Menningarsmyglarinn hefur áhyggjur af því að hann hafi ekki verið nógu duglegur við að sýna hvað expata-ljóðasenan í Prag er mögnuð – og reynir nú að gera örlitla (passlega sjálfhverfa) bragarbót þar á.
Fyrir þremur árum var raunar ósköp lítið að gerast, reglulegir ljóðaupplestrar hjá Alchemy voru í andarslitrunum – en náðu að vísu skammlífu kombakki – en undanfarið hafa mánaðarleg Multilingual ljóðakvöld franska ljúflingsins Marko Thull verið hjartað í senunni og þess utan er Object: Paradise með regluleg ljóðakvöld, auk þess sem smyglarinn er token ljóðskáldið í fjöllistahópnum Urban Space Epics.
Tilefni þessa pistils er svo að nú fyrir helgi birti Tyko Say þetta ljóðræna myndband frá Channels of Communications, síðasta ljóðakvöldi Object: Paradise sem fram fór fram fyrir framan troðfullan sal í Zázemi, þessari neðanjarðarparadís í miðbæ Prag (ekki segja neinum frá), í götu gömlu leynilöreglunnar.
Þetta er fjölþjóðlegt partí, ljóðskáldin, tónlistarmennirnir og gjörningalistamennirnir eru tékkneskir, íslenskir, amerískir, tyrkneskir, grískir, pólskir, kostaríkanskir og úkraínskir.
Urban Space Epics er svo tékknesk-íslensk-amerísk-bresk-rússnesk-tævansk-hong kongísk-morokkóskur fjöllistahópur sem Vestur-Íslendingurinn og vídjólistamaðurinn Darrell Jónsson er forsprakkinn í, þar sem vídjósnúðar, ljóðskáld, tónlistarmenn, dansarar og myndlistarmenn koma saman og búa til passlega óútreiknanlegan kokteil. Af honum er hægt að fá örlítin nasaþef í meðfylgjandi myndböndum.
Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.