Bandaríski rithöfundurinn Paul Auster er í sóttkví en notaði tækifærið og rifjaði upp ferð til Úkraínu haustið 2017 og birti þessi minningarbrot á LitHub fyrir skemmstu.

Auster átti erindi til Lviv, þeirrar gullfallegu pólsku borgar – en hún er rétt við landamærin og þessi vestasti hluti Úkraínu hefur verið til skiptis pólskur, þýskur, austurrískur, úkraínskur eða sovéskur.

En föðurafi Austers var frá minni borg í nágrenninu, Ivano-Frankivsk, sem nefnd er eftir ljóðskáldinu Ivan Franko, sem bæði samdi fyrstu spæjarasögurnar og fyrstu nútímaljóðin á úkraínsku, svona fyrir utan það að þýða Shakespeare, Hugo, Byron, Dante og Göthe meðal annarra, og að sitja fyrir á 20 hryvnia-seðlinum.

En eins og títt er um borgir gömlu Sovétríkjanna hefur borgin átt mörg nöfn, enda verið í mörgum löndum, Stanislawów, Stanislau, Stanislaviv og Stanislav meðal annarra.

Afi Austers hafði fæðst í Stanislav um 1880, þegar Franko var um tvítugt, og Auster fann konu frá borginni sem skipulagði ferðalag á staðinn. Þar hittir hann bæði rabbína og svo ljóðskáld og búddísta sem er sömuleiðis margfróður sagnfræðingur, og þótt hann nái ekkert að fræða hann um örlög Auster-ættarinnar þá situr Auster stjarfur og hlustar á söguna um úlfaborgina í heimstyrjöldinni.

Þetta er merkilegur pistill um sannleikann í heimstyrjöld og sagnfræði, þegar sumt er ómögulegt að sannreyna, um fortíð forfeðra okkar, blindu blettina í fjölskyldusögunni og Auster nær þessum blóðvöllum tuttugustu aldarinnar vel, þessu svæði sem mátti þola meiri hörmungar en flest svæði Evrópu á síðustu öld og er enn hálfgerður stuðpúði á milli austurs og vesturs – þótt nú séu átökin hinum megin í landinu, frá vesturhlutanum kemur svo stór hluti rafmagnsins sem ýmsir nágrannar í vestri brúka.

Hér getið þið svo lesið söguna um Úlfana í Stanislav.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson

Mynd: The Struggle for Existence eftir George Bouverie Goddard (1879)