Franska leikstýran Agnès Varda bjó í Kaliforníu árin 1967-8 og leikstýrði þar tveimur stuttum heimildamyndum um Svörtu pardusana, annars vegar Huey og hins vegar Black Panthers.

Sú fyrri er nefnd eftir Huey P. Newton, einum stofnenda Svörtu pardusana, og er að mestu tekin upp í kringum mótmælafund þeirra. Sú síðari sýnir hins vegar frekar hversdagsleika pardusana og þar fá konurnar meira pláss og greina okkur til dæmis frá því að hárgreiðslan og fatnaðurinn sé pólitískur, þetta sé þeirra hár og þeirra kúltúr, ekki kúltúr hvíta mannsins.

Við sjáum hér hversdaglegri aðgerðir Svörtu pardusana, svo sem súpueldhús fyrir bágst stadda og heyrum skýrt að leiðtogarnir eru bráðgáfaðir og vel menntaðir margir hverjir, vel að sér í hugmyndafræði tímans – sem í mörgum tilfellum á ekki síður við í dag, þótt rauða kverið hans Maó hafi kannski aðeins dottið úr tísku af skiljanlegum ástæðum.

Það hefur sjálfsagt komið Varda vel að sumu leyti að vera hvít og evrópsk. Hvítir amerískir kvikmyndagerðarmenn höfðu margir mátt þola heilaþvott FBI stofnunarinnar COINTELPRO – sem var, svo ég grípi niður í síðasta pistil: „deild innan FBI sem J. Edgar Hoover notaði til þess að njósna um og dreifa fölskum áróðri um alls kyns félagasamtök sem honum voru ekki að skapi, svo sem Kommúnistaflokkinn, Svörtu pardusana og önnur samtök blökkumanna, samtök femínista, dýraverndunarsinna, andstæðinga Víetnams-stríðsins og marga fleiri hópa.“

Svartir kvikmyndagerðarmenn hefðu hins vegar vafalítið getað gert þessu jafngóð skil og Varda – en á þessum árum voru þeir rækilega þaggaðir niður og áttu oft erfitt með að sýna myndir á borð við þessa, þannig var nafn Varda vafalítið ákveðinn Trójuhestur fyrir mynd á borð við þessa.

Viltu meira Menningarsmygl? Hér geturðu gerst áskrifandi á Karolina Fund og þar með tryggt framtíð miðilsins.

Texti: Ásgeir H Ingólfsson