„Þetta er Teheran,“ segir Hickas okkur og myndavélin sýnir okkur fallega borg, fátæka borg, heillandi borg, borg með orku sem Hickas skilur betur en flestir.
„Þetta er Teheran, borg sem tælir þangað til þú áttar þig á að þú ert ekki lengur manneskja, þú ert rusl,“ rappar Hickas og nær einhvern veginn utan um andstæður borgarinnar með þessum örfáu orðum. Hér eru engin blóm eða sleikipinnar, bara úlfar að elta sauðina.
Þetta er lag um heimilislausa manninn sem stendur við hliðina á Benzinum, þar sem stéttabaráttan tekur alla manns orku. „Það er ekki þyngdaraflið sem snýr heiminum, það eru peningar sem snúa heiminum,“ segir Hickas og hefur óþægilega mikið til síns máls – hann yrkir um heim þar sem Mammon ræður meiru en Allah og allir aðrir guðir. Jafnvel englarnir hætta sér ekki lengur í þessa borg.
Meðfram þessum orðum sjáum við borgina, ofan frá, Hickas rappar frá húsþökunum. Við sjáum strák burðast með ruslapoka, strák sem grætur í farsíma, við sjáum verkamann bora í götuna og við hliðina á honum er annar að bresta í grát, líklega af því hann þráir starf verkamannsins, hvaða starf sem er. Það eru allir með eitthvað á bakinu, alltof þungar byrðar, byrðar sem eru miklu stærri en þeir sjálfir. Við sjáum mann gramsa í ruslatunnu, við sjáum mann sofa á götunni, við sjáum mann ofan í brunni eða ræsi. Og við sjáum hendur, endalausar hendur, betlandi hendur, hendur sem biðja um lausn, far, leið út – eða jafnvel bara að njóta þess að láta vindinn leika um sig.
Svo sjáum við konur, ekki margar, örfáar, með slæður. Slæðurnar sem gera þær því sem næst ósýnilegar.
Lagið heitir Ekhtelaf, Ójöfnuður, og Bahman Ghobadi er á kamerunni, lagið er úr mynd hans Enginn veit um Persakettina. Mynd um neðanjarðartónlist í landi þar sem tónlist er bönnuð – og því er saklausasta tónlist neðanjarðar. Ég hitti Hickas aldrei en ég hitti aðalleikarana, þau Negar og Ashkan, fyrir áratug og þá þráðu þau að komast í burtu, fá að spila sína músík frjáls – og komast á Sigur Rósar tónleika. Mér sýnist á internetinu að þeim hafa tekist það.
Hér má lesa viðtal smyglara við þau tvö og hér má lesa viðtal við leikstjórann, Bahman Ghobadi.
Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð þess.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson