Rebecca Elson var stjarneðlisfræðingur og skáld og dó ung – hún lifði ekki að verða fertug og hún lifði ekki aldamótin, heldur dó 39 ára gömul árið 1999.
Hún kláraði doktorsnám í stjarneðlisfræði en ljóðlistin fylgdi henni allan tímann og hún talaði um að opinn og samheldinn hópur ljóðskálda Princeton væri ágætis mótefni við karllægum heimi raunvísindanna. En hún vildi alltaf finna leiðir til þess að sameina þessi tvö hugðarefni sín og það gerði hún oft í ljóðlistinni, í ljóðum sem eru fullmeðvituð um nýjustu uppgötvanir í stjörnufræðinni en eru engu að síður fyrst og fremst ljóð.
Ljóðmál getur nefnilega stundum staðnað – jafnvel ljóðskáld sem eru löngu gengin af trúnni og kunna sína menntaskólastjörnufræði kunna samt oft aðeins úrelt ljóðmál varðandi himingeiminn.
En það er auðvitað að breytast, hægt og rólega. Tveir af mínum bestu vinum eru par sem eru bókmenntafræðingur og stjarneðlisfræðingur og mér finnst alltaf jafn gaman að rekast á geimljóðabækur heima hjá þeim.
Laugardagsljóðið fjallar hins vegar um óttann við dauðann og hvernig hún tekst á við hann, eitthvað sem ýmsir eru að takast á við núna. En í gegnum stjörnufræðina nær hún að staðsetja sjálfa sig í alheiminum, bæði sem stjörnuátvagl að borða stjörnur, að hætti Galactus, þess hættulegasta fjandmanns X-mannana sem Hollywood á ennþá eftir að endurskapa, og líka sem hráefni í nýja heima.
Kannski erum við það öll, kannski tortímum við sjálfum okkur og verurnar sem taka við af okkur verða miklu vandaðri dýrategund, sem fljúga burt á litríkum vængjum? Hver veit. Ljóð Elson komu út eftir dauða hennar, ódagsett, þannig að óvíst er hvort þetta ljóð sé samið með hennar eigin yfirvofandi dauða í huga – en þó er það líklegra en ekki, þar sem hún sigraðist á krabbameini sem hún fékk 29 ára áður en banameinið heimsótti hana löngu seinna. Ljóðið má finna á frummálinu hér – og fyrir neðan er þýðing.
Mótefni við dauðaangist
Stundum er besta mótefnið
við dauðaangistinni
að borða stjörnur
Þessar nætur, sem ég ligg á bakinu,
sýg ég þær í mig í svalandi myrkrinu,
þar til þær eru allar inni í mér,
beittar og heitar sem pipar.
En stundum hræri ég sjálfri mér
saman við alheim sem er enn ungur,
enn blóðheitur:
Enginn alheimur, bara heimur,
ljós allra stjarnanna sem síðar verða
sem reyka um eins og bjart mistur
og við öll, og allt
erum hérna nú þegar
en óbundnin forminu
sem mun brátt binda okkur.
Og stundum er nóg
að leggjast niður, hérna á jörðinni
við hlið beina forfeðra okkar:
Að ganga eftir beinakra
okkar yfirgefnu hauskúpna
allar heill fjársjóður, líkt og púpa,
þú hugsar: hver sú vera sem yfirgaf þessi hýði
flaug í burtu á litríkum vængjum
Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.
Ljóð: Rebecca Elson
Þýðing og inngangstexti: Ásgeir H Ingólfsson
Mynd: Photo by NASA on Unsplash