Það segir sjálfsagt sitt um hversu upptekinn maður er af höfundinum að þegar ég fór að lesa síðustu bók Svikaskáldanna sex ákvað ég strax að reyna að giska á hver ætti hvaða ljóð. Það er nefnilega efnisyfirlit aftast þar sem hvert ljóð er merkt höfundi, þeim Fríðu Ísberg, Melkorku Ólafsdóttur, Ragnheiði Hörpu Leifsdóttur, Sunnu Dís Másdóttur, Þóru Hjörleifsdóttur og Þórdísi Helgadóttur.
Ég þekki tvær þeirra ágætlega, þá þriðju þekki ég sem hlaðvarpara, þá fjórðu úr sjónvarpinu, þá fimmtu sem bloggara og þá sjöttu ekki neitt. Og það er skemmst frá að segja að ég var alveg úti á túni – eignaði Fríðu flest ljóð Melkorku og eignaði Þórdísi flest ljóð Fríðu, var samt sæmilega hittinn á ljóð Sunnu og Þóru.

Það eru sterk höfundareinkenni hjá mörgum þeirra, en um leið blæða hugmyndir og stef á milli, enda segjast þær duglegar að lána hver annarri. Bókin ku hafa orðið til í skriftörn á Flatey og eyjan er stór persóna í bókinni, auk þess sem einstaka atburðir þessa ferðalags skýra örugglega enduróminn á milli sumra ljóðanna. Systralag og kerlingar eru algeng yrkisefni og Svefneyjar eru víða, og svo eru látlausari tengingar á milli ákveðinna ljóða – og ósjálfrátt gerir maður sér aðstæðurnar í hugarlund, áskoranir um að skrifa núna um kerlingu eða hlýnun jarðar, hugmyndir sem spretta upp úr sömu kjaftatörninni, sama heita pottinum, bréfsnifsi sem flakka á milli í yfirlestrum. Eða í samtali við ritstjórann, Bergþóru Sæbjörnsdóttur, sem á vafalítið einhvern heiður af því hversu sannfærandi bókin líður áfram og hversu heildstæð hún er, með allar þessar raddir.
Og já, þar sem ég mun hér eftir kjafta frá nöfnum höfunda er þetta ein af fáum ljóðabókum sem þurfa Höskuldarviðvörun.
Villtur fyrirburi
Bókin byrjar á fæðingu fyrirbura.
átt höfuðáttirinar eftir
ekki tilbúið í þennan heim

Það er eitthvað ofboðslega fallegt við þessar línur, um þennan heim sem barn er dæmt til þess að rata ekki í. Þetta snýst nefnilega allt um að rata og sum okkar erum alltaf áttavillt. Það er Melkorka sem yrkir þetta byrjunarljóð og í næstu ljóðum hennar er hún áfram að velta fyrir sér fæðingu og áttum, en þegar á líður ekki síður táknrænni fæðingu konunnar og það er eins og Flatey smeygi sér meira og meira inní textann, þessi náttúra tekur hægt og rólega yfir – og enn seinna fer systralagið að koma í ljós, eins og í „Konur II“ þar sem önnur hver lína nefnir tólf brjóst:
tólf brjóst
og öll þau kunna
Undir lokin sjáum við svo samsláttinn í heimi Flateyjarfugla og kvenna af meginlandinu.
óskiljanlegt að krían fljúgi Jörðina á enda
segjum við
nýbúnar að kaupa íbúðir
með aukaherbergjum
Þegar gleymskan opnar munninn
Ljóðið „Að ritstýra sér“ fjallar um ljóðmælanda sem er stamandi og klaufsk, en gefur eftirfarandi skýringu á klaufaskapnum:
„Vita auðvitað ekki að ég er rosalegur ritstjóri, að innsláttarvillur þurfi að stroka strax út, að samtalið muni lifa þau í ódauðlegum verkum mínum og að á dánarbeðinu muni þau þakka mér fyrir vandvirknina.“
Sem vekur upp gamla spurningu – eru skáld mögulega þau okkar sem lærðu að skrifa áður en þau lærðu að tala? Þetta er Fríða, hún er prósaljóðskáldið í hópnum, og næsta ljóð fjallar líka um skriftirnar sjálfar – ekki þó hennar, heldur ónefndan forvera þeirra sem leitaði endalaust eftir réttu aðstæðunum í Flatey en fann aldrei út af beljunni sem baulaði of hátt og rauf skáldakyrrðina.

Þarna er náttúra Flateyjar farin að gægjast inní ljóðið og náttúruváin er mætt í næsta ljóði, þar sem æskuminning um að fletta fuglavísi ólæs blandast við raunverulegan þrívíðan fuglavísi eyjunnar, og þessa örskotsstund sem hún mun muna nöfn þeirra „áður en gleymskan opnar munninn og gleypir.“
Svo sjáum við stokkandapar – sem mér finnst ég hafa rekist á í fleiri ljóðum bókarinnar, fuglar sem hafa mögulega mætt sérstaklega til Flateyjar til að komast í nokkur ljóð. Þar birtast fyrst stef sem á eftir að verða sterkara og sterkara eftir því sem á líður bókina, þar sem efast er um að fjölskyldan sé mikilvægari en önnur minni samfélög. „Vinkonuhópar til dæmis.“
Sem leiðir svo löngu seinna að ljóðinu „Kelling,“ þar sem komandi elli fær að birtast sem eitthvað frelsandi frekar en kvíðvænlegt.
Konan flokkuð
Rétt eins og ég byrjaði á að flokka ljóðskáldin eftir fyrsta lestur þá byrjar Sunna Dís á að flokka efasemdirnar, kvíðann og óumbeðin ráð og nær í lokin á löngu ljóði að koma með netta hryllingssöguvísbendingu – og þegar náttúra Flateyjar smýgur inní ljóðin hennar þá fylgja honum draugar, ekkjukona, kona með rauða hrífu og legókallinn „sem líkist syni þínum.“
Hún kallast á við ljóð Fríðu um gleymd fuglaheiti í ljóði um dýrafræðing í grasafræðinámi sem lýsir tilganginum með náminu svo:
að geta nefnt
öll heimsins undur
þegar þau deyja
Loks er skemmtilegur snúningur á vinkonupælingar bókarinnar þegar „Nágrannakonan“ birtist.
Það er alltaf nágrannakonan
sem á rjómann
lánar fötin
geymir lykilinn
Eftir lofgjörð um nágrannakonuna er þó örlitlum efasemdum sáð um ástæðurnar:
nema það sé vínið
sem hún færði mér
Uppreisn innsæisins
Svefneyjarnar mæta strax í fyrsta ljóði Þóru, þær eiga eftir að birtast síðar hjá öðru skáldi. En svo bregðum við okkur aftur í borgina, fáum mynd af nútímakonu:
Konur verða ekki lengur gjafvaxta
heldur hagvaxta
Einhver óljós grunur um að þessi bylting hafi étið dætur sínar og gefið þeim splunkunýtt samviskubit. Talandi um samviskubit, við erum mörg með samviskubit yfir jörðinni sjálfri og sérstaklega jöklunum, þessum risum sem við erum að drepa hraðar og hraðar. Erfiljóð um jökla er í tísku og Þóra yrkir hér annað erfiljóð um jökul sem er þó gagnrýnið á hræsnina um hinar táknrænu aðgerðirir þegar þær raunverulegu virðast ekki í sjónmáli.
þá munu menn reisa
fjallháan minnisvarða
úr hvítu plasti
Það er annars lítið um strákafar í þessari bók, smá Tinder-daður hjá Þórdísi jú, en „Tilhugur“ Þóru skoðar tilhugalífið, þann grimma heim þar sem sleipir fiskar renna úr greipum og vonin minnkar og höfnunin svíður. Sem tengist aðeins næsta ljóði hennar, um hana Jónu sem er kennt að „hunsa innsæið.“

Þetta er sterk lína, því einmitt þetta er eitt það hættulegasta við áföll, að hætta að treysta, sérstaklega ekki sjálfri sér. Þetta ljóð á sér líka sinn hamingjusama endi í öðru ljóði þar sem hún flýtur áreynlulaust aftur að upprunanum, orkulínurnar hafa skarast og orkan breyst.
Svo birtist okkur ofurskipulögð skynsemi, sem er „dagskrárstjóri tilveru minnar.“ Þetta kallast skemmtilega á við skipulagsljóð Sunnu, hér bókar skynsemin „stéttarfélagsbústaði átta ár fram í tímann.“
En það er hallarbylting í vændum, yddaðir blýantar og brýndir hnífar.
Það er líka hallarbylting í vændum gegn æskunni, lokakaljóð Þóru sver sig í ætt við þema lokakaflans, óð til kellingarinnar, um kerlingu sem geymir óþarfa orku heldur
geymir hana
eins og erlenda mynt í krukku
ósamstæðar servíettur í skúffu
hálftómar kremtúpur í baðskáp
veit hvað mun koma að góðum notum síðar
Tinder-fiskar og opið systralag
Flatey Þórdísar er fantasía, grótesk fantasía þar sem húsin og náttúran hafa völdin yfir aumum mannverum, sem enda eins og rekaviður úti í fjöru. Þetta er einhvern veginn útlenskari og fjarlægari fantasía en hinar fantasíurnar í bókinni, minna úr ævintýrum Jóns Árnasonar og meira, tja, meira úr verkum titilpersónu eins ljóðsins, „Lílít,“ sem er „sjóaður höfundur, skrifar sápuóperu með súrealískum blæ og erótíska spennutrylla undir dulnefni.“
Lílít færir okkur líka systralagið.
„Um fjögurleytið fer hún út í sígó og hittir hinar. Þær hanga í júlínóttinni og fylla upp í himininn – tvíburasystur allra […]“
Þórdís og Lílít færa okkur poppkúltúrinn út í fornan heim eyjunnar, Freddie Mercury, faðmandi fiskar á Tinder, Siggi Freud og framtíðar-Disney mynd svamla um ljóðin – og líka systralagið, á meðan túrtjaldið tryllist af hlátri og mennirnir bíða fyrir utan.
Kerlingar læra fuglamál
en mér finnst ég vera leiðari
straumbreytir sem virkar ekki
Rétt eins og Fríða tekst Ragnheiður á við hlutverk höfundarins í fyrstu ljóðunum, hvernig höfundurinn tengi við heiminn í kringum sig, hlutverk og eðli. Er hún straumbreytir eða ber henni að þýða fuglamál?
Um miðja bók þvælist hún svo yfir í hryllingsljóðin, sem einkenna miðbikið, en strax á næstu síðu er allt dottið í dúnalogn, logn sem er áhrifamikið vegna þess hvað það kemur snöggt, um kærleika og þunnskorna límónu.
Ragnheiður lýkur bókinni, á síðasta ljóðið og stóran hluta lokakaflans. Við sjáum konu í vefstól yrkja um naflastrenginn, Svefneyjar gægjast aftur inní ljóðin og við sjáum kort, kort sem reynist andlit kerlingar, hinnar eilífu vindsorfnu kerlingar.
hún hefur verið hér
löngu áður en jökullinn svarf fjöllin
og flugmenn nota broshrukkurnar til þess að rata eftir.
Svo mætir okkar Kerlingarey – og til þess að komast þangað þarf að skilja eftir ferðatöskur, fullar af sjálsefa, áhyggjum og vondum ráðum.
Þetta endar svo á undirheimum, þar sem horfast þarf í augu við ófreskjurnar, stinga sér til sunds og finna ofgnóttina af öllum hugmyndunum sem fiska má upp úr undirdjúpunum ef netin eru nógu stór.
Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð þess.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson
Forsíðumynd: Sunna Sig.
Mynd af Flatey: No machine-readable author provided. Salvor assumed (based on copyright claims). – No machine-readable source provided. Own work assumed (based on copyright claims)., CC BY-SA 2.5, https://commons.wikimedia.org/w/index.php?curid=981879