt það drama sem fylgdi því risi eru að mestu óskiljanleg miðaldra menningarblaðamanni sem skilur kannski Facebook og Twitter en fátt annað. Um leið er Nas þó að spila með sagnaarfinn – dálítið á þann hátt að hann sé nýbúinn að uppgötva hann – og þannig verður músík hans bræðingur á hinu gamla og nýja, vissulega pínu eins og eitthvað sem maður gerir þegar maður er nýbúinn að læra um það í sögutíma – en það er hreinlega hluti sjarmans.
Hann keypti svo bítin fyrir lagið á 30 dollara frá jafnaldra sínum, hollenska pródúsentum YoungKio – en sem betur fer varð velgengni lagsins líka til þess að feril YoungKio sjálfs fór á flug.
En Nas sjálfur var enn á toppi vinsældarlistana þegar hann kom út úr skápnum. Það kemur nánast á óvart að heyra hversu seint það þó gerðist og hversu erfitt það virðist hafa reynst honum, miðað við viðtöl, einfaldlega af því maður horfir á hann og finnst hann hafa komið úr heimi þar sem allt má, en man svo að hann kemur ekkert síður úr afturhaldsama Biblíubeltinu.
Og eftir að hafa tekið sinn snúning á vestranum var svo komið að næsta stóra hittara – þar sem Nas tekst á við sjálfa bók bókana, sköpunarsöguna, englana og ekki síst Satan sjálfan.
Lagið – sem og platan sem það er á – kallast Montero. Sem bendir til þess að hann hafi farið einhvern einkennilegan hring til að ná sátt við sjálfan sig og skírnarnafnið. En undirtitill lagsins er þó forvitnilegastur: Call Me By Your Name.
Þar vísar hann í samnefnda bók André Aciman, sem og myndina sem Luca Guadagnino leikstýrði. Mynd um ungan amerískan strák sem eyðir sumrinu á Ítalíu þar sem hann verður ástfanginn af eldri manni, sem seinna reynist vera mannæta.*
Myndin og bók Acimans eru báðar afskaplega lágstemmdar og bera í sér mjög klassíska fegurðarhugmyndir, þetta er um hvíta, kurteisa og vel klædda homma sem óhætt er að bjóða í matarboð. Þannig virkar vísunin eins og Nas ætli að sprengja þær hugmyndir allar í tætlur – því hér er hann að ríða Satan sjálfum í kitsaðasta myndbandi hérna megin Aldingarðsins.
Þessi samnefndu listaverk virðast því staðsett á sitt hvorum enda hinsegin spektrúmsins – en Nas og Aciman hafa þó báðir skjallað hvorn annan opinberlega, aðdáun þeirra á verkum hvors annars virðist fölskvalaus.
Leikar hefjast í aldingarðinum – og hér sköpunarsagan orðin svört og hýr, hvort sem um ræðir Adam, snákinn eða Lilith – og Nas sjálfur í ófáum hlutverkum.
Næst birtist okkur einhvers konar blanda af veldi Grikkja, Rómverja og Frakklandi Maríu Antoinette, þar sem kitsið er keyrt í botn – og alltaf er svörtum hýrleika blandað í kokteilinn.
Leikar taka að æsast þegar Satan blandast í spilið, villtir ástarleikir með Satan fylgja í kjölfari – en svo snýr Nas myrkrahöfðingjann svo úr hálsliðnum og hirðir af honum hornin og fær við það vængi. Það er eins og hann sé að eigna sér gervalla Biblíuna, bæði þá góðu og þá vondu. Og kannski að sættast við hvíta manninn: „Heldurðu að ég sé Djöfullinn sjálfur? Ég skal þá vera djöfullinn sjálfur.“
Þetta öfugsnúna menningarnám er hressandi – og væri gaman að sjá rata til Íslands – við þurfum augljóslega Pólverja að kveða rímur sem allra fyrst.
Annað sem einkennir tónlist Nas er að allir fylgihlutir laganna verða óaðskiljanlegir hlutar af henni. Ekki bara tónlistarmyndböndin – sem gefa oft einföldum textunum nýja vídd, heldur markaðssetningin öll.
Við sjáum þetta raunar í texta MONTERO (Call Me By Your Name), þar sem hann rekur það ágætlega hvernig frægðin er að leika hann, hvernig er að vera á toppi vinsældalista og vera með ríkidæminu gengin úr samfélagi við gettóið sem ól hann:
A sign of the times every time that I speak
A dime and a nine, it was mine every week
What a time, an incline, God was shining on me
Now I can’t leave
And now I’m actin’ hella elite
Never want the niggas that’s in my league
I want to fuck the ones I envy, I envy
Alræmdasta markaðsstönt Nas var að hanna Satan-skó í nafni Nike – og í óþökk fyrirtækisins – og selja þá á rúmlega þúsund dollara. Það kostaði vissulega lögsókn en um leið dýrmæta kynningu. En hann var einnig með peningaverðlaun tengd frumflutningi lagsins; var með súludanskeppni – í takt við það að hann fer niður lengstu súlu í heimi til að hitta myrkrahöfðingjann, enda var myllumerkið á Tik Tok #PoleDanceToHell.
Þá var hann líka með Bitcoin í verðlaun og í samstarfi við app-framleiðendur og tölvuleiki og það er dálítið erfitt að átta sig á honum, er hann sell-out í hjáverkum eða er hann Santiago Sierra sinnar kynslóðar? Kannski bara bæði – hann var sjö ára í hruninu og það er jafnauðvelt að lesa það út að bæði hrunið og Occupy séu viðfangsefni gamla fólksins – eða að hann hafi einmitt fengið það með móðurmjólkinni og þetta sé hans leið til að takast á við það. En samt, hann þarf að hætta að gefa fólki Bitcoin, af því það er verkfæri Satans sjálfs. Sem er hann – þannig að þar með slær hann vopnin úr höndum mér og lætur gjörninginn ganga fullkomlega upp.
* Þetta síðastnefnda kom þó því miður ekki fram í myndinni sjálfri, heldur í slúðurpressunni nokkrum árum síðar.
Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson