Við sjáum vitaljós og úfið haf. Textinn er óræður en orðkyngdur, sauður og ljón og „verðbréfamiðlar heilar þjóðir svelt.“ Það er verið að syngja um þjóð, gallaða þjóð sem er þó ekki alls varnað.
Skyndilega sjáum við hins vegar gamlan mann borða banana og erindið fer að skýrast:
Íslendingur aldurshár
Hér ég halla í móðurskaut
Sá gamli er 99 ára gamall, bráðum 100, Trausti Breiðfjörð Magnússon, gamall vitavörður á Sauðanesi. Giftur Huldu Jónsdóttur, sem einnig leikur stórt hlutverk í myndinni og fer með kyngimögnuð ljóðmæli eins og að drekka vatn.
Trausti vill heita Álfur líka – og hann er aðalpersóna heimildamyndarinnar Hálfur Álfur, sem nú er í lokavinnslu. Það er barnabarn Huldu og Trausta, Jón Bjarki Magnússon, sem leikstýrir.
Og á þessum aldri vita allir hvernig sagan endar – og það er stutt í endinn.
fagna ég þér friðsæl gröf
að fá þar sætan blund
Það er Teitur Magnússon sem semur lag og texta „Hvíta dauða“ af mikilli orðkynngi, en hann er þó ekki síðri þegar hann túlkar annarra manna ljóð. Heimildir smyglsins herma að hann hafi samið sérstaka ábreiðu af gölmum slagara fyrir myndina – en smygarlinn kveikti raunar fyrst almennilega á Teit með þessari frábæru útsetningu á ljóði Benedikts Gröndal, Nenni. Þegar textinn er skoðaður við hliðina á í raun ágætri enskri þýðingu (fylgir á youtube) þá áttar maður sig betur á hvers vegna orðið „nenni“ er eitt hið vanmetnasta í íslenskri tungu, einfalt og hversdagslegt en nær samt einhverri svo ótrúlega tærri tilfinningu.
Ég nenni ekki alltaf að lesa
ég nenni ekki alltaf að skrifa
ég nenni ekki alltaf að mála
hverju nenni ég þá?
Ég nenni alltaf að elska
Ég nenni alltaf að drekka
Ég nenni alltaf að dreyma
einhverju nenni ég þá
Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð þess.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson