Bókasafn föður míns: sálumessa er titill þrunginn meiningu, en fyrir lesanda er kannski fyrsta spurningin: er hún um bókasafnið eða pabbann? Svarið er einfaldlega bæði, sem er vafalaust fullnægjandi svar fyrir þau okkar sem höfum reynslu af bæði föðurmissi og rækilegri grisjun bókasafns. Það sem er sérstakt við sögu Ragnars Helga er aðallega hvað þetta eru nátengdir hlutir.

Faðirinn var bókaútgefandi og virðist af bókafólki kominn, langt aftur í ættir. Gjörningurinn snýst því um æviverk föðursins og kollega hans öðrum þræði, en það er líka orðið æviverk Ragnars Helga, eftir krókaleiðum, þótt að hann hafi reynt eins og hann gat að feta aðra braut. Braut sem er ekki einu sinni það langt í burtu, heimspeki og myndlistarnám eru náskyldar greinar og komið hefur fram í viðtölum að Ragnar Helgi sótti innblástur við uppbyggingu bókarinnar í myndlist.

Allan þennan tíma var hann „að læra að gefa út bækur, þótt ég tæki ekkert eftir því.“ Enda fæddur inn í fjölskyldufyrirtæki, með bókalagerinn sem leiksvæði.

„Að horfa upp á stæður eftir stæður af óseldum bókum í lagergeymslum, ár eftir ár, fyllir engan mann tilfinningu fyrir verðmæti bóka, svo mikið er víst. Magnið er yfirþyrmandi.“

Á köflum finnst manni hann hata bækur – en þegar það er borið undir hann þá svarar hann:

„– Samband okkar bókarinnar hefur aldrei verið svo barnslega naíft eða einfalt.“

Þetta vitrast manni sannarlega þegar líður á. Þetta er flókið samband, hann dregst alltaf aftur að bókunum, með einum eða öðrum hætti. Hann vill henda þeim, en þær elta hann uppi. Bæði bókasafn föður hans, sem og bókasafn hans sjálfs, sem hann fékk eftir skilnað. Hér lýsir hann bókakössunum sem eltu hann eftir skilnaðinn:

„Þeir voru lengi í stofunni, þöktu þar gluggalausan austurvegginn, eins og brúnt veggfóður.“

Svo ég leyfi mér útúrdúr: Ég kannast við þetta, þegar bókaútgáfa nokkur sem ég var laustengdur undir lokin liðaðist í sundur þá varð heimilið um tíma undirlagt lager forlagsins, eiginlega óvart. Þessar bækur hreinlega eltu mig. Þegar ég ákvað svo að flytja erlendis til langdvalar var þetta mesta áskorunin, að grisja bækurnar. Fyrst í íbúðinni þar sem ég hafði leigt í rúmlega þrjú ár, síðan í næsta flutningi ári síðar og svo kom loks stóra grisjunin, hálfu ári seinna, þegar ég flutti út. Nýhil-lagerinn hvarf í fyrstu flutningunum, sömuleiðis svona 75 prósent af öllum hinum bókunum. Það sem eftir var endaði í geymslu á Íslandi, fyrir utan það allra mikilvægasta sem varð svo vísirinn að bókasafni útlandsins, sem telur enn ekki nema um tvo-þrjá bókaskápa, enda verður erfiðara að kaupa fýsískar bækur eftir svona blóðugan niðurskurð.

Maður pælir svo lítið í þeim þegar þær eru horfnar, þótt auðvitað sakni maður stöku sinnum einhverra ákveðinna bóka – en þetta er tvíbent ástand, bækurnar eru ekki lengur þrúgandi en þær umvefja mann samt ekki heldur lengur. Núna er ég svo fastur heima í kófinu – og finnst ég stundum alveg jafn fastur út af öllum þessum 25 bókasafnsbókum sem ég fékk að láni og tími helst ekki að skila fyrr en ég er búinn að lesa þær allar.

Manni finnst stundum að það vanti samt að sýna jákvæðu hliðarnar aðeins betur, sýna ástina sem maður skynjar alveg að liggi undir. Það er öfug aðfinnsla en sú sem ég myndi gera við flesta texta sem bókstaflega fjalla um bækur; oftast er lotningin, upphafningin og blætið of mikið til að jafnvel ég, bókmenntafræðingurinn og skáldið, tengi almennilega við það. Þannig kolefnisjafnar hún aðeins umræðuefnið, en innan bókarinnar væri samt forvitnilegt að skynja betur hvað togaði hann til baka, annað en óræð ættarfylgja.

Kannski er þetta misheppnað eftirá föðurmorð? Uppreisn Ragnars Helga sem ungs manns virðist miðað við bókina aðallega felast í því að gera eitthvað annað en pabbinn, en svo dregst hann alltaf til baka í bókmenntirnar. Mig grunar samt að sambandið við bækurnar hefði bara flækst seinna ef foreldrarnir hefðu haft annan starfa.

Ég ólst vissulega upp á heimili sem var fullt af bókum, en hvorki mamma né pabbi höfðu atvinnu af bókum. Þess vegna voru bækurnar nær alltaf ævintýraheimur, það er svo ekki fyrr en á fullorðinsárum þegar starfsvettvangurinn hefur oftast eitthvað með bækur að gera sem þær fara stundum að verða þrúgandi, bæði vegna þess að lestur verður oft vinna og vegna þess að húsaskjól bókanna er á mína ábyrgð.

Bókin á tímum fésbókar

Annar undirtónn bókarinnar er að bókin sé að deyja. Við sem getum ekki hent bókasöfnum lesum samt minna en áður og bækurnar styttast og bókin verður sífellt minna miðlæg í veröldinni. Þetta er bölsýnisbók að þessu leyti, og þótt það sé ýmislegt til í bölsýninni er ég ekki alveg sammála þar heldur. Bókin er nefnilega ekkert einstök að þessu leyti. Það fara færri í bíó, það mæta færri á íþróttaleiki, það lesa færri dagblöð á pappír, það horfa færri á línulegt sjónvarp – það er einfaldlega miklu meiri samkeppni um tíma okkar en var í fábreytninni fyrir 30 árum eða 100 árum, það er miklu erfiðara að öðlast einhvern miðlægan sess í þjóðfélagsumræðunni, kannski aðallega af því hún hefur verið rækilega afmiðjuð – svona þegar það eru ekki blaðamannafundir vegna heimsfaraldurs. Gott dæmi um þrautsegju bókmenntanna er lítil 35 ára úrklippa sem ég sá nýlega um stöðu ljóðsins á tímum myndbandaleigunnar. Nú vitum við hvor menningarstofnunin dó á undan (Þótt vonandi sé það tímabundið, ég held að góð vídjóleiga sé lúmskt góð viðskiptahugmynd).

Hins vegar má kannski segja að gripurinn sé í meiri hættu en innihaldið, miðlunartæknin sjálf, pappírinn og kilirnir. Þetta á einmitt við um alla list, þótt færri mæti þá er ekki þar með sagt að menningarneysla minnki – hún er bara meira og meira á rafrænum vettvangi.

„Hver skáldsaga er loforð um afmörkun, endanleika og sjálfstæði hverrar bókar eða hvers verks.

Með netið er þessu þveröfugt farið, þar er allt krossað, tengt, laust við skýr landamæri, ekki endanlegt, opið – líkara sveppagróðri en blómvendi í sellófani.“

Þannig verður bókin brotið loforð á tímum internetsins. Það hafa verið skrifaðar bækur um bókasöfn áður, eins og smásaga Borgesar sem Ragnar Helgi minnist á, sem snúast helst um ógnarstærð þeirra. En bókasöfn, sama hve stór þau kunna að vera, eru samt byggingar (eða hluti af byggingum), við getum talið fermetrana og titlana, við skiljum stærð þess og getum jafnvel reynt að reikna út hvað tæki okkur marga mannsaldra að lesa allar þessar bækur.

Það er hins vegar blekking sem gengur ekki lengur upp, það er nánast ómögulegt að skynja almennilega stærð internetsins, sem er agnarsmátt og risastórt í senn, kemst fyrir í lófa um leið og það þekur nánast gervalla jörðina. Það þýðir líka að lestur breytist þótt hann hverfi ekki endilega, við höfum örugglega flest eytt heilum degi í að lesa allan fjandann þótt við höfum ekki náð að opna bók. Grúskið er ekkert dáið, það flutti bara á internetið þar sem maður getur grafið holu eftir holu á Wikipediu og fleiri stöðum og fundið ótrúlegustu hluti sé maður í þannig stuði.

En manni finnst maður oft ekki hafa gert jafn mikið og ef maður kláraði bók eða bíómynd, það er nefnilega ómögulegt að klára internetið.

Þetta loforð um afmörkun er svo líka eitthvað sem virðist nánast ómögulegt að halda þegar maður ætlar sér að skrifa um raunveruleikann.

„Það getur verið flókið að þekkja einhvern vel. Stundum grunar mig að þeim mun betur sem maður þekki einhvern, þeim mun verr gangi persónan upp. Við fyrstu sýn finnst mér fólk oftar en ekki meika sæmilega sens, vera heildstætt rökrétt kerfi. Þegar maður kynnist fólki betur – og fáa þekkir maður betur en foreldra sína – þá sér maður að það er ekki safn algildra reglna, ekki einu sinni þumalputtareglna. Mótsagnirnar í fólki skerpast við nánari kynni.“

Bókin fjallar nefnilega líka um ómöguleika þess að skrifa bók um föður sinn. Bæði vegna þess að nálægðin er svo mikil að maður á erfitt með að greina drætti en líka vegna alls þess sem maður veit ekki og er of seinn að spyrja um. Hann leitar ósjálfrátt svara í bókunum sem hann skyldi eftir sig og fær þar svör, en bara brotin af öllum svörunum. Faðirinn var til dæmis sjónvarpsmaður og ritstjóri áður en hann varð bókaútgefandi – þau störf fá þó miklu minna pláss, mögulega af því þann hluta þekkti Ragnar Helgi miklu síður. Það er þessi blindi blettur í ævi foreldra okkar, áður en við fæðumst og áður en við erum orðin nógu gömul til að muna sem og skilja ákveðna hluti almennilega.

Hann verður svo sífellt uppteknari af þjóðlegum fróðleik eftir því sem hann fer í gegnum bókasafnið og fléttar slíkum fróðleik töluvert saman við bókina. Það verður stundum hvimleitt þeim okkar sem finnst þjóðlegur fróðleikur sjaldnast sérlega skemmtileg bókmenntagrein, en tengir engu að síður ágætlega við viðfangsefnið. Þjóðlegur fróðleikur er nefnilega, rétt eins og æviminningar að öllu tagi, tilraun til þess að festa heiminn á bók áður en hann hverfur eða breytist þannig að hann verður óþekkjanlegur.

Þjóðlegur fróðleikur er þó að sumu leyti þær bókmenntir sem eru líkastar fornsögunum og Ragnar Helgi minnist aðeins á hugmyndir fornra manna um að „Fjórðungi bregður til föður, fjórðungi til móður, fjórðungi til fósturs og fjórðungi til nafns,“ og mátar sig í raun við þá kenningu að einhverju leyti. Bókin er nefnilega að vissu leyti sjálfsgreining höfundar. Ekki sjálfsævisaga, við fáum hér aðeins glefsur úr ævi höfundar, eins og þær tengjast bókasafninu og föðurnum, heldur greining á því hvaðan allavega nokkrir hans fjórðungar eru upprunnir.

Svo er þetta líka saga föðursins, þótt hún sé ekki sögð beint nema í glefsum. Þetta virðist vera maður sem er beintengdur starfinu miðað við að hann er fram á hinstu stund að leggja lokahönd á þrjár bækur; viðtalsbókin við Laxness, sína fyrstu og einu ljóðabók og svo Bréf til Unu, sem kannski er mikilvægust þeirra allra – bréf til dóttur Ragnars Helga sem skal afhenda henni þrettán árum eftir andlátið. Megnið af þessu vélritaði hann með einum putta, þegar önnur tjáningartæki höfðu brugðist – þannig kallast sagan aðeins á við Köfunarbjölluna og fiðrildið, bókina sem fyrrum ritstjóri Elle skrifaði með því að blikka augum til aðstoðarfólks síns.

Það er afskaplega vel farið með andlátið sjálft, hvernig hann fréttir að því hinum megin á hnettinum að núna sé hinsta stundin að nálgast og hvernig þeirri hinstu stund er lýst, augnablikið sem faðirinn hverfur er undurfallegur texti.

En þótt það sé hin eiginlega kveðjustund þá er bókin öll kveðja, sálumessa. Til föður sem er að hverfa en líka veraldar sem er að hverfa með honum.

Svo eru til fleiri söfn til en bókasöfn. Til dæmis myntsöfn. Það er rakin saga af því hvernig myntsafnið glatar verðgildi sínu ekki síður en bókin þegar Safnarabúðin hverfur og strípibúllan Strawberries tekur við. Og hverfur svo sjálf, samanber eftirmála. Þannig verður þetta ekki síst saga um tímann, hvernig allt breytist og ekkert er eilíft. Þar er harmurinn, ekki verðleysi myntsafnsins sem slíks.

Ungur les Ragnar Helgi bókina Sólin, þar sem fram kemur ýmislegt ógnvekjandi um kulnun sólar, óralangt inn í framtíðinni. Hann hugsar með sér:

„Var þetta bara alkunna? Var þetta á allra vitorði? Og hvers vegna þagði fólk um þetta?“

„ég hef í rauninni aldrei fyllilega sæst við þessa staðreynd.“

Þessi bók virðist þó einmitt tilraun til að sættast við þá staðreynd, þá staðreynd að allt hverfur á endanum, að allt deyr. Jafnvel það sem er skrásett, sú skrásetning mun hverfa, brenna með öllum bókasöfnum heimsins. Og við náum aldrei að klára allt, samanber ótal kassa af dóti föðursins sem eru einfaldlega merktir svo: „Til úrvinnslu“

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson