Þrátt fyrir að vera skilnaðarmynd þá er Marriage Story með rómantískustu myndum ársins. Myndin hefst á hlýlegu hrósi hjónanna Nicole (Scarlett Johansson) og Charlie (Adam Driver) til hvors annars, listi sem kemur í ljós að þau skrifuðu en fást ekki til þess að deila hvort með öðru, þótt skilnaðarráðgjafinn hvetji þau til þess. Þetta eru litlir, hversdagslegir hlutir – en ástin og sorgin er í litlu hlutunum, því að þekkja minnstu og kjánalegustu leyndarmál makans ekki síður en þau stóru. Að þekkja manneskju.

Þetta litar svo alla myndina, þrátt fyrir oft hatrömm rifrildi og baráttu um forræði þá er alltaf undirliggjandi væntumþykja – þau skildu greinilega ekki vegna þess að ástin hafi slokknað. Þau skildu fyrst og fremst af því þau áttu ekki samleið lengur, af því að líf þeirra – eða öllu heldur það líf sem þau áttu eða þráðu – var ekki lengur það sama.

Hvorugt þeirra virkar á mann sem vond manneskja, þótt maður geti auðveldlega orðið brjálaður við þau til skiptis. Þau eru einfaldlega tvær manneskjur sem passa ekki saman lengur, ef þau gerðu það þá einhvern tímann, hvað sem ástinni líður. Hjónaband er púsluspil sem gengur einfaldlega stundum ekki upp. En ef maður reynir að velja sér skúrka mætti eiginlega segja að hann virðist hafa verið skúrkurinn í hjónabandinu sjálfu en núna er komið að henni að fá að vera skúrkurinn. Lesist: sá sem ráðskast með hinn makann. Sem í þeirra tilfelli þýðir að ákveða á hvaða strönd þau búa.

New York eða Los Angeles?

Marriage Story hefur verið borin saman við flestar helstu kanónur skilnaðarmyndanna (varla þó eina þeirra bestu, War of the Roses, sem er alveg hinum megin á skalanum – og sleppir sér á yndislegan hátt í óbeisluðu hatri hjónanna fyrrverandi). Veggspjaldið af mini-seríu Ingmars Bergmans, Senur úr hjónabandi (Scener ur ett äktenskap), birtist í myndinni og það eru vissulega ákveðin líkindi við Kramer vs. Kramer líka, síðustu stóru Hollywood-óskars-skilnaðarmyndina.

Að ógleymdri auðvitað myndinni sem kom leikstjóranum Noah Baumbach á kortið, The Squid and the Whale, sem er byggð á skilnaði foreldra hans og sýnir fyrst og fremst áhrifin á börnin. Hér sjáum við hina hliðina á peningnum – en eiginlega minnir myndin mig samt að vissu leyti mest á nýútkomna Tilfinningabyltingu Auðar Jónsdóttur – eða öllu heldur, myndin skoðar enn ítarlegar undirliggjandi þema úr þeirri bók; áhrif búsetu á skilnaðinn.

Charlie er snemma í myndinni lýst sem erkitýpískum New York-búa, þótt hann hafi flust þangað ungur frá Indiana, á meðan draumur Nicole er í Los Angeles. Rétt eins og hjónin í Tilfinningabyltingunni takast á um Berlín og Reykjavík þá takast hjón myndarinnar á um hvort líf sonarins Henry – og þar með þeirra – eigi að vera í frægustu borg Austurstrandarinnar eða frægustu borg Vesturstandarinnar. Charlie kallar þau ítrekað New York-fjölskyldu og er að verða brjálaður á Los Angeles-búum að dásama allt plássið sem þau hafa – þar sem þarf að fara flestra ferða með bíl.

Það er erfitt að greiða úr þessari flækju, að sumu leyti endurspegla borgirnar persónuleika þeirra, en líka að sumu leyti sjálfsmynd sem vel má vera að sé skökk. Þá er alveg spurning hvort hluti af því að Nicole vilji flytja sé ekki LA sjálf, heldur einfaldlega sú staðreynd að þarna séu þau ekki lengur í heimi Charlie, þvert á móti er hún þarna á heimavelli – sem birtist meira að segja í því að skyndilega á Charlie erfiðara með að tengjast Henry en áður – sonurinn aðlagast auðveldar en pabbinn og er skyndilega orðinn LA-strákur, ekki New York-strákur.

Þetta snýst um það að finna sinn heimavöll – sem skyndilega er ekki sá sami. Og það mun alltaf kalla á aðra risastóra ákvörðun hjá öðrum aðilanum.

Það skiptir líka máli í þessu samhengi að Nicole virðist eiga góða fjölskyldu, sem er skiljanlegt að hún vilji vera nálægt, á meðan fjölskylda Charlie er fjarlæg, að virðist brotin alkóhólistafjölskylda, þannig að hann bjó sér til sína eigin fjölskyldu úr leikhópnum í New York.

Skilningsríki hákarlinn

„Hef ég efni á þessum brandara?“ spyr Charlie lögfræðinginn sinn eftir að hafa hlustað og horft á klukkuna á meðan lögfræðingurinn hans segir langdreginn brandara sem enn virðist vera nóg eftir af. En skilnaðarlögfræðingar kosta skildinginn – og eru í raun aðalskúrkar myndarinnar.

Nicole ræður Nóru (Lauru Dern) sem skjallar Charlie á milli þess sem hún finnur hans helstu veikleika. Hún er sálfræðingur Nicole um leið og hún berst fyrir hana – og það er í raun í gegnum samtal þeirra tveggja sem við áttum okkur almennilega á ástæðum skilnaðarins.

Charlie er ekki jafn heppinn með lögfræðinga, eftir að hárkarlalögfræðingurinn Jay (Ray Liotta) hræðir hann í burtu ræður hann Bert (Alan Alda), sem er miklu mannlegri týpa – hann á þessa mannlegu hlið sameiginlega með Nóru – en ólíkt Nóru er hann enginn hákarl, eitthvað sem Charlie áttar sig á á síðustu stundu og hóar aftur í hákarlinn. Það sem Nóra hefur framyfir þá báða er að hún er bæði – hún er skilningríkur hákarl. Bæði flink í að vera manneskja og í því að vera lögfræðingur.

Aðkoma lögfræðinganna, sem hefur tekist að gera skilnaði að stóriðnaði og hefur auk þess tekist að snúa upp á vel meinandi lög sem mest þeir geta, sýnir okkur vel hvernig kapítalisminn gerir öll mannleg samskipti miklu erfiðari en þau þyrftu að vera.

Þau Nicole og Charlie eru alls ekki illa stæð, en þau eru ekki rík heldur. Það eitt og sér er nóg til þess að þau hafa einfaldlega varla efni á að skilja, nema að gera það án lögfræðinga, og líklega hefði útkoman orðið svipuð án þeirra, þau eru ekki að berjast um fjármuni og vilja bæði deila forræði – bitbeinið er aðallega hvar Henry á að búa, í hennar heimi eða hans.

Laura Dern, Ray Liotta og Alan Alda fara svo öll á kostum sem lögfræðingarnir þrír – ná eiginlega að birta þrjár erkitýpur stéttarinnar með breiðum en þó merkilega næmum pensilstrokum. Sérstaklega Dern, sem er djöfull með breiðan móðurfaðm eða vinkonufaðm, eftir því hvað hentar. Alda sér raunar son sinn í Charlie, en Charlie áttar sig á að lokum á því að hann vantar ekki góðlátlegan pabba, hann þarf sinn eigin skíthæl.

Leikurinn er raunar stórfenglegur hvert sem litið er, sérlega gaman að sjá Wallace Shawn, nagginn úr The Princess Bride, í litlu aukahlutverki, og fjandakornið hvað Laura Dern á skilin öll verðlaun í heimi fyrir þennan lögfræðing sinn – sem einn gagnrýnandi hataði svo heitt að hann þráði að risaeðlurnar í Jurassic Park væru enn að elta hana.

En þetta er engu að síður myndin þeirra Scarlett Johansson og Adam Driver. Driver birgir sársaukann inni, stundum mjög bókstaflega, á meðan Johansson nær einhvern veginn að lýsa upp herbergið með tilfinningum sínum, góðum sem slæmum. Þetta eru leikarar sem hafa einhvern veginn þroskast fyrir augunum á manni þangað til þau urðu tilbúin til þess að leika akkúrat þessar manneskjur.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson