Emilíana Torrini fór ung út og hefur samið fjölda laga á ensku – en samkvæmt vef Borgarleikhússins er hún núna að semja sinn fyrsta texta á íslensku fyrir leikritið Vertu úlfur. Það er samt eins og hún hafi aldrei gert annað, enda er þetta alveg göldróttur texti – og kannski er galdurinn einmitt sá að skipta á milli mála, þegar hún fer að semja á öðru máli koma skyndilega frábærlega óvæntar og skemmtilegar myndir, ægifagrar sumar.

Textinn er svo notaður við tvö lög í sýningunni, bæði hugljúft lag sem Emilíana semur með Markétu Irglovu sem spilar undir og syngur bakraddir, og stuðlag sem Prins Póló syngur.

Leikritið er byggt á ævisögulegri bók Héðins Unnsteinssonar, sem fjallar um mann með geðhvörf og lögin fanga sitt hvora hliðina, niðursveiflu og uppsveiflu, Emilíana er hið dökka og viðkvæma, Prinsinn endurspeglar oflæti uppsveiflunnar. Þetta eru tvær hliðar á sama pening, sama sjálfið, sömu orðin, sama tilfinningin, sömu æskuminningarnar, gjörólíkar birtingarmyndir. Þetta byrjar með náttúrumynd frá liðnu sumri.

ég ber stein í þessu stríði

það breytir ekkert því að sól vermir heiði

og kirkjubjöllur hringja á sunnudegi

og fá mig til að stoppa eitt augnablik í friði

Maður sér fyrir sér íslenskt þorp á æskusumri, eða jafnvel samslátt núsins og minninganna, sólarinnar og heiðinnar og kirkjuklukknanna sem eru ávallt til staðar þótt árin líði. Kannski er þetta Suðureyri, mér finnst hún alltaf vera að fara að segja Suðureyri en svo endar þetta alltaf sem sunnudagur. Núna langar mig eiginlega helst í Suðureyrarútgáfu af laginu.

Seinna kemur svo þessi yndislega rómantíska og um leið angurværa líffræði:

af hverju býr hjartað ekki í höfuðkúpu

og heilinn hvílist við sefandi lungu

þá myndi rigna inn í heilann ástarhjúpur

og kæla þetta sviðna hugarangur

En þótt textagrunnurinn sé sami í báðum lögum þá er stór munur á áherslunum á mismunandi erindi og eins heyrist mér munur á hvaða erindi séu endurtekin, þannig verður kötturinn lykilerindið hjá Prins Póló.

en kötturinn vill inn og klórar í gluggakarma

kötturinn vill inn

karma vinnur alltaf, allt og alla

Stórskemmtilegur og frumlegur leikur með karmað og karmana – og kötturinn á ótrúlega vel við Björn Thors, aðalleikarann sem við sjáum dansa sig í gegnum lag Prinsins af Póló. Þetta er magnað dansverk og magnaður performans hjá Birni, sem smellpassar við stuðið hjá Prinsinum. Björn er líka skemmtilega kattarlegur í myndbandinu, og í raun er kötturinn ágætis myndlíking fyrir bæði lögin – bæði snælduvitlausa kattarkvikindið sem stekkur um á milli húsgagna og klórar og krafsar og ber sig konunglega – og svo líka dýrið sem liggur heilu dagana í værðarlegu móki. Og Björn endar meira að segja á að skipta á jakkanum og feldnum, mýktin sigrar karlmennskuna að lokum.

Þetta er eiginlega það næsta sem íslensk tónlistarmyndbönd hafa komist klassískum dansi Christopher Walken við Fatboy Slim-lagið Weapon of Choice. Ekki leiðum að líkjast þar.

Það vantar því miður ennþá myndband við lag Emilíu – það er að vísu til upptaka á RÚV úr þætti Gísla Marteins, en útgáfan á Soundcloud er bara svo miklu betri upptaka, hljóðið og söngurinn miklu fyllri og fallegri.

Það virðist vel að merkja vera að skapast smá hefð fyrir að nota sama texta við gjörólík lög hjá íslenskum tónlistarmönnum, Hatari gerði þetta líka á síðustu plötu, þar sem forneskjulegur kvæðamaður (Friðrik Margrétar) syngur með Höturum í öðru laginu og poppdívan GDNR í því seinna, eitthvað sem er komið betur inn á í þessum pistli.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson