Hvað er menning? Einu sinni var svarið við þessari spurningu flókið – en núna er það einfalt; menning er það sem fjölmiðlar nútímans vilja helst losna við af sínum síðum. Með heiðarlegum undantekningum, auðvitað – en þær verða færri og færri.

Vissulega eru fjölmiðlar alls staðar í kröggum – en það breytir engu um það að menningin er iðullega skorin niður fyrst – og það sem verra er, nýlegir grasrótar-fjölmiðlar hafa því miður ekki sinnt menningu nema í mýflugumynd. Ritstjórnir hafa minni og minni skilning á menningu og mikilvægi hennar – og eitt algengasta svarið við umkvörtunum er svo iðullega þetta: menning skilar ekki nógu mörgum smellum.

Menningarsmyglinu er ætlað að vera svar við þessu. Nú er það búið að vera í gangi í meira en ár, með einu löngu hléi – það er að komast mynd á það, þótt fjölmiðill verði aldrei fullmótaður, það er ennþá margt sem má laga og breyta og ýmislegt sem á eftir að prófa. En það verður ekki gert í sjálfboðavinnu endalaust, við vitum það öll – bara þessi rúmi áratugur sem ég hef starfað í blaðamennsku hefur fyllt stóran grafreit af grasrótarmiðlum sem dóu, flestir úr blankheitum.

Það er þess vegna sem Menningarsmyglið þarf ykkar hjálp – og tilboð mitt er einfalt: ég ætla að leyfa ykkur að ráða. Leyfa ykkur að ráða hvort þessi síða lifir eða deyr, hvort hún verður stór eða lítil.

Söfnunin

Einu sinni var internetið framtíðin. Framtíðarlandið, án landamæra, þar sem hugsun og myndir og listir og tjáning myndu blómstra sem aldrei fyrr. Þetta er alveg satt stundum – og var það örugglega einhvern tímann í fyrndinni fyrir nördana sem voru fyrst á irkinu.

En við vitum öll hvað gerðist. Heimskapítalisminn tók yfir internetið og núna er internetið stöku sinnum notað til að skapa en miklu oftar notað til að tortíma.

Við höfum horft upp á alls konar breytingar – og ein sú versta er í fjölmiðlun. Athyglisbresturinn á Facebook er orðinn okkar helsti fjölmiðill, við höldum að við veljum en það er valið fyrir okkur – algóryþminn gerir okkur öll að lötum þrælum. Draumurinn um að klippa saman sinn eigin fjölmiðil úr öllum miðlum veraldar endar á því að við leyfum algóryþmanum að velja fyrir okkur.

Algóryþmanum sem er sama um okkur, algóryþmanum sem vill bara græða á okkur. Syngja fyrir okkur sama lagið, aftur og aftur, þangað til okkur dettur ekki í hug að biðja um neitt annað.

Hliðarverðir fortíðarinnar eru á undanhaldi, ritstjórar, útvarpsstjórar og útgefendur mega sín oft lítils gegn ægisvaldi algóryþmans. Það er ekkert eftirsjá í þeim öllum, Ísland hefur fengið sinn skammt af afleitum ritstjórum og enn verri útgefendum. Internetið hins vegar gefur okkur tvo kosti: að leyfa algóryþmanum að ráða eða að leyfa okkur sjálfum að ráða.

Menningarsmygl snýst um seinni kostinn. Að leyfa ykkur að ráða.

Við erum að fara af stað með söfnun, þar sem ykkur gefst færi á að gerast áskrifendur. Þið getið lesið betur um mismunandi áskriftarleiðir hérna á söfnunarsíðunni hjá Karolina Fund – en mig langar að ræða aðeins betur af hverju þið ættuð að gerast áskrifendur.

Okkar lögmál

Mögulega er rétt að ég játi eitt fyrst; ég hef tvisvar tekið þátt í hópfjármögnunum áður. Önnur gekk upp, hin ekki. Sú sem gekk upp var ljóðabókin Framtíðin, sú sem gekk ekki upp var Vikublaðið Krítík. Við gerðum örugglega helling af mistökum á Krítík – en tvö voru stærst, að vera á undan okkar samtíð og að setja markið of hátt. Hópfjármögnun var að mestu óþekkt hugmynd á Íslandi áður en Karolina Fund varð til og krísa íslenskra fjölmiðla var ekki ennþá orðin jafn augljós og hún varð örfáum árum síðar. Og svo ætluðum við að ná að búa til blað með sæmilega burðugri ritstjórn og hópi lausapenna strax. Það hefði auðvitað verið frábært ef það hefði tekist – en þegar þriðjungur safnaðist þá vantaði okkur plan B. Vinnan var öll fyrir bý.

Mig langar að prófa að byrja á hinum endanum, byrja smátt. Byrja á að búa til miðil sem getur haft einn mann í vinnu. Kannski bara í hlutastarfi. Svo er hægt að stækka, fá fleiri með. Og aftur: það er í ykkar höndum. Söfnunin virkar einfaldlega svona: hverjar hundrað evrur eru ein grein á mánuði. Síðan verður öllum opin – þú ert ekki að borga fyrir fríðindi, þú ert að borga fyrir að hún sé til. En þú færð meira fyrir peninginn ef þú nærð að sannfæra fleiri til þess að gerast áskrifendur.

Ein ástæða til þess að gerast áskrifandi er einfaldlega sú að fá meiri og fjölbreyttari menningarumfjöllun. En þetta snýst líka um að breyta lögmálunum, þannig að við ráðum sjálf. Það er ekki alvöru val þegar algóryþmi njósnar um okkur og reiknar út auglýsingatekjur eftir því hvað við smellum á – við smellum nefnilega á alls konar drasl af því við vitum að það er ókeypis og okkur myndi aldrei detta í hug að borga fyrir það.

Þetta snýst ekki bara um þessa síðu, þetta snýst um það að við opnum á möguleikann að við tökum okkur sjálf stöðu sem okkar eigin hliðarverðir á internetinu og fáum þannig einhverju ráðið um það hvernig það þróast – tökum völdin af algóryþmunum og öllu fjármagninu á bak við þá. Það voru algóryþmarnir sem komu Trump til valda, það eru algóryþmarnir sem ráða meiru og meiru um hvernig við hugsum – og við erum ekkert að fara að hætta á internetinu á morgun. Og það er gott og blessað að sniðganga einhvern samfélagsmiðil fyrir annan skárri – en mögulega væri betra að berjast á móti og reyna að byggja betra internet og með því betri heim. Ein lítil vefsíða breytir auðvitað litlu – en hún getur verið byrjun. Það breytist ekkert sem skiptir máli í aðeins einu skrefi – það þarf ótal skref, stór og lítil, fyrir alvöru breytingar. En mögulega er mikilvægasta breytingin að reyna að breyta því hvernig hlutirnir virka – og þetta er örlítið skref í þá átt.

Þetta er sjóræningjaskúta sem smyglar orðum, hugsunum og menningu yfir landamæri, á milli fólks og á milli tungumála. Þið ráðið hvort hún heldur áfram að sigla. Smellið hér til þess að halda henni á floti.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson