„Tveir dagar af viðtölum og loksins þetta, ég var að bíða eftir þessu,“ segir Ashkan mér himinlifandi með að hafa loksins hitt íslenskan blaðamann. Við sitjum úti á sólríkum sumardegi við hótelbar í Cannes og ræðum um bíómyndir og tónlist. Nýjasta byltingin í Íran hefur enn ekki átt sér stað en við erum þó að ræða aðra hljóðlátari byltingu sem enn hefur ekki ratað í heimsfréttirnar.
Hann heitir fullu nafni Ashkan Koshanejad og með okkur er samstarfskona hans, Negar Shaghaghi. Þau spila tónlist saman og leika lítt dulbúnar útgáfur af sjálfum sér, neðanjarðartónlistarmönnum í Teheran, í myndinni Enginn veit um Persakettina. Í einu atriða myndarinnar segir Ashkan okkur frá öllum stöðunum sem hann vill heimsækja og endar upptalninguna með þessum orðum: „Og til Íslands til að sjá Sigur Rós,“ og allir borðfélagar hans kinnka samþykkjandi kolli. Og ég heyri fljótt að þau orð voru enginn skáldskapur og á hreinlega í mestu vandræðum með að koma spurningum um myndina að, svo áfjáð eru þau að tala um Ísland.
Tölvuséní í Teheran
„Ég byrjaði að hlusta á Björk á tíunda áratugnum, þegar ég var krakki. Svo fann ég Sigur Rós, yndislegt band – hin hreina og tæra hreyfing tónlistarinnar er til staðar á Íslandi. Ég horfði á Heima og sá hversu hreint landið var og fallegt,“ segir Ashkan og Negar er ekki síður vel að sér í íslenskri popptónlist. „Sem söngkona hlusta ég alltaf á Björk, því hún er með þessa frábæru rödd – hún er mér mikil fyrirmynd. Svo finnst mér tilraunaglaðar sveitir eins og múm mjög skemmtilegar. Þú getur ekki ímyndað þér hvað við fílum íslenska tónlist mikið.“
En þótt Íranir séu vel að sér í íslenskri tónlist þá erum við mörlandarnir fæst vel inn í senunni í Teheran. Hvernig má bæta úr því þegar allar sveitirnar eru jafn neðanjarðar og raun ber vitni? „Það eru engin formleg útgáfufyrirtæki í Íran þannig er þetta mjög falið. En flestir tónlistarmennirnir eru með MySpace-síður og ef þú finnur einn þeirra geturðu fundið alla. Þannig fann Bahman Ghobadi okkur og fékk okkur til að vera með í myndinni,“ segja þau mér. Þannig er internetið lífæð íranskrar tónlistar. „Þegar við vorum yngri notuðum við kasettur sem ferðalangar komu með til landsins. En nú er internetið staðurinn þar sem tónlistarmenn finna aðra tónlist, ég fann íslenska tónlist í gegnum netið,“ segir Negar og Ashkan bætir við: „MySpace síður eru ritskoðaðar í Íran þannig að við notum alls konar trikk, sem þýðir að íranskir tónlistarmenn eru margir mikil tölvuséní.“
Týnda kynslóðin
„Hinn göldrótti Bahman Ghobadi, hann er svo klár að gera allt á réttum tíma, hann vinnur allt hratt – þessir einkennilegu tökustaðir sem hann byggir, andrúmsloftið er mjög sérstakt,“ segir Ashkan spurður um samstarfið við leikstjóra myndarinnar og Negar bætir við: „Hann var sá eini sem kom nálægt þessu samfélagi og ákvað að segja sögu þess. Þetta er mynd um samfélag, um heila kynslóð.“ Týnda kynslóð sem okkur Vesturlandabúum gefst nú kostur á að finna, ef við drekkjum okkur ekki í Hollywood-myndum fyrst.

Handrit myndarinnar segja þau vera 90 % raunverulegt. Eitt dæmi um skáldskap er þó barátta aðalpersónanna fyrir því að verða sér úti um vegabréf og áritanir til þess að geta ferðast og spilað tónlistina sína. „Það er skáldskapur fyrir okkur, en það kemur fyrir marga í Íran – það er mjög erfitt að fá vegabréf og við vitum ekki enn af hverju það er svona erfitt,“ segir Ashkan og Negar segir þau meðal þeirra heppnu. „Okkur tókst þetta, að hluta. Við erum að reyna að halda áfram að vinna sem tónlistarmenn, fá aðgang að hlutum sem við höfðum ekki aðgang að í Íran. Ef þú vilt vinna sem tónlistarmaður þarftu að leita til fagmanna, pródúsenta og plöggara. Þetta er ekki eitthvað sem þú getur gert einn, þú getur séð um tónlistina en þú þarft fleiri með þér í að hanna umslagið, pródúsera og mixa plötuna.“ En í Íran þarftu að kunna þetta allt. „Þannig lærðum við að skapa, við þurftum að gera allt – sem margir tónlistarmenn í Evrópu þurfa hugsanlega ekki að kunna. Allt þetta litla … öll lögin sem þú heyrir í myndinni tók ég upp sjálfur, mixaði og pródúseraði með virklega vondum græjum – eitthvað sem ég held að fæstir átti sig á þegar þeir sjá myndina.“
Meginmunurinn er þó merking orðsins neðanjarðartónlist. Sú merking er ólíkt bókstaflegri í Íran. „Neðanjarðartónlist á Vesturlöndum er oft ákveðin mótmæli. En í Íran er merking orðsins neðanjarðar önnur, við spilum tónlist sem er vinsæl í öðrum löndum. Þetta er folk-tónlist, popp og rokk, en við erum ekki að mótmæla neinu, tónlistin er ekki ádeila á stjórnvöld eða trú eða neitt slíkt. Við viljum bara fá að spila músík.“ En það er bannað og óvíst að Íranir fái nokkru sinni að sjá þessa mynd löglega. En gæti henni tekist að afsanna titilinn, mun fólk vita hverjir persnesku kettirnir eru? „Myndin er upphafspunktur. Það að við sitjum hér á þessu augnabliki er merkilegt – við tölum ekki bara fyrir okkur sjálf. Það er heilt samfélag tónlistarmanna, hæfileikaríks ungs tónlistarfólks, og við erum fulltrúar þeirra líka,“ segir Negar og heldur áfram: „Músík í Íran er magnað afl, afl sem skapar eitthvað stærra – ef fólk opnar dyrnar fyrir þessari tónlist finna þeir örugglega eitthvað magnað.“
Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð þess.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson
Birtist upphaflega á Kistunni þann 4. júní 2010.
Tengt efni:
Lífsháski kúrdíska galdramannsins – viðtal við Bahman Ghobadi, leikstjóra myndarinnar
Kjarnyrt persnekst rapp – hugleiðing um eitt af lögum myndarinnar