Í Svartuggum Gísla Þórs Ólafssonar eru fiskar út um allt; í lofti, á láði og legi. Alls konar fiskar, langflest ljóðin eru einmitt nefnd eftir mismunandi fiskum. Þetta er pínulítið eins og passlega martraðarkennd blanda af Fuglum Hitchcocks (þar sem fiskarnir taka að sér hlutverk fuglanna) og ævintýrinu Í krukkuborg. Fiskarnir eru stundum ógnvaldar eða martraðarmatur, stundum táknmyndir fyrir ólíklegustu tilfinningar eða viðburði, og stundum bara litríkar persónur sem valsa um ljóðin, eins og styrjan sem kemur með rússneskan kavíar.

Hér eru ýmsar vísanir, Gyrðir og Bubbi mætast í Bréfbátafiskum, í eitraða fiska Leonard Cohen og svarta hunda Bruce Springsteen. Það verður fljótt ljóst að svörtu uggarnir hafa tekið við líkindahlutverki svarta hundsins, þunglyndi er algengt yrkisefni í ýmsum myndum, svarti hundurinn orðinn af fiskum hafsins.

Kanínufiskar með hvassa gadda koma upp úr sturtunni í upphafsljóðinu og í öðru ljóði vaknar ljóðmælandi með sverðfisk í gegnum hjartað. Það er ort nokkuð skemmtilega um núvitund, sem er ekki endilega þetta ofurjákvæða fyrirbrigði og það er í tískuspeki þessi misserin:

Er lífið neðansjávar endalaust stríð eða endalaus núvitund?

En hvað er meiri núvitund en einmitt stríðið?

Sorglegasta ljóð bókarinn er af sama meiði. Það heitir „Sæliljan“ og ljóðlínan „ævinni eytt“ er meginstef ljóðsins, samanber lokaorðin

ævinni eytt

nánast eingöngu fyrir meltingu og æxlun

ævinni eytt

föst á stikli

Fábreytni hinnar einföldu lífveru er kvöl fyrir manneskju, en samt, oft örlög manneskjunnar. Af öllu hinu dýrslega í fari okkar eigum við oft erfiðast með að kveða niður fábreytnina og rútínuna – sem við þráum og hötumst við í senn. Þessi ofureinfalda lífvera, án nokkurs vitundarlífs, verður okkur mönnunum svo enn tragískari nú þegar umræðan um mögulegt líf á öðrum hnöttum er sífellt meira farin að snúast um að já, mögulega gætu þar þrifist harðgerir einfrumungar. En hvers konar líf er það, er þá ekki bara skárra að vera Sælilja á hafsbotni?

Fiskamartröðin myndgerist svo skarpast í „Flugfiskar,“ þar sem „torfur af fljúgandi fiski“ koma eins og skriðdrekar, fljúga á rúður og niður í ræsi og uppúr þeim aftur. Inn í ljóðið flækist geltandi smáhundur og nágranni með ásakandi augnaráð og mitt í hryllingnum sér maður fyrir sér skáld í sjávarþorpi þar sem allir eiga að vera að vinna í slorinu, mann sem býr í sjávarpláss en langar ekki að vinna í slorinu, þessi erfðasynd að vilja yrkja í öðrum hætti en háttbundnu atvinnulífi þess sjávarpláss sem ól þig.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð þess.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson

Mynd af höfundi: Guðríður Helga Tryggvadóttir