Ég kynntist Pablo Neruda fyrst sem afskaplega rómantísku skáldi – fyrst í gegnum Il Postino og svo stuttu seinna þegar Tuttugu ljóð um ást og einn örvæntingarsöngur kom út í íslenskri þýðingu. Og ég er vel að merkja ekki að tala um bíómyndina Il Postino, sem fjallaði um Neruda og ungan póstburðarmann, sem mér fannst satt best að segja full vemmileg til að virka. Nei, ég er að tala um geisladiskinn sem fylgdi myndinni, bæði með músíkinni en sömuleiðis með ótal þekktum leikurum að flytja enskar þýðingar ljóða Neruda. Miranda Richardson, Wesley Snipes, Julia Roberts, Ralph Fiennes, Ethan Hawke, Rufus Sewell, Glenn Close, Samuel L. Jackson, Andy Garcia, Willem Dafoe, Madonna, Vincent Perez og Sting fluttu ljóðin. Flest þeirra mjög vel – en Andy Garcia var samt bestur, það hvernig röddin brast akkúrat á réttum stöðum, það hvernig hann gerir sérhvert atkvæði passlega viðkvæmt.
En Neruda var líka hápólitískt skáld, það pólitískur að mögulega kostaði það hann lífið. Pólitíkin var ósjaldan í öðru en ljóðunum – hann var góðvinur og náinn ráðgjafi sósíalistaforsetans Salvador Allende, sem herforingjastjórn Augusto Pinochet steypti af stóli.
En löngu fyrr, þegar hann var ungur konsúll á Spáni, þá fann hann sig knúinn til að kveðja tímabundið rómantíkina. Ljóðið „Ég þarf að útskýra nokkra hluti“ hefst á því að hann kveður rómantíkina:
Þú munt spyrja; hvar eru sýrenurnar
og draumkennd heimspekin með valmúanum?
Eða regnið sem hamraði orð þín
og fyllti þau af vætu og fuglum?
Hann heldur áfram – og lýsir þeim Spáni sem hann þekkti, Spáni á friðartímum. En ljóðið er ort snemma í spænsku borgarastyrjöldinni, og í kjölfar þess að Federico Garica Lorca var tekinn af lífi, aðeins mánuði eftir að stríðið hófst. Þeir Neruda voru vinir – en dauði hans var ekki síður symbólískur fyrir Neruda, með því að drepa Lorca voru fasistarnir að reyna að drepa sjálfa ljóðlistina.
Um þetta fjallar seinni hluti ljóðsins, skyndilega loga göturnar einn morguninn, gleypa manneskjur og úr eldinum koma byssukúlur og blóð. Stríðið er hafið. Bandítarnir koma og drepa.
Og eftir götunum seytlar blóð barna,
Seytlaði einaldlega, eins og blóð barna gerir.
Ljóðið breytist svo í níðljóð um bandítana, fasistana, og loforði um að Spánn muni rísa á ný, hvert látið barn geti af sér riffill með augu og með sérhverjum glæp fæðist kúla sem muni dag einn finna sér stað í hjarta þeirra.
Neruda skrifaði á endanum 21 ljóð um stríðið – og þau fundu sér leið til hermanna á vígvellinum. Ekki þó bara ljóð Neruda, ljóð hans og fjölda annarra skálda urðu það mikilvægur hluti af baráttunni að sumir hafa kallað borgarastyrjöldina Skáldastríðið.
En þetta eru ekki einnota ljóð, ljóðum Neruda var dreift í kringum mótmælin gegn stríðinu í Írak í San Fransisco, þau voru spreyjuð á veggi í Kaíró í Arabíska vorinu og áðurnefnt ljóð á ágætlega við stríðið í Sýrlandi, eins og meðfylgjandi myndband sýnir ágætlega. Síðast en ekki síst ríma þau ágætlega við örlög hans eigin þjóðar, bæði núna og á hinstu dögum Neruda sjálfs.
Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð þess.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson
E.S.: Í greininni var að hluta stuðst við ágæta umfjöllun um ljóðið í The Paris Review eftir Mark Eisner, einn af ævisagnariturum Neruda.