Kæra áhugafólk um menningu: Hér er örlítil herkvaðning.
Ég er nefnilega orðinn þreyttur á því hversu lítið við tökumst á um menningu. Svona almennt á internetinu. Feisbúkkið mitt er fullt af menningarsinnuðu fólki, fólki með próf í bókmenntafræði, listgreinum eða hugvísindum, listamenn úr öllum mögulegum greinum. Samt er allt þetta fólk aðallega að rífast um pólitík og passlega ómerkileg dægurmál. Gott ef barnabókin hennar Birgittu er ekki eina bókin sem fólk nennti að rífast um fyrir síðustu jól. Ef fólk deilir menningartengdu efni er það helst ef það eða vinir þeirra hafa fengið jákvæða umfjöllun, það er helst að maður sjái plöggið.
En af hverju er þetta svona?
Kenning: maður les skoðanapistil, verður upptjúnaður – annað hvort af því maður er svakalega sammála eða ósammála – og deilir svo og lækar. Menningarpistill sem og alls kyns vandlega rannsakað ítarefni les maður í meira næði, tekur sér langan tíma að hugsa um greinina – er ekkert að pæla í að deila henni og lækar ekki af því maður er löngu búinn að týna því hvar maður fann þetta fyrst. Fer mögulega frekar í göngutúr að íhuga pistilinn frekar en að hætta sér aftur á Facebook eða Twitter.
Svo er líka mögulegt að við séum bara með svona mikla minnimáttarkennd innst inni þegar kemur að menningu, að þótt við höfum sjálf skoðanir á menningarpistlum þá reiknum við með því að flestum fésvinum okkar sé sama. Ég hef alveg staðið mig að því sjálfur; ef ég deili einhverju pólitísku ranti eða kommenta á eitthvað pólitískt rant þá veit ég að ég fæ viðbrögð – þegar maður deilir menningarefni gerir maður það alltof oft í tómið. Við erum öll hundurinn hans Pavlov, hægt og rólega förum við að stýrast af viðbrögðunum sem við fáum.
Svo er líka alveg séns að öllum, eða nánast öllum, sé sama. Jafnvel þeir sem maður myndi halda að sé ekki sama. En það er alveg ástæða til þess að kanna aðra möguleika áður en við sláum því föstu. Og jafnvel ef svo er, þá er okkar að breyta því. Það er alveg hægt.
Það er vissulega hægt að gera ýmislegt – og ég gæti rakið nokkra möguleika við annað tækifæri, en svona þar sem teljarinn minn hvíslar að mér að þið komið langflest af Facebook, hversu mikið sem við mögulega hötum miðilinn, þá er rétt að við áttum okkur á því að algóryþminn ræður þessu. En við (mjög, mjög óbeint, vissulega) ráðum algóryþmanum. Við þurfum að taka það alvarlega – og ef okkur er á annað borð annt um menningu og menningarumfjöllun, taka okkur á og læka og deila á fullu (eða setja reiðikalla eða önnur neikvæð tjákn) þeirri menningarumfjöllun sem við rekumst á á internetinu, sem og menninguna sem við rekumst þar á.
Sumt er fólk að fá borgað fyrir – og þá skiptir þetta máli upp á að fólk haldi áfram að fá borgað fyrir þetta. Sumt er fólk ekki að fá borgað fyrir – en þá skiptir samt máli að finna að maður sé ekki bara að skrifa fyrir tómið. Allt getur þetta stuðlað að því að menningarumfjöllun verði virk og blómstri – en áframhaldandi skeytingarleysi verður líka fljótt að drepa hana.
Hér er rétt að taka fram að mér er málið skylt, ég held úti menningarbloggi og skrifa reglulega menningarumfjöllun annars staðar (Stundina og RÚV helst undanfarið). Skrifa reglulega frítt og líka reglulega gegn borgun. Ykkur er örugglega mörgum málið skylt líka, hvort sem þið eruð að fjalla um menningu sjálf eða stundið hana, og viljið fá sæmilega vitræn viðbrögð. Eða bæði, það á líka við um okkur mörg. Ég er ekki bara að biðja ykkur um að vera dugleg að deila Menningarsmyglinu (en já, því líka, auðvitað), heldur líka að deila greinum af Starafugli, Leslistanum, Lestrarklefanum, Klapptré, Hugrás og Druslubókablogginu, sem og öllu því menningarefni sem þó er ennþá í meginstraumsmiðlunum, sem og góðu útlensku menningarefni, sem vissulega er þrátt fyrir allt hafsjór af á internetinu.
Munum líka að mestalla tuttugustu öldina þá voru nánast öll alvöru dagblöð með einhverja lágmarks menningarumfjöllun, oft bara nokkuð ítarlega. Það var pottþétt ekki bara af hugsjóninni einni saman, ritstjórarnir áttuðu sig á að þetta gerði blaðið betra og þar með líklegra til þess að halda áskrifendum eða jafnvel fjölga þeim. Eina sem hefur breyst síðan þá er tæknin. Hún hefur vissulega breyst helling – en það breytir því ekki að fjölmiðlarnir eru ennþá að nota okkar hegðun til þess að búa til pening. Við þurfum að vera meðvituð um það – og þegar við erum meðvituð um það, þá getum við byrjað að haga okkur þannig að við getum lagfært þennan andskotans algóryþma.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson