Ímyndaðu þér að draumaverkefnið þitt renni út í sandinn fyrir allra augum. Bíómyndin þín um Don Kíkóta, spænska riddarann hugumprúða, er sett í gjörgæslu tryggingafyrirtækja út af því að óvænt aurskriða eyðileggur stóran hluta tækjakostsins og gerbreytir útliti helstu tökustaða, svona rétt áður en aðalleikarinn Jean Rochefort verður alvarlega veikur og myndin missir þar með Don Kíkóta sjálfan.

„Það er einfaldlega of sárt að ímynda sér það,“ sagði kvikmyndaleikstjórinn Terry Gilliam árið 2000, rétt eftir að draumaverkefnið hans um Don Kíkóta hafði verið slegið af. Myndin sem varð fljótlega ein frægasta ókláraða bíómynd kvikmyndasögunnar, meðal annars vegna heimildamyndarinnar Lost in La Mancha, þar sem við sjáum hvernig allt sem getur farið úrskeiðis við eina bíómynd fer úrskeiðis.

En Terry Gilliam er ólíklegt glaðlegri að sjá þar sem hann situr nú fyrir framan mig og fagnar því að hafa loksins klárað þetta eilífðarverkefni. Með allt öðrum leikurum og meira að segja annarri sögu, en klárað það engu að síður.

En hann upplifði engu að síður óvenjulega pressu við tökur.

„Ég hafði áhyggjur af því að myndin yrði ekki jafn góð og myndin sem fólk var með í hausnum. Allt frá því Lost in La Mancha var sýnd hefur fólk getað ímyndað sér hvernig myndin væri – og ímyndunarafl fólks er almennt miklu betra en mitt,“ segir hann.

En hann er samt glaður, hann segist hafa gert myndina sem hann dreymdi um á endanum. Hún er þó allt öðruvísi heldur en myndin sem slegin var af. Johnny Depp, sem Sancho Panza, átti að þvælast ásamt Don Kíkóta aftur í fortíðina í upprunalegu útgáfunni. En því var breytt – sem skilaði sér í bæði betri og ódýrari mynd að sögn Gilliams.

En hver er þessi Don Kíkóti – og hvað gerir útgáfu Gilliam óvenjulega?

Geðveiki eða óbeislað ímyndunarafl?

Don Kíkóti er líklega frægasta persóna spænskrar bókmenntasögu, sjálfskipaður riddari sem sér illgjarna risa þar sem aðrir sjá saklausar vindmyllur. Þetta er saga um geðveiki eða óbeislað ímyndunarafl, svona eftir því hvernig þú lítur á það – og rímar því merkilega vel við höfundarvek Gilliams, sem varð fyrst frægur sem meðlimur Monthy Python en hefur síðan leikstýrt myndum á borð við 12 MonkeysBrazilThe Fisher King og The Imaginarium of Dr. Parnassus. Hann skapar heima ekki síður en að segja sögu – og það er ástæða þess hve illa hann þrífst stundum í takmörkuðum heimi Hollywood í dag; hann hefur engan áhuga á að gera ódýrt stofudrama, myndirnar hans kosta peninga – en smekkur hans er mun sérviskulegri en svo að hann falli að smekk kvikmyndamógúla Hollywood. Sem eru þó á villigötum þar, oftar en ekki skila myndir Gilliams hagnaði, þvert á mýtuna.


Aðalpersóna myndarinnar The Man Who Killed Don Quixote er hins vegar allt önnur tegund af leikstjóra, sjálfhverfur og vælukjóalegur auglýsingaleikstjóri að nafni Toby Grisoni, sem Adam Driver leikur. Hann er mættur til La Mancha til þess að gera vel borgaða en innihaldrýra auglýsingu þegar hann er skyndilega minntur á æskuævintýri sín á þessum slóðum, þar sem hann hafði gert ódýra útskriftarmynd um sjálfan Don Kíkóta í nálægu þorpi. Hægt og rólega kemst hann að því hvaða áhrif myndin hafði haft á aðalleikarana. Hann hafði selt ungri aðalleikkonunni óraunhæfa stjörnudrauma sem höfðu leitt hana á vafasamar brautir og Don Kíkóti sjálfur, gamall skósmiður sem Toby hafði uppgötvað, er ennþá fastur í hlutverki riddarans. Allt þetta rímar ágætlega við þau áhrif sem þetta hefur haft á feril Gilliams, þótt hann hafi leikstýrt nokkrum myndum í millitíðinni þá snúast spurningar á blaðamannafundum vegna hinna ósjaldan um þessa einu spurningu: hvenær ætlarðu að klára Don Kíkóta?


Og fljótlega festist Toby sjálfur svo í hlutverki skjaldsveinsins Sancho Pancha og mörkin á milli draums og veruleika taka að mást út. En þegar raunveruleikinn bankar aftur upp á þá eru það peningamennirnir, framleiðendur og rússneksir oligarchar sem virðast sjá þann tilgang helstan með auð sínum að geta niðurlægt aðra. Eitthvað sem kallast á við hrakfallasögu myndarinnar, sem er ekki alveg lokið enn, enda standa enn yfir deilur við portúgalska framleiðandann Paulo Branco um eignarhald á myndinni, þar sem Branco virðist einsetja sér að haga sér eins og ýktasti teiknimyndaskúrkur.

Gilliam virðist þó tilbúinn að gleyma Branco, myndin muni lifa og það sé það sem öllu skipti.

Gráðugi auglýsingaleikstjórinn

En leikstjórinn Toby, sem seldi sálu sína auðvaldinu, hvernig kom hann til sögunnar?

„Toby er sá sem ég passaði að verða ekki, þótt það hafi sannarlega verið freistandi. Sjálfur fékk ég meiri pening fyrir HM auglýsingu fyrir Nike en allan tímann sem hann eyddi við vinnuna að Don Kíkóta,“ segir Gilliam bætir við að hann muni ófáa unga leikstjóra sem hafa leikstýrt frábærri bíómynd ungir – og nánast eingöngu leikstýrt auglýsingum síðan.

En hvað heillaði svona við Don Kíkóta til að byrja með? „Don Kíkóta og Sancho Panza standa fyrir okkur öll, öll eigum við okkar praktísku hlið og öll eigum við okkar draumóra.“ Hann játar hins vegar að hafa ekki lesið bókina fyrr en hann var beðinn um að leikstýra myndinni. „En það sem kom mér í gegnum þetta allt saman var einfaldlega sú staðreynd að ég er passlega gleyminn. Sorgirnar og martraðirnar fljóta fljótt í burtu.“

Hann minnir okkur á það í lok blaðamannafundarins að sjálfur Orson Welles reyndi líka að kvikmynda ævintýri Don Kíkóta, en hann náði aldrei að klára myndina. „Þess vegna varð ég að gera það!“ 

En við skulum ræða hann Orson aðeins betur í næstu viku. Enda eru þeir Gilliam óneitanlega andlega skyldir leikstjórar – snillingar með metnað og óhamið ímyndunarafl sem er nokkrum númerum of stórt fyrir Hollywood.

En mig langar að ljúka þessu með því að rifja upp þessa 16 ára gömlu HM auglýsingu Gilliams, þar sem löngu gleymt Presley-lag, A Little Less Conversation, gekk í endurnýjun lífdaga á meðan Henry, Totti, Figo, Ronaldinho og félagar léku fótbolta undir og Eric Cantona sá um dómgæslu í sérkennilegu fótboltamóti um borð á fangaskipi. Það er meiri karakter í þessari auglýsingu en flestum, Gilliam er ekkert að gefa afslátt af listrænni sýn sinni – já, og var ég búinn að nefna Elvis?

Viðtal: Ásgeir H Ingólfsson

Upphaflega flutt í Tengivagninum 29. júlí 2018.