Hvernig gerirðu bíómynd um sköpunina sjálfa? Um starf rithöfundar, sem dæmi? Sýnirðu hann fyrir framan ritvélina eða sýnirðu hvaðan hann fékk innblásturinn? Eða sýnirðu átökin við að koma verkinu út í heim? Það má finna vel heppnuð sem og misheppnuð dæmi um þetta allt, en Mank reynir að gera allt þrennt – og tekst vel upp með innblásturinn – en miklu síður með hitt.

Mank er sem sagt gælunafn Herman J. Mankiewicz, handritshöfundar af mikilli Hollywood-ætt sem er ásamt Orson Welles skráður fyrir handritinu af Citizen Kane – og myndin var í raun helst markaðssett sem umdeild kenning um hver sé hinn eiginlegi höfundur einnar frægustu myndar kvikmyndasögunnar. En ef þið viljið debat um það myndi ég leita annað, myndin tekst aldrei af neinu viti á við það – Welles birtist stöku sinnum í síma, en annars bara einu sinni almennilega – og það atriði er svo illa undirbyggt að það fellur kylliflatt. Myndin hefði einfaldlega verið betri ef hún hefði sleppt Welles með öllu, annað hvort það eða gert hann að alvöru persónu.

Nútími myndarinnar er árið 1940, en árið áður hafði Mankiewicz lent í alvarlegu bílslysi og er því rúmfastur með mölbrotinn fótlegg. Þannig að í staðinn fyrir ritvél sjáum við svipmyndir af sambandi hans við ritarann, hina bresku Ritu Alexander, sem er ósköp meinlaus karakter. Lily Collins virðist sérhæfa sig í að leika músur rithöfunda þetta árið (já, ég er að reyna að gleyma þessum fimm mínútum sem ég sá af Emily in Paris) – og hún átti Tolkien með húð og hári, var algjörlega frábær þar, en hér fær hún sorglega lítið að gera.

Sem er mikil synd, það er löngu tímabært að skoða betur samband ritara og rithöfunda fyrr á öldum, þegar konan vélritaði en karlinn blaðraði – en vandinn er að hér fær Rita ekki að hafa mikið meiri skoðanir á efninu en hver önnur ritvél, þótt hún hafi sínar skoðanir á drykkju þess gamla, og þannig missir myndin alveg af tækifærum til þess að takast á við þessa óvenjulegu dýnamík sköpunarferlisins – sem er sjálfsagt að mestu horfin núna þegar flestir pikka bara á tölvuna heima hjá sér – eða hvað?

Aftur til fortíðar

Sem betur fer hverfum við fljótlega frá þessu þunglyndislega sjúkrabeði og bregðum okkur með höfundinum í endurlit áratug aftur í tímann – og megnið af myndinni er i endurliti, það sem flakkað er á milli mismunandi tímabila á árunum 1930-37, árunum þegar Mankiewicz var kóngur handritshöfundanna i Hollywood, ekki farlama fortíðardraugur og alkóhólisti að reyna að sanna sig upp á nýtt (sem er um leið kannski nokkuð fölsk tilfinning sem myndin varpar fram – hann var jú nýbúinn að skrifa Kansas-atriðið í Galdrakarlinum í Oz).

Netflix verður samt að venja sig af þeim ósið að ráða alltof gamla leikara í hlutverkin. Gary Oldman er vissulega þrælgóður í myndinni – en um leið alltof gamall fyrir hlutverkið. Oldman er 62 ára, Mankiewicz var 32-42 ára þegar myndin gerist, og þótt Oldman leiki yngri mann vel þá segir andlitið okkur aðra sögu, svo ég tali ekki um fæturna, þegar hann þarf að hlaupa – og hleypur skiljanlega eins og 62 ára maður.

Verst er svo hvernig þetta litar samskipti Mankiewicz við konurnar í lífi hans. Nú er aldursmunur elskenda, þar sem karlinn er oft miklu eldri, klassískt þema í Hollywood sem má vel rannsaka betur – en það er ansi öfugsnúið að það sé gert í mynd um Herman J. Mankiewicz. Hann var giftur henni Söru og á í myndinni auk þess í harla óvenjulegu platónsku ástarsambandi við Hollywood-stjörnuna Marion Davies. Þær voru báðar jafnöldrur hans, öll voru þau meira að segja fædd árið 1897. En þær Amanda Seyfried og Tuppence Middleton, leikkonurnar sem túlka þær stöllur, eru hins vegar báðar rúmum aldarfjórðungi yngri en Oldman – sumsé, ólíkt honum á réttum aldri fyrir hlutverkið. Þetta veldur einhverri skrítinni truflun í annars áhugaverðum senum – nema þetta sé hreinlega lúmskt komment á að um sumt hafi Hollywood farið aftur í kynjajafnréttinu – eitthvað sem kreditlistar mynda frá þessum áratug benda raunar líka til, það er miklu algengara en í seinni tíð að leikkonan sé nefnd fyrst.

En samt, en samt: þrátt fyrir alla þessa vankanta mæli ég samt alveg með að fólk horfi á Mank. Og ástæðan er einfaldlega þessi; hún birtir einkar forvitnilega og heillandi mynd af Hollywood millistríðsáranna, sem og pólitíkinni sem þá sveif yfir vötnum. Þetta væri raunar frábær bíómynd ef hún hefði kafað dýpra þar – og látið sér kannski duga lítið skilti í lokin um að seinna meir hefði aðalpersónan unnið Óskar fyrir handritið af Citizen Kane.

Við sjáum Mank halda skrautlega ritstjórnarfundi með færustu handritshöfundum þessara ára, manna á borð við Ben Hecht (Scarface, His Girl Friday og Wuthering Heights) og Joseph L. Mankiewicz, yngri bróður Hermanns sem átti á endanum eftir að eiga mun farsælli feril. Þeir sjá sig sem gáfumennin í forheimskandi Hollywood-landinu, mennina sem græða stórfé á að semja handrit sem eru fyrir neðan þeirra virðingu – sem er til marks um stöðu kvikmyndarinnar þá, þegar hún var orðin vinsæl listgrein en var rétt að byrja að fá virðingu sem slík – og dró að sér handritshöfunda sem mættu þarna til að græða peninga, en myndu samt frekar vilja vera heima hjá sér og skrifa alvöru bókmenntir.

En svo sjáum við líka partíin, þar sem Mank er manna hortugastur – en hortugheitin í honum virðast vera nánast eins og skemmtiatriði fyrir mógúlana sem borga honum launin. Manna eins og William Randolph Hearst, sem horfir á samkvæmin án þess að blanda sér mikið í samræðurnar. Þessi útgáfa af Hearst rekur fjölmiðlaveldi en kann best við að hlusta, vill væntanlega komast að sem flestu um almúgann sem hann nýtur að féfletta og mata af upplýsingum – og Mank er tenging hans við þann heim, jafngölluð sem sú tenging er. Þessi Hearst er sannarlega allt öðru vísi en sá Hearst sem birtist okkur lítt dulbúinn sem Charles Foster Kane í mynd Welles – sem gæti verið vísbending um að Mankiewicz hafi sótt innblástur fyrir persónuna víðar.

Stjörnur myndarinnar eru þó fyrst og fremst tvær. Annars vegar Amanda Seyfried sem Marion Davies, hin bláeyga og hjartaheina sál myndarinnar. Hún er flækt í Hollywood-lygina, sannarlega, en sér í Mankiewicz ærlegan og blíðan félaga sem segir henni alltaf sannleikann og ræður henni heilt. Hin stjarnan er Arliss Howard sem Louis B. Mayer, yfirmaður MGM, sem á þessum árum var líklega voldugra en nokkuð kvikmyndafyrirtæki hefur verið fyrr eða síðar, þar sem stærstu stjörnur kvikmyndasögunnar voru næsta hversdagsleg sýn á göngunum. Það hversdagsleg að mér skilst að Charlie Chaplin, Greta Garbo, Bette Davis og Clark Gable séu öll í myndinni – en þau fóru öll fram hjá mér, enda öll í örhlutverkum, hafa vafalaust birst manni í einhverju af þeim ótal mörgum partíum sem Mank villist inní. Hver veit, kannski voru þau öll bak við grímurnar í grímupartíinu?

En mógúlinnn Mayer birtist okkur sem Sjeikspírskur skúrkur; sjarmerandi og tungulipur, fávís og ljóngáfaður í senn, mögulega einhver amerískasta sögupersóna sem hægt er að ímynda sér. Aðrar lykilpersónur sögunnar eru Irving T. Thalberg, James Dean framleiðandanna, rísandi stjarna í Hollywood sem dó frá glæstum ferli aðeins 37 ára, og rithöfundurinn og sósíalistinn Upton Sinclair, sem að vísu sést ekki mikið í mynd en er þeim mun meira ræddur í undanfara kosninga sem aðalpersónur myndarinnar hafa ýmsar meiningar um.

Þannig er alveg hreint mögnuð mynd falin mitt í þessari, mynd um gullöld Hollywood, mynd um þann anga þjóðfélagsins sem Citizen Kane fjallar um, um pólitíkina sem er henni undirliggjandi – og þar sem Mank hefur sökum ástandsins sama og ekkert komist í bíó þráir maður helst að Fincher geri þá mynd, finni leikara á réttum aldri og taki þessa sögu og dýpki hana – en taki um leið allt sem gerist eftir 1937 og hendi út í hafsauga. Það væri mynd sem mig langar að sjá, og mynd sem hann hefur sýnt að hann getur vel gert. Hann hefur meira að segja gert nútímauppfærsluna – því hvað er The Social Network annað en Citizen Kane 21 aldarinnar? *

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson

* Þá meina ég þematískt – þótt The Social Network sé sannarlega góð þá myndi ég líklega velja aðrar myndir sem mögulegt svar 21. aldarinnar við Citizen Kane ef maður væri að gera aldarlista.

E.S.: Slate sá um að fact-tékka myndina. Þið getið skrollað neðst til að fá yfirlit um deilurnar um höfundarréttinn á handriti Citizen Kane – en það má kannski súmmera restina upp sem svo: atburðirnir 1930-37 eru í öllum höfuðatriðum réttir, nema þáttur Manks í þeim var oftar en ekki ýktur – ef hann var yfir höfuð til staðar. Það er til dæmis ekkert sem bendir til að hann hafi verið sérstakur stuðningsmaður Sinclair og jafnvel verið frekar íhaldssamur, þótt hann hafi ekki verið sami harði repúblikinn og yfirmenn hans. Tja, ef Thalberg er undanskilin – sem var engan veginn sá já-maður sem myndin gefur í skyn.