Við erum stödd í Slavneskum skógi og sjáum ungan pilt hlaupa. Hann er að flýja væntanlega kvalara sína. Hann er með lítið dýr í fanginu sem sést illa, smáhund, mink – það virðast skiptar skoðanir á því. Myndin var bara að byrja.
Fljótlega ná aðrir strákar honum, jafngamlir eða aðeins eldri – og kveikja í dýrinu sem maður náði aldrei að sjá almennilega.
Myndin Skræpótti fuglinn, The Painted Bird, var bara að byrja og hlutskipti stráksins verður bara verra og verra. Ímyndaðu þér allt skelfilegt sem gæti gerst við ungan gyðingdreng í miðri heimstyrjöld í hinum dreifðu byggðum Austur-Evrópu – og það mun gerast. Nema að hann sleppur við útrýmingarbúðirnar – þótt litlu megi þó muna.
Framan af hefði maður samt hreinlega ekki vitað að sagan gerðist í heimstyrjöldinni síðari ef maður hefði ekki heyrt af því áður. Þetta gerist í ævafornum slavneskum sveitum þar sem ekkert minnir á 20. öldina. Þetta er heimur sem virðist alveg laus við bíla og síma og ísskápa, rafmagn eða neinn annan 20. aldar lúxus.
Þessi heimur virðist líka alveg laus við upplýsinguna. Hugmyndir þorpsbúa og sveitunga eru allar á miðaldastiginu, þetta er hjátrúarfullt fólk úr hófi fram og hjátrúin birtist því miður helst í hatri og fyrirlitningu á náunganum. Og einkennilegum hugmyndum konu einnar um að stráksi sé vampíra, sem er einkennilegt í ljósi þess að þetta fullyrðir hún um hann í glampandi dagsbirtu. En það eru vissulega ýmsar vampírutegundir til.

Myndin er svart-hvít og gullfalleg á að líta, minnir raunar um margt á eistnesku myndina November – sem sömuleiðis var svart-hvít og gerðist í hjátrúarfullri eistneskri sveit, trompið sem November hafði uppi í erminni var að þar komu raunverulegar þjóðsagnapersónur við sögu – og auk þess var myndin alveg jafn falleg og grótesk og Skræpótti fuglinn – en um leið líka fyndin og hjartnæm, sem þessi er því miður sjaldnast.
En ímyndaðu þér að Bela Tarr og Eli Roth myndu gera saman Forrest Gump í heimstyrjöldinni – þetta er sú mynd. Ægifagrir rammar eins og hjá Bela Tarr, töluvert skýrara plott vissulega, og eindreginn ásetningur þess að kvelja aðalpersónuna.
Framan af er myndin þó frekar fyrirsjáanleg – það er helst að hún komi á óvart þegar pyntingin er allavega frumleg. Eins og í áðurnefndu upphafsatriði, eða þegar strákurinn er grafinn lifandi þannig að aðeins hausinn stendur upp úr og nokkrir hrafnar byrja að krunka í snoðaðann kollinn.
Nútíminn í fullum herklæðum
Um miðja mynd birtist svo loks nútíminn, nítjánhundruðfjörtíu og eitthvað, fyrst aðeins í rússneskum hermönnum og einni byssu, svo bifreið og loks þýskum hermönnum.
Þá tekur líka hlutskipti stráksa að batna töluvert, hermennirnir virðast almennt miklu almennilegri en bændadurgarnir sem kvöldu hann framan af mynd – og þótt hann sé ekki alveg sloppin frá þeim, þeir halda áfram að vera kvalarar hans á meðan hermennirnir, bæði þýskir og rússneskir, reynast honum almennt vel.

Þarna koma líka allar stjörnurnar, þótt Udo Kier hafi að vísu brugðið fyrir áður. En maður býst ekki beint við því í tékkneskri mynd að hitta fyrir Stellan Skarsgård, Harvey Keitel, Julian Sands og Barry Pepper. En myndin er svosem aðeins tékknesk út af leikstjóranum – hún er fyrst og fremst slavnesk og það er undirstrikað bæði með því að nefna aldrei nákvæma staðsetningu (þótt myndin sé að mestu tekin í Úkraínu) og með því að nota, fyrst allra bíómynda, interslavic (sem áður kallaðist slovianski), tilbúið tungumál í anda esperantó sem á að hjálpa slavaþjóðunum öllum að eiga í samskiptum. Þessi sam-slavneska á rætur sínar í gömlu kirkju-slavneskunni, sem var jú rót ritmáls allra slavnesku þjóðanna, auk þess sem hún hefur reynt að taka hluti úr þeirri slavnesku sem verður til á alþjóðlegum slavneskum ráðstefnum, á sama hátt og skandívíska verður til hjá norrænum þjóðum.
Athyglisverðasti hluti myndarinnar – og sá sem er kannski síst fyrirsjáanlegur – eru hins vegar stríðslokin. Maður á það til að sjá þau fyrir sér sem allavega létti, jafnvel fögnuð, en nei, það eru allir alltof trámatíseraðir til þess að láta svo mikið sem að brosa. Stráksi finnur föður sinn – en svo sitja þeir bara saman í þrúgandi þögn, heil heimstyrjöld á milli þeirra.
Stolnar sögur og vafasamur titill

Myndin er byggð á samnefndri skáldsögu pólsk-ameríska rithöfundarins Jerzy Kosiński, sem Gissur Ó. Erlingsson íslenskaði úr ensku og bætti við mjög hjálplegum undirtitli á titilsíðu: „hrikaleg frásögn frá Austur-Evrópu um vitfirringu síðari heimstyrjaldarinnar.“ Gissur varð svo seinna meir elstur íslenska karla, áður en hann lést árið 2013.
En aftur að höfundin sjálfum, eða kannski frekar meintum höfundi. Kosiński er þekktastur fyrir aðra bók sem frásagnarlega minnir jafnvel ennþá meira á Forrest Gump en þessi – Being There.
Skræpótti fuglinn var hins vegar frumraun hans og framan af reyndi hann að láta sem um sjálfsævisögulega sögu væri að ræða. Seinna kom hins vegar í ljós að þótt hann hafi vissulega alist upp sem gyðingur í pólskri sveit, þá var hann þar í afskaplega góðu yfirlæti og var meira að segja með sína eigin þjónustustúlku.

Ekki nóg með það, heldur kom líka á daginn að bókin var meira og minna stolin, heilu kaflarnir beinþýddir úr pólskum bókum sem aldrei höfðu komið út á ensku – og það skýrir af hverju sagan er eins og samansafn af öllu því versta sem gæti gerst fyrir einn ungan dreng í þessum aðstæðum, það var einfaldlega vegna þess að hún er í raun eins og safn sýnitexta um einmitt það, væntanlega úr bókum sem fæstar eru jafn einhliða martröð. Þá hafa einnig lengi verið efasemdir uppi um að hann hafi yfir höfuð skrifað þessa stolnu bók, til þess hafi enskan hans ekki verið orðin nógu góð þarna, nýlentur í Ameríku.
Svo eigum við ennþá eftir að ræða titilinn. Sem er fallegur, vissulega, en skýringin á honum í myndinni er óþægileg; skræpótti fuglinn er málaður ýmsum litum – og sendur aftur til móts við fuglahóp sem flýgur yfir. Sem vitaskuld slátrar þessum einkennilega lita aðskotafugli. Þetta er óþægileg sena – og kannski helst vegna þess að hún ýjar að því að rasismi sé einfaldlega eitthvað náttúrulegt fyrirbæri, frekar en sá félagslegi arfur sem hann er.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson