Jón Bjarki Magnússon er blaðamaður, ljóðskáld og kvikmyndagerðarmaður, búsettur í Aþenu, Berlín og Reykjavík til skiptis. Eftir að hafa vakið mikla ólgu í samfélaginu með ljóðabókinni Lömbin í Kambódíu (og þú) hélt hann áfram sem frá var horfið í blamaðennsku, fékk blaðamannaverðlaunin tvisvar í kompaníi við Jóhann Páll Jóhannesson fyrir umfjöllun um lekamálið og flúði svo land til þess að gera heimildamyndir. Fyrst var það stutt heimildamynd um spilara í Eve Online, Even Asteroids Are Not Alone, og nú er hann að leggja lokahönd á mynd um afa Trausta og ömmu Huldu. Afinn sísönglandi er í aðalhlutverki í aðdraganda aldarafmælisins en amman er hæglát í bakgrunninum þangað til að brestur á með mögnuðum ljóðalestri. Myndin heitir Hálfur Álfur, er framleidd af Hlín Ólafsdóttur, sem einnig sér um tónlistina, og nú er verið að safna fyrir lokavinnslunni hérna á Karolina Fund. (UPPFÆRT 20, september: Nú er myndin svo búin að vinna Ljóskastarann, dómnefndarverðlaun Skjaldborgar 2020.)
Af hverju Hálfur Álfur?
Satt best að segja þá hafði ég töluverða fordóma fyrir íslenskum álfasögum þegar ég byrjaði að vinna þessa mynd. Margir kannast við klisjuna sem gengur um Ísland erlendis um að hér sé álfatrúin svo sterk að það sé meira að segja starfrækt sérstakt álfamálaráðuneyti. Mér leiðist að lenda í slíkum samtölum og finnst alltaf eins og með því sé verið að færa Ísland í einhvern ævintýrabúning sem er alls ótengdur veruleikanum. Þannig að þegar ég hóf þetta verkefni þá var ég alls ekkert á þeim buxunum að ég væri að fara að segja einhverja álfasögu. En örlögin höguðu því semsagt þannig að eftir því sem leið á ferlið þá fóru álfar að skjóta upp kollinum á ólíklegustu stöðum. Og ég stóð bara frammi fyrir því vali að elta þennan þráð eða hunsa hann með öllu. Þegar mér varð svo ljóst að þarna væri líklegast kjarni verksins falinn þá átti ég í raun engan kost annan en að fara alla leið með þetta. Úr varð myndin Hálfur Álfur, en titillinn vísar til afa míns sem varð gagntekinn af álfum í kring um hundrað ára afmælið sitt. Að þessu sögðu þá vona ég að myndin takist að einhverju leyti á við fyrirsáanlegustu álfaklisjurnar svo úr verður eitthvað nýtt og óvænt, sem á sér þó þessar rætur í íslenskum þjóðsagnaarfi.
Var erfitt að gera mynd um eigin fjölskyldumeðlimi?
Já og nei. Ég hef auðvitað lítinn samanburð þar sem ég er að stíga mín fyrstu skref í kvikmyndagerð. Maður endar í mörgum hlutverkum í svona verkefni; er vinur, fjölskyldumeðlimur, kvikmyndagerðarmaður, barnabarn, ýmist eitt umfram annað eða allt í senn. Það gat reynt á að finna rétta balansinn þarna á milli en þá var auðvitað mjög gott að vera að vinna með afa og ömmu sem tóku hlutverk sín sem kvikmyndastjörnur alvarlega og voru á vaktinni allan sólarhringinn.
Ef þú myndir gera leikna mynd um afa þinn og ömmu, en ekki heimildamynd – hverjir myndu leika aðalhlutverkin (gætir þess vegna gert mynd um þau ung og notað nokkra leikara)?
Þau sem koma fyrst upp í hugann eru auðvitað þau Gísli Halldórsson og Sigurveig Jónsdóttir, sem áttu stórleik í Djöflaeyjunni. Það var alltaf eitthvað við þau tvö sem minnti mig óheyrilega á afa og ömmu. Senan þar sem hún mætti askvaðandi með balann fullan af vatni til að slökkva eldinn var eins og skrifuð fyrir ömmu Huldu, völvuna sem hefur nú slökkt margan eldinn um ævina. Það er raunar of seint að fá þau til að leika afa og ömmu núna, en sé tekið mið af nýjustu tækni sem þú hefur verið að skrifa um hér á Smyglinu, þá skilst mér að það verði ekkert svo fjarlægur möguleiki í framtíðinni.
Nú býrðu tímabundið í Aþenu – ertu búinn að finna efni í næstu mynd þar?
Við Hlín kærasta mín bjuggum á horni Exarchia torgsins fyrsta mánuðinn hér. Það eitt og sér er efni í fjölmargar bíómyndir. Þeir Nikos og Christos vinir okkar og verndarenglar, sem harka á götunni hér, ættu svo sannarlega skilið að um þá væri fjallað og ég myndi sjálfur vilja þekkja sögu þeirra og annarra í sömu stöðu af meiri dýpt. En ég er nú reyndar ekki kominn svo langt að vera búinn að velja mér næsta verkefni. Á meira en nóg með að klára álfinn hálfa fyrst.
Hver leikstýrir ævisögunni og hver leikur aðalhlutverkið?
Steinar Bragi tekur að sér sitt fyrsta leikstjóraverkefni og fær engan annan en Jack Nicholson til þess að taka að sér aðalhlutverkið. Sá síðarnefndi er vissulega töluvert eldri en ég en ég er viss um að nýjasta tækni myndi gera Steinari og félögum kleift að notast við eldri upptökur til að púsla þessu saman í heildstætt og magnþrungið verk.

Hver er eftirminnilegasta utanlandsferðin?
Ég ferðaðist í þrettán mánuði um Asíu með besta vini mínum þegar ég hafði nýlokið við menntaskóla. Það var ógleymanleg upplifun og eitthvað sem lifir með mér að eilífu. Við tókum landleiðina frá Rússlandi til Tælands, með viðkomu í Síberíu, Mongólíu, Kína og nokkrum löndum Suð-Austur Asíu. Flugum síðan frá Tælandi til Indlands, þaðan sem við fórum landleiðina aftur til baka, í gegnum Pakistan, Íran og Tyrkland aftur til Evrópu. Það er svo auðvitað spurning hvort þetta teljist eftilvill frekar til margra utanlandsferða? Ef svo er, þá myndi ég kannski segja að Mongólía og Pakistan hafi staðið upp úr. Ótrúleg lönd bæði tvö, þar sem náttúrufegurðin ríkir og fólkið er svo gestrisið að maður brestur í grát.
Hvaða listaverki myndirðu vilja smygla inná öll heimili?
Í ljósi nýjusta fregna af athæfi Samherja í Namibíu þá myndi ég neyðast til þess að smygla verkinu Quota Queen eftir Bryndísi Björnsdóttur inn í stofur allra landsmanna í þeirri von að fiskifnykurinn myndi vekja einhverja upp af værum blundi.
Forvitnilegasta ljóðskáld 21 aldarinnar?
Þau voru nú nokkur saman komin á Pawlow‘s Whiskey Klub í Kreuzberg hérna um árið, þar á meðal þú, Ásta Fanney og Sean Bonney. Varstu ekki einmitt að fiska eftir því að fá sjálfan þig nefndan í þessu samhengi?
Nú hefurðu ýmist starfað við skáldskap, kvikmyndagerð og blaðamennsku – hvernig gengur að samræma þetta? Hvað heldurðu að verði ofan á í framtíðinni?
Það er nú aðallega blaðamennskan og myndagerðin eins og er, en hver veit nema maður eigi eftir að reyna meira fyrir sér í skáldskap síðar meir. Ég er annars ekki endilega viss um að eitthvað eitt verði ofan á. Maður gerir það sem gera þarf og reynir sitt besta í hverju því sem maður tekur sér fyrir hendur og svo fer þetta bara eins og fara fer, hvaða nöfnum sem það nefnist á endanum.
Hvaða kennari hafði áhrif?
Siggi Páls, leiðbeinandinn minn í ritlistinni á sínum tíma, veitti innblástur með nærveru sinni einni saman. Tímarnir hans voru mikið tilhlökkunarefni og maður hljóp oftar en ekki beinustu leið heim að skrifa að þeim loknum. Hann var kennari, ljóðagúrú og ljósmóðir, allt í senn.
Sérðu eitthvað af sjálfum þér í Trausta og/eða Huldu?
Ég á það til að vera einrænn eins og amma Hulda á stundum. Þá kýs ég ekkert frekar en að hanga heima, hlusta á Rás 1 í sarpinum, lesa eða grúska í mínum eigin hugðarefnum, hvort sem það eru blaðagreinar, klippiverkefni eða ljóðaskrif. Þess á milli þarf ég hinsvegar að komast út á meðal fólks, hlæja og gera grín. Þá hrópa ég á heiminn innan úr strætóskýli rétt eins og afi gamli.
Ef þú fengir tímavél til þess að gera forleik (e. prequel) fyrir myndina – og gætir tekið upp árum eða áratugum fyrr – hvaða tíma myndirðu þá velja?
Ætli ég myndi ekki velja þriðja og fjórða áratuginn, þann tíma sem afi og amma voru að vaxa úr grasi norður á Ströndum. Ég myndi vilja glöggva mig betur á því hvað þau voru að hugsa og fást við í heimi svo gjörólíkum þeim sem við þekkjum í dag. Að því sögðu þá væri sjötta áratugurinn freistandi, fyrstu árin þeirra í vegalausum vitanum á Sauðanesi með börnin sex, þar á meðal pabba minn. Það væri eitthvað.
Þú ert ráðinn dagskrárstjóri hjá kvikmyndahúsí í eina viku (með ótakmörkuð fjárráð) – hvað yrði á boðstólnum?
Listrænar og skapandi heimildamyndir ungra leikstjóra allsstaðar að úr heiminum. Kannski dass af tilraunakenndri ljóðlist og gjörningum í stað auglýsinga á undan myndunum, og jafnvel líka í eftirpartíunum á eftir.
Hvar er draumurinn?
Hann er smávegis hér og nú þar sem ég sit á svölunum í Aþenu að kvöldi dags seint í nóvembermánuði og bagsa við að svara þessum skemmtilegu spurningum.
Hverju hefurðu mestar áhyggjur af?
Heimur þar sem einhver helsti blaðamaður samtímans, Julian Assange, situr lokaður inni í bresku öryggisfangelsi nær dauða en lífi hryllir mig mjög mikið. Bara svona svo ég nefni eitt dæmi af mörgum ískyggilegum úr okkar samtíma. Þessi nýfasíska dystópía sem virðist vera að formast með hjálp samfélagsmiðla er ekki beint geðsleg. Ég verð að viðurkenna að ég er mjög hræddur við það sem koma skal, ef okkur tekst ekki að konfronta þann snúning sem virðist vera að eiga sér stað allt í kring um okkur.
Ljósmyndari tekur portrett-mynd af þér – hvað væri hinn fullkomni bakgrunnur?
Álfaborgin við bæinn Fell norður á Ströndum, þar sem afi minn eyddi stórum hluta æskuára sinna, en ég lærði það einmitt við gerð myndarinnar að amma hans, Vilborg á Felli, hefði verið mikill baráttumaður fyrir réttindum álfa.
Merkilegasti óuppgötvaði listamaðurinn?
Hlín Ólafsdóttir
Hvort finnst þér þægilegri tilhugsun um að lífið sé tilviljanakennt eða að lífið sé fyrirfram ákveðið?
Ég er meira fyrir tilviljanirnar held ég, það er ákveðið frelsi og von í því á meðan örlagatrúin er svolítil blindgata, þó hún sé auðvitað skemmtileg líka.
Hvað gerðirðu við peninginn sem frúin í Hamborg gaf þér?
Við Hlín keyptum okkur lítið fallegt hús með útsýni yfir hafið.
Nærðu að lifa af listinni – og ef svo er, hvernig?
Nei, en mér tekst að sinna henni með því að spara við mig í öðru.
(Spurning frá síðasta smyglara, Þórarni Leifssyni:) Hvað finnst þér raunverulega um Ásgeir H?
Ásgeir er duglegur og metnaðarsamur menningarblaðamaður og ljóðskáld með hjartað á réttum stað. Hann hefur lagt mikið til íslensks menningarlífs og samfélags án þess að fá það endilega endurgoldið. Það er margt gullið sem við ekki sjáum fyrr en það er okkur horfið.
Hvaða plötu á lesandi að setja á fóninn á meðan hann les þetta?
Stríðsslagarann Pistol Packin´ Mama með Al Dexter, til að hita upp fyrir útgáfuna sem Teitur Magnússon ætlar að gera fyrir Hálfan Álf.
Síðasta sjónvarpsþáttasería sem þú horfðir á í einni lotu?

Chernobyl hélt mér vakandi fram eftir morgni. Algjörlega magnaðir þættir sem kallast með svo uggvænlegum hætti á við samtímann og það hvernig viðvaranir vísindamanna í loftslagsmálum eru ítrekað virtar að vettugi. Ég hef ekki dottið í almennilegt „binge“ síðan þá, þrátt fyrir að hafa gert nokkrar tilraunir. Það þarf svo sem yfirleitt töluvert mikið til að halda mér almennilega við efnið, en Chernobyl gerði það og rúmlega það.
Hvað er draumaverkefnið?
Nú, auðvitað heimildamyndin um þig, menningarsmyglarann sjálfan, hvernig spyrðu drengur?
Uppáhaldsorðið þitt? (getur valið bæði íslenskt og enskt orð, fyrir ensku útgáfuna – en svo geturðu líka haft íslenskt orð fyrir útlendingana)
Ég á mér svo sem ekkert uppáhaldsorð held ég, en af því ég minntist á það áðan, þá finnst mér álfamálaráðuneyti til dæmis mjög skemmtilegt orð, þó að það geti verið pirrandi að vera spurður út í það eins og um eitthvað alvöru dæmi sé að ræða.
Hvernig finnst þér best að hlusta á tónlist?
Ég elska að hlusta á tónlist á meðan ég elda. Best er hún þó í bakgrunni á meðan eldur logar í stjörnubjartri eyðimörk og góðir vinir skeggræða um eilífðina allt í kring.
Er eitthvað sem þú vilt spyrja næsta smyglara?
Hvað langar þig í í jólagjöf?
Eftirminnilegasta atvikið við gerð myndarinnar?
Þau eru svo mörg að það er erfitt að velja. Mér er t.d. minnistætt þegar við afi fórum í leiðangur til Kristjáns Loftssonar hjá Hvali ehf. í leit að súrhval fyrir lítið þorrablót sem þau amma voru að halda heima hjá sér. Staðsetning skrifstofu Hvals er ekki á allra vitorði, af ótta við mótmæli aðgerðarsinna, svo það tók okkur töluverðan tíma að finna út úr því. Þegar þangað var loks komið var Kristján sjálfan hvergi að finna, en afa þótti mikilvægt að ræða beint við forstjórann sjálfan. Eftir þónokkra leit fundum við þó Kristján, sem var nokkuð hissa yfir þessari beiðni, enda hefði hann lítið stundað það að selja súrhval svona beint frá býli. Okkur tókst þó að fá eina góða tunnu í hendurnar við mikinn fögnuð afa gamla.
Þá var ekki síður minnistætt þegar við Hlín fórum með ömmu í ljóðaleiðangur út á Gróttu þar sem hún þuldi heilu ljóðabálkana fyrir myndavélina við hlið lítils fiskikofa. Það var alltaf einhver skuggalegur maður á vappi þarna í kring um okkur og amma, sem er almennt lítið gefin fyrir athyglina, átti í mesta basli með að halda andliti í gegnum þetta allt saman, en það tókst þó á endanum og þá með eindæmum vel.
Svo get ég ekki sleppt því að nefna hvernig kattasinfónían í myndinni kom til. Ég var á rúntinum nærri íbúðinni þeirra í Austurbrún að safna umhverfisstillum fyrir myndina þegar ég sá gamlan mann á vappi með göngustafina sína. Ég áttaði mig fljótlega á því að þar fór afi askvaðandi svo ég gerði vélina klára í snarhasti og fékk að elta hann á göngunni. Úr varð mikið ævintýr þar sem afi lagðist á einn bekkinn í hverfinu, raulaði og sagði sögur. Ég var nýbúinn að stilla vélinni upp á þrífæti og finna réttan ramma þegar köttur vappaði inn í senuna og tók til við að leika sér við afa. Úr varð allsherjarsinfónía sem krafðist þess eins af mér að hreyfa ekki við myndavélinni. Að þessu öllu loknu sagði afi við mig að þetta væri eflaust verðmætasta skotið sem við hefðum náð til þessa, algjört milljón dollara skot.
Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð þess.