Listamenn eru sjálfhverfir og þess vegna má treysta því að á öllum almennilegum kvikmyndahátíðum séu fleiri en ein og fleiri en tvær myndir um listina sjálfa, kvikmyndalistina eða aðrar listir. Sem er auðvitað frábært, enda fátt skemmtilegra en þegar fólk fabúlerar um það sem það elskar fyrir fólk sem elskar það sama – sjálfhverfa í umfjöllunarefnum er vanmetinn kostur, ef það er vel gert auðvitað.

Það er svo allavega hvort þetta verði eins og skemmtilegur samkvæmisleikur eða metafýsísk hugleiðing um listina og lífið um leið, eins og til dæmis Synechdoche, New York og raunar megnið af höfundarverki Charlie Kaufman. En það eru kannski færri dæmi um það þegar listin í slíkum myndum er bókstaflega upp á líf og dauða – en heimildamyndin Dancing on the Edge of the Volcano er sannarlega dæmi um það.

Þetta er heimildamynd um gerð leikinnar myndar – en sker sig úr í þeim flokki að því leyti að slíkar myndir eru ýmist um gerða þekktra meistaraverka kvikmyndasögunnar eða alla vega um verk frægra leikstjóra.

Þekktustu dæmin eru líklega Heart of Darkness eftir Eleanor Coppola um hrakfallasögu Apocalypse Now! eftir eiginmann hennar Francis Ford Coppola, og svo The Man Who Killed Don Quixote, um mynd sem Terry Gilliam náði aldrei að klára – fyrr en löngu eftir gerð heimildamyndarinnar (sjá pistil hér). Svo má nefna verk kvikmyndasagnfræðinga á borð við Alexandre O. Philippe, sem gerði síðast Lynch/Oz, um tengsl David Lynch og Galdrakarlsins í Oz, og hefur áður gert glúrnar myndir um Alien, Psycho og Star Wars, eða Mark Cousins, sem er þó vissulega töluvert í því að reyna að grafa upp faldar perlur kvikmyndasögunnar.

En það er öllu óvenjulegra að gera heimildamynd um fyrstu mynd leikstjóra – mynd sem vel að merkja er mjög líklega að fara í hundana. Costa Brava, Lebanon er nefnilega um það bil að fara í tökur í miðju Covid, þegar hrikaleg sprengja skekur Beirút. Þið munið kannski eftir fréttunum, enn þann dag í dag er óvíst hvað nákvæmlega gerðist, hver bar ábyrgð á öllu þessu stórhættulega eldfima efni við höfnina, þetta er enn bitbein í líbönskum stjórnmálum.fre_20230824_15260743

En áhrif sprenginganna á kvikmyndagerðina sem og Beirút-borg eru ein stór katastrófa. Eiga þau að bíða, halda áfram, kýla á það – því ef ekki núna, þá hvenær? Það er allt klárt, en samt er ekkert klárt, heimsfaraldur rekst á við aðrar hörmungar og allir eru bara að reyna að redda sér, einhvern veginn.fre_20230824_153200669

Það er líka meira undir þar sem þetta er frumraun leikstýrunnar Mouniu Akl – ólíkt viðföngum áðurnefndra mynda er hún ekki búin að skrá nafn sitt í kvikmyndasöguna – og ef fyrsta myndin floppar er óvíst að hún fái nokkru sinni tækifæri til þess að gera aðra. Við þetta ríma svo töfrandi senur úr rúmlega 40 ára gamalli heimildamynd, Whispers, Hvísl, sem kallast á við þessa, sýna okkur magnaðar tökur frá Líbanon ársins 1980, mynd sem maður væri meira en til í að grafa upp eftir á og njóta – þótt ég hafi hingað bara fundið stuttar klippur á Youtube. En þær eru heillandi, svipmynd af því þegar arabaheimurinn var miklu vestrænni en í dag.

Heimildamyndin sjálf, Dancing on the Edge of the Volcano er í raun á sinn hátt dans þriggja mynda við hvor aðra, því myndin kallast svo sannarlega á við Costa Brava, Lebanon, plottið er ekki svo fjarri hrakförum kvikmyndagerðarmannana, sem þýðir að maður er oft ekkert viss um hvort maður er að horfa á atriði úr myndinni eða bara tökur af tökustað.

Seinna uppgötvaði ég svo að Costa Brava, Lebanon var frumsýnd á Feneyjum fyrir tveimur árum og er nú aðgengileg á Netflix – þetta er mynd um fjölskyldu sem flýr í sveitina úr menguninni í Beirút í nálægri framtíð – en mengunin eltir þau, mjög bókstaflega – af því borgin ákveður að setja upp nýja ruslahauga við hliðina á landareign þeirra. Og þessi hráslagalega framtíðarsýn um Beirút raungerist svo í nútíma heimildamyndarinnar, þar sem sprengingunni fylgja einmitt aukin vandamál með sorphirðu, til viðbótar við flóð á götum borgarinnar og heimsfaraldurinn sem enn geysar og rafmagn er skammtað, sem gerir það flókið að klára bíómynd sem þarf að klippa og eftirvinna.

Costa Brava, Lebanon gerist öll í sveitinni en er á einhvern einkennilegan hátt um Beirút, þessa heimahaga sem þau eru að flýja, og þetta er litrík fjölskylda, pabbinn og kostuleg yngri dóttirin í sífelldu stríði við heiminn, eldri dóttirin og amman meira uppteknar við að daðra við verkamennina handan girðingar, sem vill svo heppilega til að eru á breiðu aldursbili – og mamman sem saknar Beirút og síns fyrra lífs sem fræg tónlistarkona. Og hún er leikin af stórleikkonunni Nadine Labaki, leikstýru Capernaum, sem syngur fyrir okkur undir kreditlistanum. Og allar dansa þessar myndir í kringum Beirút, þessa heillandi en kaótísku borg sem maður skynjar að leikstjórar allra myndanna þriggja elska aðeins meira en þeir hata hana.

Hin persneska Hulduefni (Maade Tarik) er svo skálduð mynd um bíómynd sem aldrei varð. Nánar tiltekið fjallar hún um leikara og leikkonu sem fá ekki hlutverk eftir leikprufur en ákveða að frekar en að halda lúpuleg heim á leið þá geri þau bara sína eigin mynd. En til þess þarf auðvitað fjármagn – og eftir ýmsar tilraunir enda þau óvænt á því að ræna dýrmætu loftsteinabroti, samanber Hulduefnið í titlinum, og átta sig á að fyrir hann geta þau fengið fúlgu fjár á svarta markaðnum – ef þau vissu bara hvar þau ættu að leita. Allan þennan tíma eru þau þó á sinn hátt að leika, þau birtast okkur sem ungt fólk sem er að reyna að leikstýra eigin lífi, gera það leikrænt, láta handritið ganga upp.fre_20230824_152744406

Myndin kallast oft skemmtilega á við frönsku nýbylgjuna, þetta er skemmtileg mynd en kemst kannski aldrei á almennilegt flug – en þó skynjar maður töluverðan undirtexta á bak við þetta allt saman sem fer sjálfsagt að stórum hluta yfir hausamótin á okkur vestrænum áhorfendum sem erum vön ólíkt minni ritskoðun og vandræðum við kvikmyndagerð.fre_20230824_152902294

Loks ber svo að nefna tvær ítalskar bíómyndir sem eru bókstaflega um listgreinina, annars vegar bókina og hins vegar kvikmyndina. Sú sem er um bíó mætti þýða sem Innilokaður bíófíll eða Una claustrocinefilia, sem fjallar í raun um leikstjórann sjálfan Alessandro Aniballi sem langar alltaf að gera esseyjumynd um eigin bíóhneigð og fær loks tækifæri til þess í innilokun kófsins. Það sakaði ekki að rétt fyrir mynd var birt stutt brot af heiðursgesti hátíðarinnar, henni Robin Wright, að flytja stuttan óð til okkar bíófílana.

Myndin byrjar ágætlega, innilokunin með minningunum af hvíta tjaldinu, en hægt og rólega tekur kvikmyndafræðingurinn yfir. Og málið er þetta; bíóást og kvikmyndafræði eru miserfið sport – flestir geta heillað mann með eigin bíóást, svo framarlega sem ástríðan skín í gegn, þótt orðheppni og innsæi geri bíóástina vissulega áhugaverðari. En fræðin, það þarf heilmikla færni til að gera þau heillandi – hér eru þau alltof oft léleg, andlaus og ekkert sérstaklega fræðandi, og það er dálítið eins og fræðin hafi drepið bíófílinn í Aniballi, eða haldi honum alla vega föngnum.fre_20230824_152953133

Umberto Eco: bókasafn heimsins er hins vegar margfalt skemmtilegri. Myndin er gerð sjö árum eftir andlát Eco og maður veltir fyrir sér hvernig þeir nálgist efnið, verður þetta fyrst og fremst minningar og gamlar klippur úr kvikmyndasöfnum? Og jú, það er vissulega töluvert um það, en á sinn einkennilega hátt er myndin ekkert síður um bókasafnið – og eiginlega bara öll bókasöfn – rétt eins og um Eco. En einmitt með því að vera um bókasöfn þá verður hún kannski um Umberto Eco?

Eco átti 30 þúsund bóka safn heima hjá sér í Mílanó og aðrar 20 þúsund bækur í sumarbústað sínum. Hann hefur greinilega verið heppinn með fermetraverð þegar hann var í húsnæðishugleiðingum. Og Eco sjálfur er orðheppinn og fræðandi, er mikið að hugsa um mismunandi gerðir minnis. Hann talar um þrjár gerðir minnis – plöntuminnið er bækurnar, búnar til úr trjám og þar áður papýrus, líkamlega minnið er heilinn sjálfur og svo er sílikonminnið – sem hann er ekki alveg tilbúinn til að treysta – og notar úrelta floppídiska máli sínu til stuðnings.

En það skemmtilegasta við myndina er að hún leyfir sér alls kyns útúrdúra, stoppar hjá kúríósum á borð við bækur Athanasius Kircher, fjölfróðs sautjándu aldar manns sem reyndist hafa rangt fyrir sér um nokkurn veginn allt, mögulega andlegur forveri samsæriskenningasmiða nútímans, en Eco hafði sérstaklega gaman af ókláruðum verkum, sjálfsútgáfum og bókum á málum sem enginn talaði – og bara öllum bókum, eða eins og hann orðaði það: „Ekki láta þau kúga þig til að lesa bara mikilvægar bækur!“

Þá er yndisleg sena þar sem ungur leikari rifjar upp þá anekdótu Eco að hann hefði komist frítt í leikhús á menntaskólaárunum – en þurft að vera kominn á heimavistina áður en hún lokaði – þannig að hann þekkti flest meistaraverk leikhúsbókmenntana, nema hann vissi aldrei hvernig þau enduðu. Þangað til hann vingaðist seinna við strák sem vann í miðasölunni – sem átti við öfugt vandamál að stríða, hann vissi aldrei hvernig leikritin byrjuðu.

Á einhverjum tímapunkti er vissulega eitthvað gasprað um að það eigi að vera þögn í bókasafni – en það er í raun í algjörri mótsögn við anda myndarinnar, um að bókasöfn séu staður leiksins, ævintýrisins – það á enginn að sussa á bókasafni, því lífið í bókunum á að eiga í virku samtali við lífið utan veggjana og líf allra þeirra sem koma þangað inn.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Pistillinn var upphaflega fluttur í Tengivagninum þann 24. ágúst.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson