Kona gengur inn í búð. Ljóshærð í litríkum fötum, stelpuleg þrátt fyrir að vera miðaldra, lífsglöð en þó er einhver óræður harmur – hún er einlæg en um leið forðast hún augnsamband þegar spurningarnar verða erfiðar. Forngripasalinn kemur fram, neitar öllum hennar umleitunum – við finnum að þau eiga sér sína sögu og við vitum að hann er búinn að læra fyrir löngu að hún á aldrei eftir að enda vel.

Það eru svona senur sem Lynn Shelton er svo frábær í að búa til, skrifa lausbeislað handrit sem er svo spunnið áfram, maður veit aldrei almennilega hvar handritið byrjar og hvar spuninn endar, en þó eru nógu sterk höfundareinkenni á öllum hennar myndum til að maður sjái að þetta er ekki eintómur spuni.

Já, og þessi ljóðshærða kona er einmitt Lynn Shelton sjálf, að leika Deirdre. Og kaupmaðurinn Mel er leikinn af Marc Maron, sambýlismanni hennar. Það vissi það enginn þá að þetta yrði hennar síðasta mynd – og raunar hennar síðasta sena sem leikkonu, þetta er lítið en mikilvægt hlutverk, bara eitt atriði. Shelton dó, öllum á óvörum, í síðustu viku úr sjaldgæfum blóðsjúkdómi nánast fyrirvaralaust.

Og þar með misstum við fantafína leikstýru, sem manni fannst vera rétt að byrja. Fáir eru jafn flinkir að vinna með leikurum, plottið er sjaldnast aðalatriðið, oftast er aðalmálið hvað er einfaldlega gaman að hanga með persónunum sem hún skapar í samstarfi við leikarana.

Suðurríkjasverðið hans afa

Sword of Trust fjallar um sverð sem á að hafa sannað að Suðurríkin hafi unnið Þrælastríðið. Sem er vitaskuld galin kenning – og aðalpersónurnar leggja fæstar nokkra trú á söguna. En sverðið var arfur Cynthiu (Jillian Bell) eftir afa sinn, það eina sem hún erfði þar sem bankinn hirti rest, þar á meðal húsið. Hún fer ásamt ástkonu sinni Mary (Michaela Watkins) til næsta forngripasala, áðurnefnds Mels, sem rekur búðina með aðstoð síns hundtrygga aðstoðarmanns Nathaniel (Jon Bass). Framan af minnir myndin dálítið á uppfærða útgáfu af Clerks í einhverri hliðarveröld, þar sem miðaldra skarfur og ungur vitleysingur starfa saman í fánýti sínu.

En svo fer að færast alvara í leikin þegar sverðið kemur til sögunnar. Mel hlær að sögunni þeirra til að byrja með, en þegar hans hundtryggi aðstoðarmaður sýnir honum vefsíður þar sem vafasamir hópar þjóðernissinna bjóða fúlgur fjár fyrir svona gripi snýst honum hugur. Þetta er svo sannarlega fólk sem hann er meira en tilbúinn til þess að rýja inn að skinni.

Vandinn er bara sá að sveitalubbarasistar stunda viðskipti dálítið öðruvísi en siðmenntað fólk. Þannig enda aðalpersónurnar aftan í trukk á leiðinni á sveitaóðal í Tennessee, eða eins og þau orða það – „núna erum við bókstaflega inni í hausnum á klikkuninni.“

En einmitt þarna á leiðinni, í miðri mynd, þar sem flestir leikstjórar hefðu bara haft örstuttan millikafla, er lykilsena myndarinnar. Þau byrja að spjalla, við komumst að því hvernig þær stöllur byrjuðu saman – og svo fáum við skyndilega ævisögu Del. Marc Maron er merkilegur leikari, hann er þessi úfni gamli hundur, sem maður sér alveg að er alls ekki ómyndarlegur bak við gleraugun og skegginn og notuð fötin, en hann er lifaður – og Deirdre er hans kross, þetta er hans sálumessa um þeirra samband, æskuástina sem steypti þeim báðum í glötun. Þetta er magnaður leikur, bara þetta eina atriði, magnaður mónólóg, með magnaðri einræðum kvikmyndanna. Sem verður svo enn tragískari þegar maður veit eftirmálan, þótt Shelton hafi átt fátt skyld með Deirdre.

Myndin veit hins vegar ekki alveg hvað hún vill vera – skyndilega erum við nefnilega aftur kominn í allt aðra mynd, sem er þó skemmtileg í fáránleika sínum – yndislega súrt leikrit um samskipti siðaðs fólks, sem er þó samt að amerískum sið alltaf að leita að auðveldum gróða, og svo rasísku klikkhausanna. Það kemur meira að segja í ljós að Del þekkir tvo þeirra, mestu kjánana, frá því þeir voru strákar – og syrgir mjög að þeir hafi ekki frekar farið að fordæmi mæðranna en feðranna, sem voru álíka vitleysingar.

Dan Bakkedahl er svo ógleymanlegur sem óðalseigandinn ógurlegi og myndin bregður upp forvitnilegri nærmynd af Bandaríkjum falsfréttanna, þar sem alls konar rugl er í loftinu. Pörin tvö sem bera myndina uppi eru að vissu leyti andstæður, Del og Mary lífsþreytt og kaldhæðin, Cynthia og Nathaniel góðviljuð en vissulega afskaplega hrekklausir kjánar líka.

Allt er fertugum fært

Næsta á undan þessari gerði Shelton mögulega sína alvarlegustu mynd, Outside In, sem smyglað var um hér, og stuttu fyrr höfðu leikkonur á borð við Keiru Knightley, Emily Blunt og Rosemarie DeWitt blómstrað í myndum á borð við Laggies og My Sister‘s Sister – og svo á ég enn óséða myndina sem hún sló í gegn með, Humpday.

Þegar Shelton var að nálgast fertugt þá var hún farin að hafa áhyggjur af því að það væri orðið of seint að láta leikstjóradrauminn rætast – en þegar hún sá fyrirlestur með Claire Denis þar sem sú franska rifjaði upp að hún hefði leikstýrt sinni fyrstu mynd fertug fékk Shelton endurnýjaða trú á verkefnið, hún hefði kannski nægan tíma eftir allt saman? Hún leikstýrði sinni fyrstu mynd 39 ára og leikstýrði 9 myndum á 14 árum, auk ótal sjónvarpsþátta. En samt reyndist tíminn því miður alltof naumur.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson