Anton Helgi Jónsson hefur tvívegis hlotið Ljóðstaf Jóns úr Vör og hefur gefið út átta ljóðabækur. Sem þýðir sjálfsagt að í mesta lagi 2-3 þeirra séu auðfinnanlegar í bókabúðum, hinum sjálfsagt verið skilað og aðeins fáanlegar á bókamörkuðum eða vel faldar í hillum bókasafna.

Nema hvað, ólíkt flestum ljóðskáldum eru bókstaflega öll ljóð Antons finnanleg á netinu, á vefsvæðinu anton.is.

Ekki bara ljóðin úr bókunum átta – sem eru sannarlega til staðar þar, heldur sömuleiðis fjöldinn allur af áður óbirtum ljóðum. Á síðunni má finna tækifærisvísur, ljóðasyrpur, ljóðamyndbönd og hljóðaljóð, myndskreytt ljóð sem nota má sem skjámyndir (sundhallarljóðið sem skreytir pistilinn er dæmi um eitt slíkt) sem og þýdd ljóð – bæði ljóð sem Anton hefur þýtt og þýðingar á hans eigin ljóðum, á ensku, þýsku, dönsku, sænsku, finnsku, portúgölsku, litháísku og esperantó.

Nánar má lesa um þetta verkefni í hugleiðingu sem Anton skrifaði fyrir Starafugl en ljóðunum sjálfum má svo njóta þess að grúska í hérna. Og ef manni líkar kaupa svo einhverjar bækurnar við fyrsta tækifæri.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.