Tolkien eftir finnska leikstjórann Dome Karukoski (sem einnig leikstýrði Tom of Finland, sérhæfir sig greinilega í ævisögum manna með misjafnlega hýra undirtóna) fjallar eins og nafnið gefur til kynna um lífshlaup J.R.R. Tolkien – en þó væri Young Tolkien meira réttnefni, sögunni líkur nefnilega um það leyti sem hann er að byrja að skrifa Hobbitann.
Þannig fjallar myndin í raun fyrst og fremst um uppvaxtarár hans, það að vera fátæki munaðarlausi stúdentinn í virtasta háskóla heims, þar sem vinirnir eiga allir foreldra með digra sjóði. Hún fjallar líka um þessa vináttu og síðast en ekki síst sambandið við hana Edith Bratt, sem seinna varð Edith Tolkien.
Allt þetta fer fram í skugga móðurmissis, verkanna sem hann átti eftir að skrifa síðar og heimstyrjaldarinnar sem hann lifði af – en alls ekki allir æskuvinirnir.
Verandi enginn sérstakur Tolkien-aðdáandi var ég ekkert ógurlega spenntur fyrir myndinni fyrirfram – en myndin kemur töluvert á óvart. Það er vissulega Hollywood-bragur á henni en það háir henni ekki svo mjög og vinskapur háskólapiltanna er oft forvitnilegur, skemmtilegur og óvæntur – þótt vinir hans hafi stundum runnið saman í eina súpu.
Tengslin við bækurnar sem hann átti eftir að skrifa sem og málfræðina sem hann brann fyrir er einnig oft skemmtileg. Örstutt sena með móðurinni minnti svo óljóst á sögur um ömmu Laxness, alla þessa karlrithöfunda sem fengu skáldskapinn fyrst og fremst með móðurmjólkinni.

Nicholas Hoult leikur Tolkien prýðilega – og Harry Gilby á unglingsárunum. Þeir eru nógu líkir að maður tekur varla eftir þegar skipt er um leikara, svo miklu betri er þessi gamla tækni en bölvuð aföldrunartölvutæknin sem Scorsese reyndi á síðasta ári. Sama á við um aðra leikara, þar á meðal Lily Collins og Mimi Keene sem Edith.
En þar komum við að stærstu mistökum myndarinnar: hún velur sér vitlausan Tolkien sem aðalpersónu. J.R.R. er vissulega ansi forvitnilegur um margt – en hin verðandi frú Tolkien, hún Edith, er bara svo miklu, miklu magnaðri, forvitnilegri og meira heillandi karakter hvernig sem á það er litið.
Rétt eins og Tolkien nær hún að brjótast úr örbirgð og á meðan hann skrifar spilar hún á píanó. En flest það forvitnilegasta sem sagt er um skáldskap og orðkynngi í myndinni er komið frá henni. Þótt Tolkien og félagar hans virki sem ágætlega efnilegir höfundar eða fræðimenn hefur hún einhvern djúpan skilning á skáldskap sem mun væntanlega taka þá áratugi að skilja, þótt J.R.R. spari sér væntanlega töluverðan tíma með að giftast henni.
Svo er erfitt að meta hversu skyld þessi Edith er hinni raunverulegu Edith, en ef hún var í alvörunni svona þá er í raun óskiljanlegt að hún hafi ekki orðið Tolkien innblástur fyrir fleiri og forvitnilegri kvenpersónur.
Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson