Tveir franskir rithöfundar, þær Leïla Slimani og Marie Darrieussecq, ákváðu að bregða sér í sumarbústað, rétt tímanlega áður en lokað var fyrir slíkt. Báðar eru nokkuð frægar í heimalandinu, nógu frægar til að fá að skrifa dagbækur úr kófinu, önnur fyrir Le Monde og hin fyrir Le Point.

Prýðileg hugmynd, ekki satt, að rithöfundar noti tækifærið og skrifi í beinni um sögulega atburði? Nema hvað, ýmsum þóttu skrif þeirra aðallega bera forréttindum þeirra vitni, að eiga bæði athvarf í París og í frönsku sveitasælunni, sem reitti bæði nágranna þeirra í sveitinni og borginni til reiði, fólk í sveitinni hafði áhyggjur af því að þær bæru veiruna þangað og fólk í borginni hugsaði um 15-30 fermetra íbúðirnar sínar og sagði: „þetta er ekki okkar kóf-veruleiki,“ eða svo ég gefi skáldkonunni Diane Ducret orðið:

„Þú getur ekki séð himininn frá mínum glugga. Byggingin á móti er skítug, þögul torgin fylla mig beyg. Innilokuð af veiru á fertugsaldri, það að fara að deyja alein, í tveggja herbergja íbúð, er ekkert alltof freistandi. Það er erfiðari saga að selja en gylltar hæðir og kamelíufrýr Leïlu Slimani, en líklega nær veruleika okkar flestra,“ skrifar Ducret og minnist um leið áttræðs nágranna sem skömmu áður hafði framið sjálfsvíg þegar leigusalinn vildi selja undan honum pínulitlu stúdíóíbúðina sem hann hafði búið í síðustu tuttugu árin.

Ducret segir það sem mig hefur stundum langað að segja við öll þau yfirvöld sem hafa skipað okkur fyrir undanfarnar vikur. Íslensk sem og erlend, stjórnmálamenn og sóttvarnarlækna og landlækna. Þau meina vel og vonandi er rétt að fara að tilmælum þeirra – en þau hafa ekki hugmynd um það hvernig er að vera fastur í smá holu, jafnvel gámi, að vera fólkið sem borgar 150 þúsund kall fyrir sjö fermetra herbergi, samanber þessa hrollvekjandi fréttaskýringu Jóns Bjarka frá því fyrir ári síðan um húsnæðisástandið á höfuðborgarsvæðinu. Það er þarna sem verstu harmleikir kófsins eru líklegir til að eiga sér stað, það ættu hins vegar flestir að þola smá inniveru ef þeir hafa marga tugi eða jafnvel hundruði fermetra upp á að hlaupa.

 Þegar ég horfði svo á allt hressa fólkið syngja fyrir okkur „Ferðumst innanhúss“ heiman að frá sér í boði RÚV hugsaði ég einfaldlega: í fljótu bragði ætti þetta fólk ekki að vera í neinum vandræðum með að ferðast innanhúss. Ég væri hins vegar til í álíka hresst myndband frá herbergisfélögum að reyna að virða tveggja metra regluna í sjö metra herbergi.

Þessir söngvarar eru þó í besta falli efri millistétt – og þótt franskir mestöluhöfundar hafi það örugglega gott þá eru húsnæði þeirra sjálfsagt oftast fátækleg kotbýli samanborið við hallirnar sem stjórnmálaleiðtogarnir búa í, þessir sem skipa fyrir um einangranir og sóttkvíar og útgöngubönnin.

Og ef marka má Google Translate þá virðast þær stöllur alls ekki blindar á eigin forréttindi. Slimani skrifar: „Við erum ekki jöfn. Komandi dagar munu dýpka þá misskiptingu á grimmilegan hátt.“

Þá tekur Marie Darrieussecq bókstaflega undir gagnrýnina í sínum dagbókum: „Hinum ríku er alltaf hyglt, líka í innilokun, fermetrar, aðgangur að hafinu … ég hugsa um vini sem búa sex saman í þriggja herbergja íbúð.“

Hrunleikritið sem reynist svo vera kófleikrit

Það hefur hins vegar komið í ljós að Darrieussecq þessi er mögulega óvinsælasti franski höfundur á Íslandi, miðað við það sem kemur fram í þessari færslu í Bókaskápnum – þar sem fram kemur að fleiri en einn og fleiri en tveir málsmetandi bókmenntamenn bera henni afskaplega illa söguna og meira að segja hennar eigin þýðandi hraunar yfir hana: „Nja, ég þoli hana ekki, og mér finnst íslenska þýðingin skárri en frumtextinn.“

Þrátt fyrir þetta virðist hún koma ítrekað aftur til landsins, hefur komið allavega fjórum sinnum síðan ef ekki oftar til landsins, og því hlýtur maður að spyrja sig: finnst henni svona gaman að skaprauna Íslendingum eða þola Frakkar hana kannski ennþá verr?

Annar þýðandi hennar, Sjón, virðist hins vegar vera einn af fáum Íslendingum sem þola hana Marie, miðað við viðtal sem ég tók við hann þegar hann hafði nýverið þýtt leikrit eftir hana. Sjálfur tók ég símaviðtal við hana af því tilefni og man allavega ekki sérstakan dónaskap né franskan yfirstéttarkulda í röddinni. Þegar ég kvaddi hana var hún meira að segja hressandi einlæg: „þetta er síðasta kvöldið og ég reikna fastlega með því að verða full.“

Tilefnið var leikritið Sædýrasafnið, sem var þá rétt ófrumsýnt (og ég hafði náð að sjá á æfingu fyrir viðtalið). Og það er dálítið merkilegt hvað þetta viðtal birtir okkur vel líkindin með kófinu og hruninu, en viðtalið var tekið að vori hrunsvetursins. Það lá við að það mætta bara skipta á orðunum hrun og kóf og þá hefði þetta viðtal geta verið tekið í gær.

Fyrirsögnin er meira að segja bókstaflega lexían sem Marie hefur verið að læra í einangruninni, sem og við öll raunar: „Þú getur ekki lokað heiminn úti.“

Þetta er líka verk um breytingar:

„Upphafspunkturinn er við, þetta fólk sem er vant því að borða, lesa og skemmta sér áhyggjulaust – hvað gerist þegar það breytist, gjörbreytist?“

Ein aðalpersónan, Lísa, lýsir breytingunum svona:

„Þegar þjóðríki er rekið eins og nunnuklaustur

með smá samfélagshjálp hér og smá samfélagshjálp þar skóla hérna og spítala þarna gerist það einn daginn búmm spítalinn farinn

daginn sem við fengum flugmiðana okkar passana peningana ákvörðunina búmm flugstöðin farin“

Það merkilegasta er svo að lexíurnar sem við ætlum að læra virðast vera þær sömu, að sögn Marie:

„En við í Frakklandi vonum líka að þetta leiði eitthvað gott af sér. Kenni okkur að vera ekki jafn hirðulaus um hnöttinn okkar, að kaupa minna og hugsa aðeins meira. Vonandi kemst í tísku að hugsa meira.“

Við lærðum þessar lexíur ekki almennilega í kjölfar hrunsins, þótt við höfum sannarlega reynt. Kannski er þetta upptökuprófið? Svo er bara spurning hvað við þurfum að endurtaka ef við föllum á þessu prófi líka.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson

Mynd úr sýningu: Frédéric Nauczykiel

Mynd af Diane Ducret: Par Wikinade — Travail personnel, CC BY-SA 4.0, https://commons.wikimedia.org/w/index.php?curid=31812986

Mynd af Leïlu Slimani: By Indif – Own work, CC BY-SA 3.0, https://commons.wikimedia.org/w/index.php?curid=38301223

Mynd af Marie Darrieussecq: By Ji-Elle – Own work, CC BY-SA 3.0, https://commons.wikimedia.org/w/index.php?curid=16611963