Lítll leikhópur er að æfa Hamlet. Þetta er allt frekar hefðbundið, lítið að gerast – þangað til maður með ljósa hárkollu guðar á glugga – og mætir svo og fer með línur Hamlets danaprins af sjaldgæfum eldmóð og ástríðu.
Þetta er hann Sven og hann var aðeins of seinn á æfingu, en varaskeifan hans var líka að æfa. Vandamálið er nefnilega þetta: Sven á að leika Hamlet en hann er með hvítblæði, og þar af leiðandi þarf leikhópurinn að vera við öllu búinn, viðbúinn því að varaleikarinn leysi reglulega af.
Sven og leikstjórinn eru nánir, ferill þeirra samtvinnaður, þeir eiga jafnvel hvor öðrum ferilinn að þakka, eru einhvers konar Scorsese-De Niro kombó þýska leikhússins. Það veldur varaleikaranum vandræðum, hann þarf að leika Hamletinn hans Sven, sem verður alltaf vond málamiðlun, eitthvað sem Sven er sammála honum um en leikstjórinn ekki.
Sven er drifkraftur myndarinnar – þversögnin sem drífur hana áfram, að þessi maður, svona stútfullur af orku og ástríðu, að þetta mikla bál sé alveg að fara að slokkna.
En þegar á líður verður Lisa, tvíburasystir Sven, aðalpersóna myndarinnar. Því þegar þrek hans fer að þverra þarf hún á öllu sínu að halda. Myndin er nefnd eftir henni, Litla systir, þýski titillinn hið gullfallega styttingarending Scwesterlein. Það munar bara tíu mínútum á þeim, en þessar tíu mínútur skipta í þeirra huga öllu.
Þetta er leikaramynd um leikarafjölskyldu – og þau Nina Hoss og Lars Eidinger eru hreint frábær sem systkynin tvö. Það er mikið leikhúsdrama í myndinni, mamman úr leikhúsheiminum og dóttirin leikskáld.
Hjónaband Lisu er í molum og maður finnur að veikindi bróðursins staðfesta það bara, rétt eins og í nýlegum skilnaðarmyndum og bókmenntum (Marriage Story og Tilfinninabyltingin) þá virðist staðsetning rót vandans; í heimi þar sem búseta verður sífellt meira fljótandi verður hún um leið sumum stærri hluti sjálfsmyndarinnar og opinberar um leið muninn á hjónum, sem geta ekki hugsað sér að búa á sama stað.
Það er þó hliðarsaga, aðalsagan fjallar um systkynakærleik, listina og nauðsyn þess að leyfa þeim dauðvona að velja sinn dauða.
Hér kemur smá Höskuldaraðvörun:

Sven fær aldrei að leika Hamlet. Leikstjórinn hringir og hefur áhyggjur af því að hann muni hníga niður á sviði, að heilsan sé orðin of slæm. Vandinn er hins vegar að heilsan var þokkaleg fram að þessu, með því að taka draumahlutverkið frá honum hrynja allar varnir líkamans og hvítblæðið tekur öll völd.
Seinna sitja þau systkynin svo saman og semja sinn síðasta einleik í sameiningu. Innblásinn af Hans og Grétu, það eru þeirra bernskufyrirmyndir á einhvern dularfullan hátt. Gréta veit að nornin mun bráðum hremma Hans, en reynir að gera dvölina í ofninum bærilega.
„Að fara til Íslands áður en ég dey,“ segir Sven og þau spinna söguna áfram. Þetta er undurfallegt ljóð, hið hinsta ljóð, við vitum að þessir draumar munu aldrei rætast. Og þó, kannski rætast þau einmitt þarna, með að orða þá, með að leika þá, með því að ímynda sér Ísland, með því að skrifa það niður.
Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð þess.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson