Misnotkunarhneyksli hefur skekið frönsku kirkjuna undanfarin misseri. Nú í mars síðastliðnum var Philippe Barbarin, erkibiskupinn í Lyon, fundinn sekur um að hafa hylmt yfir með barnaníði í kaþólsku kirkjunni – en presturinn Bernard Preynat þvældist lengi á milli sókna með hans vitund og misnotaði þar ítrekað barnunga pilta. Aðeins mánuði áður en að dómur féll var hins vegar frumsýnd mynd um atburðina á kvikmyndahátíðinni í Berlín. Hún vann Silfurbjörninn sem næstbesta myndin í aðalkeppninni og heitir Fyrir Guðs náð (Grâce à Dieu) og fjallar fyrst og fremst um fórnarlömb prestsins alræmda.

Ég settist niður með François Ozon, einum þekktasta leikstjóra Frakka, og Swann Arlaud, einum aðalleikaranna þriggja, stuttu eftir frumsýninguna og spurði þá út í myndina og málið sem var kveikjan að henni. 

Mynd: Berlinale

„Þetta er stórmál í Frakklandi, og raunar víðar,“ segir Ozon mér og bætir við að hann hefði ætlað að gera miklu minni mynd. „Ég ætlaði að gera mynd um fórnarlömbin fyrst og fremst, en þegar ég hitti alla og áttaði mig á hversu sterk saga þetta var áttaði ég mig líka á pólitískum víddum hennar.“

Fórnarlömb prestsins skiptu tugum ef ekki hundruðum, en myndin fjallar fyrst og fremst um þrjá þeirra; Alexandre, François og Emmanuel. Alexandre er aðalpersónan til að byrja með, hann er vel stæður fjölskyldufaðir sem rifjar upp hvernig hann var misnotaður í æsku og kemst þá að því að þessi sami prestur er enn að vinna með börnum. Hann hefur samband beint við kirkjuna sjálfa, en þar velkist málið í kerfinu og fátt gerist. Eftir að málið hefur velkst þar um í tvö ár þá leiðist honum loks þófið og ákveður að fara veraldlegri leiðir, ákveður að kæra. Í kjölfar rannsóknar sem þá fer af stað byrja fleiri og fleiri fórnarlömb að birtast. Sá snjóbolti sem þar fer af stað minnir raunar merkilega mikið á þann snjóbolta sem fór af stað hérlendis í byrjun árs varðandi ásakanir á hendur Jóni Baldvini Hannibalssyni um kynferðislega áreitni. Í myndinni sjáum við ágætlega hvernig það orsakast bak við tjöldin að ein ásökun fer hægt og rólega að margfaldast og á endanum er stofnuð sérstök heimasíða fyrir baráttuna.

Saga þeirra François og Emmanuel tekur svo í vissum skilningi við af sögu Alexandre, og við sjáum hvernig þetta hafði gjörólík áhrif á þá alla; einn úr yfirstétt, annan úr miðstétt og þann þriðja úr lágstétt. Það er skipst á að segja sögur þeirra og myndatakan og allar áherslur eru mismunandi á milli karakteranna.

Ozon segir þó að það hafi ekki beint verið hans val að segja söguna svona. „Strúktúrinn var þarna, þetta var raunveruleikinn og hann kom á óvart. Alexander stóð einn í baráttunni fyrst, fór á alla þessa fundi og á í öllum þessum tölvupóstsamskiptum við kaþólsk yfirvöld og eftir tvö ár áttaði hann sig; það hefur ekkert gerst. Þannig að hann ákvað að kæra.“

Þá fyrst fóru hlutirnir að gerast. „Þá kemur François við sögu, lögreglan hefur rannsókn og skref fyrir skref byggir François upp samtök, og í gegnum þau öðlast Emmanuel hugrekki til þess að deila reynslu sinni, þannig að uppbygging sögunnar er eins og hún var í raunveruleikanum.“

Sem var ekki endilega auðvelt að fá í gegn. „Það er ansi óvenjulegt að aðalpersónur myndar komi ekki við sögu fyrr en 45 mínútur eru búnar af henni og framleiðendurnir reyndu að sannfæra mig um að sýna þá alla þrjá strax í byrjun, en ég sagði þeim að það væri einfaldlega ekki hægt.“

En allir þessir tölvupóstar, eru þeir raunverulegir? „Já, þegar ég hitti Alexander í fyrsta skipti var hann með risastóra möppu. Tvö ár af bréfaskriftum, tölvupóstar og bréf. Þetta er hreint leikrit.“

Leikrit sem kirkjan setur upp til að þæfa mál. „Þetta er góð leið til þess að fá fólk til að gefast upp. Orð, orð og fleiri orð. Þeir kunna þetta í kirkjunni og maður sér hvernig gangvirkið virkar. Þeir gefa þér mörg þúsund orð – en gjörðir fylgja aldrei í kjölfarið.“

Stéttaskipt viðbrögð

Myndin fjallar um franska stéttaskiptingu ekkert síður en misnotkunarmálið sjálft. Viðbrögð aðalpersónanna þriggja litast mjög af bakgrunni þeirra; miðstéttarmaðurinn François er reiður og ákveðinn í herferð sinni í leit að sannleikanum og fær útrás á trommusettinu í kjallaranum þess á milli, á meðan broddborgarinn Alexander vill fara sér hægar í flestu. Á meðan er lágstéttarpilturinn Emmanuel langverst farinn.

„Það er ótrúlegt hvernig presturinn Preynat nær að finna sér fórnarlömb af öllum þjóðfélagsstigum. Kaþólsku yfirstéttarstrákana en líka stráka úr verkamannafjölskyldum, og það er forvitnilegt að sjá hversu ólík viðbrögð aðstandenda fórnarlambanna eru. Myndin birtir þannig þverskurð mismunandi viðbragða,“ segir Ozon.

Mynd: Berlinale

En hann Swann Arlaud, sem situr með okkur, leikur lágstéttarstrákinn í þessari sögu, hann Emmamuel. Hvernig frétti hann fyrst af þessari sögu?

„Ég hafði auðvitað veður af því út af allri fjölmiðlaathyglinni, eins og með önnur fréttamál. En Ozon hjálpaði mér að kafa í það og ég var sjokkeraður yfir þögninni sem þessi stofnun, kirkjan, komst upp með. Í stað þess að ýta þessum presti út, sem hafði viðurkennt eigin syndir, þá færðu þeir hann bara á milli staða, leyfðu honum að halda misnotkuninni áfram. Það sem slær mann er ákveðni kirkjunnar í að halda bara sínu striki. En maður verður líka bara reiður þegar maður hugsar um allar þessar stofnanir, ekki bara kirkjuna, sem er ekki hægt að takast á við. Það kostar áralanga baráttu að berjast við slík bákn, til þess að hrófla við þeim,“ segir hann og bætir við að hann hafi grátið þegar hann sá myndina, „en fann líka fyrir einhverri djúpstæðri reiði“.

Emmanuel er sannarlega brotinn maður. Hann fær flog þegar álagið verður of mikið, á í mjög erfiðu sambandi við bæði föður sinn og kærustu og segir að hann hafi verið skilgreindur með ofurgreind – sem hjálpar honum samt ekkert í lífinu. Þá hefur hann eilífar áhyggjur af typpinu á sér, sem hann segir að sé bogið og einkennilegt í laginu, eitthvað sem hann rekur til misnotkunarinnar, og þótt það kunni að virðast kjánalegt þá er þetta merkilega sannferðug leið til að sýna hvernig misnotkunin getur eyðilagt eða skemmt hugmyndir þolenda um sjálfa sig sem kynverur í framtíðinni. En hvernig var að takast á við þessa persónu?

„Það var ekki sérstaklega erfitt fyrir mig, af því öll orðin voru þá þegar í handritinu og stundum er þetta mjög einfalt fyrir okkur leikarana, þegar orðin eru þarna fyrir framan þig er þetta stundum bara spurning um að vera þú sjálfur og segja þessi orð. Ekki einu sinni leika þau, öll smáatriðin eru þarna,“ fullyrðir hann. En bætir svo við:

„Að því sögðu, ef maður hugsar um reynslu þessa stráks, svona ungs, já, hann veit kyn sitt en hann veit ekkert um kynvitund og þá er kynvitund annars manns þröngvað upp á hann. Sem eltir hann svo uppi þegar hann sjálfur verður unglingur og öðlast sína eigin kynvitund, þá er hún ávallt lituð þessum minningum og því sem gerðist áður. Það er ein ástæða þess hve oft gerendur voru áður þolendur, af því þeir þjáðust í fortíðinni. Þetta birtist í áráttu minnar persónu yfir því að typpið á honum sé ekki fullkomið og þess hvernig önnur persóna í myndinni finnst að alltaf þegar hann stundar kynlíf, þá sé eins og þriðji aðilinn sé staddur í herberginu líka.“

Það sem aldrei er sýnt

Myndir Ozons hafa í gegnum tíðina verið afskaplega bersöglar um kynlíf. En hvernig var að gera mynd um misnotkun í kjölfarið?

„Kynlíf án samþykkis er alltaf glæpur og það er mjög mikilvægt að sýna það. Það þarf að vera samþykki beggja. En það sem skipti máli í þessu tilfelli var að sýna aldrei gjörðina sjálfa. Við sýndum endurlit frá bernsku drengjanna, því ég vildi gefa í skyn aðstæðurnar. Hinir fullorðnu kunna að spyrja; af hverju fóru þeir ekki? En ég vildi sýna hversu óskiljanleg þessi staða var fyrir börnin og hvernig vald fullorðnir hafa yfir börnum, sérstaklega ef þeir eru fulltrúar stofnunar eins og kirkjunnar. Þá er hvergi hægt að hlaupa, þá hleypurðu samt alltaf beint inn í gin ljónsins.“

Sem fyrr segir eru atburðirnir á flestra vitorði í Frakklandi. „Það ótrúlega er að kirkjan hefur aldrei neitað því sem hún gerði, hún gekkst við þessu í 30 ár. Öll gögn eru þegar til staðar, allir vita öll smáatriðin. Sumir vilja banna myndina, en það er alltaf sama hundalógíkin. Og ég held það yrði algjört fíaskó fyrir kirkjuna ef hún yrði bönnuð.“

Lögfræðingar prestsins Preynat reyndu þó að fá myndina bannaða, með þeim rökum að hún gæti haft áhrif á væntanleg réttarhöld, en án árangurs.

Enda hefur flest í myndinni komið áður fram í frönskum fjölmiðlum og myndin er á köflum líkust heimildamynd, en af hverju ákvað Ozon að gera leikna mynd? „Fyrst ætlaði ég að gera heimildamynd, en svo áttaði ég mig á að fórnarlömbin hefðu ekki viljað það. Þeir voru svo opnir með ákveðna hluta eigin lífs, þeir myndu aldrei vera jafn opinskáir fyrir framan myndavél, þess vegna ákváðum við að taka sögurnar þeirra og semja handrit að leikinni mynd.“

Sum fórnarlömbin eru enn heittrúuð þrátt fyrir misnotkunina, á meðan aðrir eru harðir trúleysingjar, sem veldur ýmsum deilum í hópnum. En Ozon sjálfur, er hann trúaður?

„Ég var það,“ segir hann og bætir við: „Ég fékk mjög kaþólska menntun og er mjög þakklátur fyrir það, vegna þess að það var mikilvægt fyrir menntun mína sem listamanns. Ég lærði ýmislegt um listina af trúnni. En þegar ég var unglingur yfirgaf ég trúna, þegar ég öðlaðist kynvitund og uppgötvaði um leið hræsni kirkjunnar þegar kemur að þeim málum.“

Hann segir vandamál hvernig kirkjan hafi iðulega flokkað barnaníð, samkynhneigð og framhjáhald allt sem sambærilegar syndir. „Kirkjan flokkaði barnagirnd sem synd, bara einfalda synd, rétt eins og samkynhneigð, eins og hverja aðra kynhneigð. Það tók þá ansi langan tíma að byrja að flokka barnaníð sem glæp og raunverulega plágu sem grasseraði innan stofnunarinnar og í þjóðfélaginu öllu, eitthvað miklu alvarlegra en synd.“

Hann tekur fram að þetta sé þrátt fyrir allt ekki pólitísk mynd. „Ef þetta væri pólitísk mynd hefði ég einhverjar lausnir. Þær hef ég ekki. Ég er bara hér til að spyrja spurninga. Í lokin spyr ég svo ansi stórrar spurningar.“

Hann vonar hins vegar að myndin þroski umræðuna og kaþólikkar muni nota myndina til að spyrja spurninga og breyta stöðunni. „Ég held að alvöru breytingar komi frá hinum almenna kaþólikka, ekki kirkjunni sjálfri, sem vantar alla raunveruleikatengingu.“

Þetta mál segir hann bara toppinn á ísjakanum – og það séu ótal ný mál sem muni koma upp úr djúpinu. „Þegar ég ræddi við fórnarlömbin sögðu þeir mér að ófáir skandalar muni koma í ljós á næstu árum. Sérstaklega í Afríku, það veit enginn almennilega hvað hefur viðgengist þar.“

Hann er þó svartsýnn á að kirkjan bæti ráð sitt á næstunni. „En vonandi átta þeir sig á að eftir öll þessi orð er kominn tími á gjörðir.“

Viðtalið birtist upphaflega í Stundinni þann 1. desember 2019.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson