Fred Hampton var efnilegur ungur maður. 21 árs gamall, stundaði laganám og var svæðisstjóri Illinois-fylkis fyrir Svörtu pardusana. Heimildagerðarmennirnir Howard Alk og Mike Gray voru að gera mynd um hann – en svo kom 4. desember 1969. Rétt fyrir dagrenningu réðst alríkislögreglan inn í íbúð Hamptons í Chicago. Stuttu síðar var Fred Hampton allur. Sama átti við um Mark Clark, sem einnig var í íbúðinni ásamt Hampton og kærastu Hamptons, Deboruh Jones, sem mánuði síðar átti eftir að fæða son þeirra.
Lögreglan var vissulega með leitarheimild og það voru samantekin ráð lögreglunnar að láta líta út fyrir að Hampton hafi svarað þeim með að skjóta á móti, það var að sögn þeirra hreint kraftaverk að enginn lögreglumannana hefði látist. Eða særst.
En lögreglan vaktaði íbúð Hamptons ekkert sérstaklega vel í kjölfarið og heimildamyndagerðarmennirnir gátu valsað þar um eins og þeim sýndist – og um leið gátu þeir aflað sönnunargagna sem stönguðust rækilega á við sönnunargögn FBI-manna og flest þau gögn sem fram komu í réttarhöldum og í fjölmiðlum. Niðurstaðan var í raun einföld, Fred Hampton hafði verið myrtur af alríkislögreglunni að yfirlögðu ráði. Eina skotið sem pardusarnir hleyptu af komu úr byssu Clarks, eftir að hann hafði verið skotinn á stólnum þar sem hann sat og vaktaði íbúðina. Niðurstaðan varð því nafn myndarinnar: The Murder of Fred Hampton.
Samherjar hans voru ákveðnir í að halda baráttunni áfram og sögðu: „Við helgum okkur því að dauði hans verði ekki til einskis. Það verður ekki syrgt meira á morgun. Öll okkar sorg verður að gjörðum.“
Þegar annar samherji er spurður að fréttamönnum um hvort pardusarnir muni hefna svarar hann því neitandi. „Það verða engar hefndaraðgerðir frá pardusunum. En ég held sá tími muni koma þegar fólkið mun sjálft taka völdin til sín og gera það sem gera þarf til þess að tryggja líf, frelsi og réttinn til að leita hamingjunnar.“
Myndin sýnir bæði líf Hamptons og eftirmála dauða hans, fyrri hlutinn er að mestu helgaður lífi hans og seinni hlutinn morðrannsókn heimildamyndargerðamannana. Það gekk hins vegar illa að fá athygli í Chicago fyrir myndina, bæði tók tíma að finna einhvern sem var tilbúinn til að framkalla myndina og engin dagblöð vildu birta auglýsingar um sýningar á myndinni. Hún gekk öllu betur í Evrópu, þar sem hún var sýnd á kvikmyndahátíðinni í Cannes – og núna, löngu seinna, síðasta febrúar á kvikmyndahátíðinni í Berlín.
Það var svo um áratug seinna sem Fred Hampton fékk loks uppreisn æru. Sama ár og myndin var frumsýnd var hulunni svipt af COINTELPRO, deild innan FBI sem J. Edgar Hoover notaði til þess að njósna um og dreifa fölskum áróðri um alls kyns félagasamtök sem honum voru ekki að skapi, svo sem Kommúnistaflokkinn, Svörtu pardusana og önnur samtök blökkumanna, samtök femínista, dýraverndunarsinna, andstæðinga Víetnams-stríðsins og marga fleiri hópa. Allt varð þetta til þess að mæður eftirlifandi aðstandendur Hamptons og Clarks fengu loks bætur meira en áratug eftir dauða þeirra – og söguskoðun heimildamyndargerðamannana er núna orðin almenn.
Myndinni líkur svo á ljóði Hamptons, þar sem hann sér örlög sín fyrir – þá og í þeirri fjarlægu framtíð sem við lifum núna:
I‘ve been gone for a little while.
At least my body‘s been gone
for a little while.
But I‘m back now.
And I believe that I‘m back to stay.
Allt þetta má svo sjá hérna, ókeypis á internetinu. Sagnfræði sem sakar ekki að kynna sér betur þessa dagana.
Texti: Ásgeir H Ingólfsson