Fá ljóð hafa fengið jafn ríflegt pláss í kvikmyndasögunni og „Söngur um bernskuna,“ eða „Lied vom Kindsein,“ eftir Peter Handke, sem flestir þekkja frekar út frá opnunarlínunum: Als der kind kind var. Orðum sem hljóma eins og leiðarstef í gegnum Himininn yfir Berlín (Der Himmel Über Berlin) eftir Wim Wenders, sem Handke skrifaði ásamt leikstjóranum.

Þegar barnið var barn. Þetta virðist einföld yrðing – en þversagnakennd þó. Hún er í þátíð, barnið er hætt að vera barn – en er samt kallað barn. Eins og barnið sé enn barn í einhverjum kjarna sem það nær ekki til, eins og bernskan sé einhver fjársjóður innan í okkur hinum fullorðnu sem við getum ekki nálgast. Okkar sanna sjálf.

Allavega okkar innri heimspekingur, okkar innra ljóðskáld, okkar eigin spurn og forvitni, sem alltof oft hverfur eða minnkar rækilega þegar við fullorðnumst og þykjumst oftar vita svörin en erum sjaldnar tilbúin til þess að spyrja spurninga.

Ljóðið er ekki minning um atburði, heldur minning um ástand, um að vera opin, skapandi, spyrjandi – um horfna ofurkrafta, ofurkrafta sem við vorum gædd þegar við vorum samt lítil og máttlaus. Einhvers staðar þarna er þversögn ljóðsins.

Þegar barnið hættir að vera barn, þegar það veit svarið við spurningunum, þá hættir það að geta spurt spurninga – að minnsta kosti jafn djúpra og einlægra og frumspekilegra spurninga og aðeins forvitin börn geta spurt. Ekki endilega upphátt, vel að merkja, flest börn átta sig fljótlega á að þetta er heimur þar sem er betra að þykjast hafa svörin – en í einhvern tíma eftir að það gerist, þá spyr það samt í einrúmi. Út í tómið eða til æðri máttarvalda, allt eftir því hverju það trúir. Og þó, trúir það? Er það ekki bara enn ein spurningin sem enn er ósvarað?

Hér birtist okkur barnið sem ídeal manneskjunnar, sem paradísin sem við getum aldrei endurheimt. Af því þegar við fáum svörin við öllum þessum spurningum höfum við borðað eplið af viskutrénu – og við vitum öll hvernig það endar.

Ljóðið er samið fyrir myndina – og speglar hana um margt, myndin fjallar um engla sem lesa hugsanir og enginn getur séð nema einmitt börnin – og Peter Falk. Þeir eru ævafornir en um leið bernskir um margt, ekki ólíkt Hómer, gamla skáldinu sem skrifar ljóðið í myndinni. Eins og Handke er orðinn aldraður Nóbelsverðlaunahafi núna.

Lýrískur hljóðheimur Handke rennur svo saman við andsetinn og ungan Nick Cave, frumbernskan og frumungmennauppreisnin.

Þetta er göldrótt ljóð, og ágætis sönnun þess hve þýskan er falleg – eða kannski ennþá frekar, hvað hún er blæbrigðarík. Fá tungumál geta verið flauelsmjúkari og fá mál geta verið harkalegri. Þetta er saga um ljóðskáldið í harkalegum heimi, heimi þýskrar reglufestu sem hefur gleymt þýsku ljóðrænunni. Hefur gleymt Heine og Göthe og man bara Hitler og eftirstríðsmóralinn.

En það sem skiptir kannski meira máli er að afturhvarfið til bernskunnar er óljós von í sundraðri Berlín, örfáum árum áður en hún sameinaðist á ný. Handke er Austurríkismaður en pabbi hans (sem og stjúpfaðir) var frá Berlín og móðirin frá gömlu Júgóslavíu, nánar tiltekið Slóveníu. Og strax í kjölfarið á því að bernskuheimur föður hans sameinaðist þá sundraðist bernskuheimur móðurinnar. Hann tók því ekkert sérstaklega vel – eða skynsamlega. Meira um það síðar.

Hér má lesa texta ljóðsins bæði á ensku og þýsku.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst
áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð þess.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson