Þeir félagar Tyko Say og Jeff Milton, tvö af skemmtilegri útlagaskáldum Prag, voru að gefa út rafræna geisladiskinn Object: Paradise Vol. 1, með undirspili þeirra Heyme og Jenda Pudlák.

Tyko er borgarskáld, birtir mósaíkmyndir af hverfum borgarinnar – bæði kunnuglegum svæðum miðsvæðis eins og Národní třída, einni helstu skiptistöð sporvagnanna, nálægum hverfum eins og vínekruhverfinu mínu góða, Vinohrady, sem og Smíchov, en líka skrautlegum úthverfum á borð við Háje og Kačerov.

Jeff er nýfluttur í burtu (við erum enn að vona að hann snúi aftur) og flytur okkur óð um New York og sorgmædda hesta.

Við stefnum á paradís, en villumst af leið. Hér hittum við fyrir konur með rauða trefla að fara inní neðanjarðarlestir, óð til Crayola-lita, borðtennismeistara, blómabúðastarfsmenn og ropandi öskutunnur.

Hér má svo hlusta á dýrðina, hvort sem er á Youtube, Amazon, iTunes, Spotify eða öðrum veitum.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson