Neyslutrans, fyrsta breiðskífa Hatara kom út í vikunni sem leið – en áður hafði komið stuttskífan Neysluvara, sem ég komst bara af þegar ég var að reyna að grufla í því af hverju besta lag sveitarinnar, Ódýr, er ekki á breiðskífunni – en það er á þeirri stuttu.

Rúmur helmingur laga nýju plötunnar er kunnuglegur, Hatrið mun sigra er þarna ásamt eldri hitturum á borð við Spillingardans og Klámstrák. Sömuleiðis nokkur samvinnuverkefni á borð við Klefa, sem þeir sömdu með palestínska tónlistarmanninum Bashar Murad, Hlauptu með rappynjunum í Cyber og Helvíti með rapparanum Svörtum Laxness.

Ný lög á borð við Engin miskunn, Þræll, 14 ár og Ógleði eru frekar dæmigerð Hatara-lög um flest – og einmitt þess vegna þarf maður að hlusta á þau aftur til þess að finna betur sérkenni hvers og eins. Þræll kallast á dálítið á við Klámstrák, þetta eru þau lög Hatara þar sem BDSM-ið er ekki bara sjónrænt heldur laumast líka inní textana – og það á líka dálítið við um 14 ár og Ógleði.

Engin miskunn fjallar um heimsendi sjálfan, við erum risaeðlur okkar daga.

Síðasti loftsteinninn

verður bani þinn

Síðbúin iðrun þín

breytir engu

breytir engu

En það eru þrjú lög á plötunni þar sem við finnum Hatara á splunkunýjum slóðum. Spectavisti Me Mori, Op. 8 er einfaldlega fallegt fiðlulag sem fiðluleikarinn Pétur Björnsson spilar – og athugasemdakerfi Youtube sýnir ágætlega hversu mikið lagið kemur á óvart. Einn segir „loksins Hataralag sem mamma mun elska líka“ og annar spyr sig „stillti playlistinn minn skyndilega á random?“ Titill lagsins er þó passlega Hataralegur, þýðir Horfðu á mig deyja á latínu.

Það eru þó síðustu tvö lögin sem eru í uppáhaldi af nýju lögunum. Þetta eru gjörólík tvíburalög, Nunquam Iterum, Op 12 er samsöngur sem minnir helst á forna kvæðamenn (og þar syngur Friðrik Margrétar ásamt Höturum) og Niðurlút er dúet með Hatara með poppdívunni GDNR. Nema hvað, bæði lög nota sama textann – sem er kannski það næsta sem Hatari hefur komist nálægt hefðbundinni ástarballöðu.

Þetta er vitaskuld um svik og samband sem ekki lifði, við erum nú seint að fara að finna hamingjusaman endi hjá Hatara. En orðkyngi sveitarinnar nýtur sín óvenju vel í rómantíkinni, línur eins og „Svikin voru silkimjúk, / sængin tóm og vænisjúk“ og … nei, fjandinn hafi það – skellum bara textanum öllum hér fyrir neðan. Rím og vel valin orð skipta óvenju miklu máli hérna, enskar þýðingar sem má finna á netinu skilja lítið eftir sig – en það er einhver galdur í þessu rómantíska hatri.

Þú tæmdir allt þitt traust á mér

Þó tórir enn mín ást á þér

Sagan endar allt of skjótt

Þú bauðst mig aldrei góða nótt

góða nótt

Þú bauðst mig aldrei góða nótt

Þú bauðst mig aldrei góða nótt

góða nótt

Svikin voru silkimjúk,

sængin tóm og vænisjúk

Í þögn þú komst og þögul út

Þú þræddir veginn niðurlút

niðurlút

niðurlút

niðurlút

Svikin voru silkimjúk,

sængin tóm og vænisjúk

Þú tæmdir allt þitt traust á mér

Þó tórir enn mín ást á þér

Sagan enar allt of skjótt

Þú bauðst mig aldrei góða nótt

Í þögn þú komst og þögul út

Þú þræddir veginn niðurlút

niðurlút

Þú þræddir veginn niðurlút

Þú bast um okkar endahnút

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson