Stríðshrjáð Líbanon og umsetin Sarajevo með dassi af heimsendisstemningu. Þetta er uppskriftin að Sædýrasafninu, nýju leikriti eftir Marie Darrieussecq sem sýnt verður í Þjóðleikhúsinu.
MÆJA:
Fortíðin er sorgleg nútíminn ótryggur Guði sé lof að við eigum enga framtíð
Þessi kolsvarti brandari foreldra einnar aðalpersónu Sædýrasafnsins hefur tekið á sig óhugnanlegri merkingu mitt í rústum heims sem eitt sinn var. Okkar heims? Máski. En hver er framtíð Sædýrasafnsins ? Það verður sett upp í Þjóðleikhúsinu í næstu viku og í frönsku borginni Orleans í lok maí – á íslensku, framtíð þess á frönsku er óráðin enn. Leikritið er samið af frönsku skáldkonunni Marie Darrieussecq. Þegar ég kvaddi hana var framtíðin svona: „Fyrst fer ég á myndlistarsýningu og svo fer ég á bókmenntahátíðina í París – þetta er síðasta kvöldið og ég reikna fastlega með því að verða full.“
En hún er væntanlega komin heim núna og kemur til Íslands til þess að sjá sýninguna næsta laugardag. Enda verkið samið fyrir okkur. „Þjóðleikhúsið bað mig að skrifa það – en ég hafði verið að hugsa um þessa hugmynd lengi. Ég vildi skrifa, ekki endilega fyrir Ísland, en ég byrjaði með þessa hugmynd um smáríki sem var klofið, í stríði,“ segir hún og minnist annarra stríða. „Þetta byrjaði með minningum vinar sem var í stríðinu í Líbanon og svo minningum annars sem var í Sarajevo. Þannig að ég fór að hugsa, hvað myndi ég gera ef ég væri flóttamaður? Hvernig myndi ég láta, hvað myndi ég borða, hvernig myndi ég fæða börnin mín? Og svo framvegis og svo framvegis. Upphafspunkturinn er við, þetta fólk sem er vant því að borða, lesa og skemmta sér áhyggjulaust – hvað gerist þegar það breytist, gjörbreytist?“ Leikritið hefur yfir sér ákveðinn blæ vísindaskáldskapar en sá blær hefur í raun minnkað í kjölfar liðinna atburða. „Nú segir fólk mér að í kjölfar hrunsins taki leikritið á sig allt aðra, einkennilegri og sterkari merkingu – eitthvað allt annað en ég hafði í huga.“
LÍSA:
Þegar þjóðríki er rekið eins og nunnuklaustur
með smá samfélagshjálp hér og smá samfélagshjálp þar skóla hérna og spítala þarna gerist það einn daginn búmm spítalinn farinn
daginn sem við fengum flugmiðana okkar passana peningana ákvörðunina búmm flugstöðin farin
Ástandið er þó, ennþá, allt annað í Frakklandi. „Í augnablikinu sérðu ekki nein merki hruns í Frakklandi. Þú sérð það ekki en maður heyrir um að atvinnuleysi vaxi mjög hratt. En í augnablikinu sér maður ekki meira heimilisleysi eða neitt slíkt, í augnablikinu er allt við hið sama – allt lítur eins út – en allir hafa áhyggjur,“ segir hún og mér dettur í hug að ef heimilisleysið verði mjög slæmt megi alltaf bjóða þeim hingað til þess að fylla öll tómu húsin í úthverfunum sem ekki einu sinni byggingarkranarnir heimsækja lengur.
Yrðum við vinir áfram?
Þessar eyðibyggðir hafa yfir sér vísindaskáldsagnablæ, hús sem enginn býr í eða hefur nokkurn tímann búið í. En hvað með Sædýrasafnið, er það vísindaskáldskapur eða einfaldlega saga úr stríði? Aðalpersónurnar hittast á sædýrasafni titilsins, tvö pör – annað býr þar, hitt kemur sem gestir. Og það er erfitt að átta sig á umheiminum.
„Ég skrifaði leikritið fyrir Arthur, leikstjórann, og hann kom mikið að skriftunum. Hann kom með vísindaskáldsöguhlutann, fyrir mér er þetta ekki svo mikill vísindaskáldskapur en hann togaði það í þá átt. En raunveruleikinn slær stundum skáldskapnum við – ef einhver hefði spáð fyrir um hrunið fyrir fimm árum hefði það verið kallað vísindaskáldskapur.“ Téður Arthur er Arthur Nauzyciel sem hefur sett upp nokkur verk hérlendis undanfarin tvö ár. Samvinna þeirra Marie nær langt aftur.

„Við Arthur höfum unnið saman í fjögur ár. Við byrjuðum á að aðlaga Ordet eftir danska rithöfundinn Kaj Munk. Það gekk mjög vel í Frakklandi og við erum miklir vinir og vinnum saman fyrir leikhúsið hans í Orleans, nálægt París. Við eigum margt sameiginlegt listrænt, við skiljum hvort annað mjög vel. Oft þurfum við ekki að tala, erum stundum nánast skyggn hvort á annað.“
En hversu langt nær vináttan? „Fjölskylda Arthurs er gyðingar sem voru sendir úr landi í síðari heimsstyrjöldinni. Við höfum oft velt fyrir okkur… ef þetta gerðist aftur myndi ég þurfa að taka þig heim og fela þig? Hvernig gæti ég haldið þér uppi og fætt þig – myndum við vera vinir áfram ef þú þyrftir að búa heima hjá mér?“ Pörin tvö í leikritinu eru líka gamlir vinir, vinir frá friðartímum. „Þau eru gamlir skólafélagar, en annað parið er borgarpar og hitt sveitapar. Örlögin hafa sent þau á mismunandi staði og þau standa að vissu leyti fyrir þessa baráttu, borgin og sveitin.“
„Þið eruð auðvitað hvalaætur…“
Og Sædýrasafnið, vinin í borginni. Hvaðan kom hugmyndin að því? „Ég fæddist við hafið og eyddi öllum helgum við sædýrasafn með foreldrum mínum – við pabbi stukkum yfir girðinguna og horfðum á selina, borguðum ekki. En í hverju einasta stríði eru vandamál með dýragarðana – annaðhvort er dýragarðurinn sprengdur upp, dýrin sleppa, deyja úr hungri eða fólkið borðar þau. Það gildir það sama um sædýrasöfn – og ég fór að velta fyrir mér hvað ég myndi gera, myndi ég borða fiskinn? Myndi maður jafnvel borða „mennskari“ dýrin, selina eða höfrungana,“ segir hún og man svo hverrar þjóðar blaðamaðurinn er og bætir við kankvís: „Þið eruð auðvitað hvalaætur þannig að þið getið það, en ég veit ekki hvort ég gæti það.“
LÍSA:
stóðst bara þannig og beiðst uns heimurinn hrundi
með eitt eða tvö snjallyrði á vörunum
þurrkaðir hendurnar á svuntunni
Ég er nýbúinn að sjá aðra heimsendissýningu hjá Stúdentaleikhúsinu og spyr Marie hvort heimsendissögur séu að komast aftur í tísku. „Já, jafnvel ef fólk vissi ekki um hrunið meðvitað var undirmeðvitundin búin að segja því frá því. Allir bjuggust, ómeðvitað, við því að eitthvað svona væri að fara að gerast. En við í Frakklandi vonum líka að þetta leiði eitthvað gott af sér. Kenni okkur að vera ekki jafn hirðulaus um hnöttinn okkar, að kaupa minna og hugsa aðeins meira. Vonandi kemst í tísku að hugsa meira.“
Hún nefnir að mynd Ingmars Bergmanns, Skömmin ( Skammen ), hafi verið áhrifavaldur, en hún fjallar um hversu ómögulegt hlutleysi er í raun. „Parið sem býr í sædýrasafninu reynir að vera hlutlaust. En þú getur ekki verið það. Þú ert alltaf fastur í skítnum, þú kemst ekki hreinn út úr þessu – þú þarft að taka þátt í baráttunni, maður þarf að óhreinka sig í þessu lífi. Hitt parið kemur með stríðið með sér. Þau vita meira, þau vita að það er ekki hægt að vera hlutlaus. Ég veit ekki hvort það er svartsýni – en þú getur ekki lokað heiminn úti.“
MÆJA:
maður tekur upp
maður tekur upp upptökuna
og svo aftur upptökuna af upptökunni
endalaust
og maður heyrir tímann rakna upp
skrjáfið þegar fellingarnar strjúkast saman
Marie er reynslumikill rithöfundur þrátt fyrir ungan aldur en leikhúsið er enn nýtt fyrir henni, hingað til hefur hún fyrst og fremst samið skáldsögur. „Í skáldsögunum mínum eru aldrei samtöl, ég kunni ekki að skrifa samtöl. En við það að vinna að því að aðlaga Ordet áttaði ég mig á því að samtöl í leikriti eiga ekkert skylt við samtöl í skáldsögum. Á sviði þurfa orðin að vera réttlætt af líkama leikarans, veru hans á sviðinu. Það er allt önnur hrynjandi en í skáldsögu – og mig langaði að reyna. En þetta er ekki leikrit til þess að lesa – ég hugsa að þetta sé mjög erfitt leikrit lestrar. Þetta er nánast eins og ljóð, þetta er skapað til þess að vera leikið. Leikararnir og leikstjórinn hafa mikið um það að segja hvernig leikrit þetta verður.“
En hvers vegna varð hún rithöfundur? „Það hófst þegar ég var barn, sex ára, um leið og ég lærði að skrifa. En öll börn eru listamenn, leyndardómurinn mikli er hvað veldur því að sum halda áfram.“
Hin líkamlega nánd (spjall við þýðandan Sjón)
„Ætli við höfum ekki hist fyrst fyrir einum tíu árum og síðan héldum við smásambandi. Þegar Skugga-Baldur kom út í Frakklandi var hún fengin til að gefa komment á bókarkápuna. Skömmu síðar hafði hún samband og spurði mig hvort ég vildi þýða leikritið. Ég sagði eins og var, ég kynni ekkert í frönsku, en þau voru alveg ákveðin í því samt að ég skyldi vera sá sem byggi til íslenska textann. Þannig að Marie lét þýða þetta yfir á ensku og það var textinn sem ég hafði til þess að vinna. Svo kom hún hingað og við tókum tvær-þrjár sessjónir og lögðumst yfir textann. Við áttum langan fund yfir grænmetisfæði á veitingahúsinu Á næstu grösum og fórum í saumana á hverri einustu setningu í leikritinu. Það var ógurlega skemmtilegt, það gaf mér beinan aðgang að því hvernig hún hugsaði þetta. Hún vinnur mikið með málið og er í leikritinu að gera mjög skemmtilegar tilraunir með það hvernig fólk byrstir sig í töluðu máli. Á sama tíma tekst henni að búa til mjög flotta sálfræðilega mynd af þessum manneskjum.

Ég var líka mjög ánægður með að fá að setjast niður og vinna með henni af því að ég hef mikið álit á henni sem rithöfundi. Mér fannst bókin Gylting einhver glæsilegasta og mest spennandi fyrsta bók sem ég hef lesið eftir nokkurn skáldsagnahöfund. Ég veit að hún seldist ekkert mikið á Íslandi en þeir sem höfðu vit á að krækja sér í hana féllu fyrir henni. Hún er náttúrlega fantasísk, fjallar um konu sem breytist í gyltu. Þannig að þar er hún að vinna með mjög beinar líkamlegar ummyndanir. Í seinni tíð hefur hún verið meira á sálfræðilegu nótunum, en það er alltaf einhver spennandi líkamleg nánd í öllu sem hún gerir og líkaminn er alltaf einhver vettvangur innri átaka. Það er í þessu leikriti líka, þetta er heimur sem er að vissu leyti á heljarþröm, það birtist meðal annars í því að í leikritinu eru tvær til þrjár verur sem hafa tekið líkamlega á sig þá sundruðu veröld sem þar birtist.“
– Sjón, þýðandi verksins.
Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.
Viðtalið birtist upphaflega í Lesbók Morgunblaðsins 21. mars 2009.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson
Mynd af Marie: By Ji-Elle – Own work, CC BY-SA 3.0, https://commons.wikimedia.org/w/index.php?curid=16611963
Mynd af Sjón: By Hörður Sveinsson – Sjon’s publisher Bjartur (www.bjartur.is), Copyrighted free use, https://commons.wikimedia.org/w/index.php?curid=1518449